20.2.2011 | 17:13
Þrýstir á um stjórnlagaþing.
26. grein stjórnarskrárinnar leggur það alfarið í vald forseta Íslands, hvaða lög hann velur til þess að setja í þjóðaratkvæði. Það er rétt hjá forsetanum að í þessum efnum er ekki hægt að fara eftir lögum annarra þjóða um það, hvaða mál séu tæk og með hvaða skilyrðum.
Ákvörðun forsetans nú setur nýjan þrýsting á það