Nú munar um það!

Það er ekki neinn smá áfangi í náttúruvernd á Íslandi sem felst í því að stækka Vatnajökulsþjóðgarð til suðvesturs þegar litið er á þær fyritætlanir sem uppi hafa verið um virkjanir þar og myndu valda miklu meira umhverfistjóni en menn hafa gert sér grein fyrir. 

Síðustu áratugi hafa verið uppi fyrirætlanir um svonefnda Skafárveitu, sem felst í því að veita Skaftá yfir í Langasjó og vatni síðan þaðan um jarðgöng yfir í Tungnaá. Með þessu muni skapast viðbótarorka í virkjanakeðjunni niður Tungnaá og Þjórsá upp á nokkra tugi megavatta en mest sé um vert, að þetta sé afar ódýr framkvæmd og hagkvæm.

Í öðru lagi hefur verið sagt að þetta sé afar umhverfisvæn aðgerð, því að með því að veita aurnum, sem Skaftárhlaup bera með sér, yfir í Langasjó, sé komið í veg fyrir sandburð hennar allt niður í byggð, sem jafnvel sé kominn að syðstu Lakagígunum.

 Í þriðja lagi hefur verið sagt að Skaftá hafi áður runnið í Langasjó og því sé það þarft verk að leiðrétta þetta og koma henni í fyrri farveg. 

Á ráðstefnu um Skaftárveitu fyrir nokkrum árum kom fram að Langisjór myndi fyllast upp af auri að mestu á 1-200 árum. Þar að auki myndi vatnið verða aurlitað en ekki himinblátt eins og verið hefur, en þessi blámi fegursta hálendisvatns á Íslandi hefur verið helsta prýði þess. 

Einnig hefur komið fram að Skaftá rann aðeins í Langasjó í 1-200 ár þegar jökullinn gekk lengst fram og það ástand er því alger undantekning á þeim 11000 árum sem það hefur verið til eftir að ísöld lauk.

Aðalatriðið er þó að á þessu svæði er í aldanna rás í gangi það sem ég vil kalla "The Greatest Show on Earth", stórfenglegasti náttúrusjónleikur eða sjónarspil sem þekkist á jörðinni og að það, að fara að umturna þessu svæði sé hliðstætt því að ruðst sé upp á svið í leikhúsi, þar sem verið er að sýna grískan harmleik eða mikið drama eftir Shakespeare og þess krafist að sýningin sé stöðvuð og færð til hugnalegri vegar. 

Þættir þessa mila sjónleiks felast í því að það skiptast á þættir hrikalegra eldgosa og þættir með miklum sandburði jökulhlaupa. 

Síðasti eldgossþáttur var í Skaftáreldum 1783 þegar hraun rann yfir sandinn, sem áður hafði runnið yfir hraun úr enn stærra gosi um 930. 

Nú stendur yfir þáttur sandburðar sem fyllir í hraunið en mun þó ekki komast yfir það allt, því að eftir fáar aldir mun aftur hefjast þáttur eldgoss sem sendir hraun frá sér til að þekja sandinn. 

Ef rétt er að staðið er í þessu fólgin gríðarlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem hefur hvergi nærri verið nýtt til þessa og gæti skapað margfalt meiri tekjur en , ef menn vilja bara hugsa um gróða og beinharða peninga beint í vasann í æðibunugangi virkjanaæðisins.

Ég er í móðurætt kominn af Landbroti og Síðu og er stoltur af ættmenninum mínum á þessu svæði, svo sem Jóni Helgasyni og fleiri, sem ég þykist vita að eigi hlut að því tímamótaverki sem þarna hefur verið unnið í samvinnu við röskan umhverfisráðherra. 

Þetta er þó aðeins áfangi, því að fyrir fáum árum voru við völd hér á landi ráðherrar sem töldu að friðlýsingar ætti ekki að virða ef virkjanahagsmunir krefðust. 

Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar náðist í gegn samþykkt, þar sem lýst var þeirri stefnumörkun að allt hálendið milli Suðurjökla og Vatnajökuls yrði friðað. 

Þetta er áfangi í því máli, og baráttan gegn skammsýnni eyðileggingu náttúruverðmæta á þessu svæði er rétt að byrja.

 

P. S. Ég biðst velvirðingar á því að þessi pistill hefur litið afar einkennilega út fyrsta hálftímann eftir að ég byrjaði að skrifa hann vegna óútreiknanlegra dynta í gamalli og slitinni tölvu, sem gerir stundum fáránlegustu kúnstir mér til armæðu. 


mbl.is Stækka Vatnajökulsþjóðgarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar góðir hlutir gerast hæfilega hægt.

Í allri umræðu um framkvæmdir við verksmiðjur er einblínt á störfin sem skapast á framkvæmdatíma en minna hirt um það hvað störf verða eftir til frambúðar.

300 ársverk skapast, er sagt, en gleymist að taka fram, að þegar skammvinnum framkvæmdum lýkur missa 300 manns vinnuna. 

Stóru tölurnar varðandi kísilverið í Helguvík eru 90 störf sem skapast til frambúðar í verksmiðjunni. Það gera 1,4 störf á hvert megavatt, sem er tvöfalt betri nýting en í stóru álveri. 

Þar að auki hentar risaálver alls ekki fyrir nýtingu á jarðvarmaorku, heldur eru það einmitt smærri kaupendur sem henta þeirri nýtingu miklu betur.  Það er vegna þess að óvissa ríkir yfirleitt um endingu jarðvarmaorku og hún er alls ekki endurnýjanleg nema menn séu því viðbúnir að draga úr orkuvinnslunni ef nýtingin reynist of ágeng.

Það er eins og sumir geti ekki skilið þetta, heldur telja sig vita betur en orkumálastjóri og allir helstu sérfræðingar Íslands á þessu sviði í 35 ár. 

Stundum gerast góðir hlutir hægt og það má segja um kísilverið í Helguvík. 


mbl.is 17 milljarða fjárfesting
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er að ráða í ummælin í Silfrinu.

Þegar forsetinn fékk Icesave II í hendur var hann með pókerfés og hélt því fram yfir móttöku undirskriftalista og allt til þess að hann ákvað að nota málskotsrétt sinn nokkrum dögum síðar.

Þessa daga var illmögulegt að ráða í hvað hann myndi gera vegna þess að samningar af þessu tagi eru yfirleitt ekki meðal þess sem þjóðaratkvæði er notað um í öðrum löndum.

Á hinn bóginn var frumvarpið samþykkt með afar naumum meirihluta og þegar forsetinn ákvað að nota málskotsréttinn vísaði hann til þess að skilja mátti af ummælum einstakra þingmanna að þeir myndu vilja að hann færi þá leið. Var raunar deilt um hvort það væri réttur skilningur á ummælum hans.

Í þetta skipti má að vísu færa að því rök, að fyrst þjóðin kaus um Icesave II sé komið fordæmi fyrir því að hún kjósi um algerlega hliðstætt mál, samning sem sprottinn er af hinum fyrri. Auk þess var aðeins 3ja atkvæða meirihluti sem felldi tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á hinn bóginn greiddu meira en 2/3 hlutar þingmanna atkvæði með samningnum og aðeins 1/4 var á móti. 

Í viðtali í Silfri Egils s.l. sunnudag lét hann í ljósi aðdáun á því hve vel íslensk stjórnskipun hefði þrátt fyrir allt komið út í ólgusjó síðustu tveggja ára og ræddi nokkuð um meginstoð hennar, sem væri hið þjóðkjörna Alþingi. 

Nú er bara að ráða í þessi ummæli og reyna að finna út hvað hægt sé að lesa út úr þeim. Í ýmsum erlendum stjórnarskrám eru tiltekin mál þar sem aukinn þingmeirihluti er talinn nauðsynlegur. 

Þetta kann að hafa áhrif á afstöðu forsetans svo og það hvað þessi samningur er miklu skárri en hinir fyrri og að miklu meiri andstaða virtist meðal almennings gagnvart Icesave II en er núna gegn Icesave III. 

Forsetinn sagði í fyrra að sú ákvörðun hefði verið afar erfið og tekið tíma. Af því má ráða að ekki hafi munað miklu hvora leiðina hann færi, að samþykkja eða synja. 

Ef þessi ummæli eru lögð við ummælin í Silfrinu niðurstaða hans nú orðið önnur en síðast. 


mbl.is Forsetinn fékk frumvarpið í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband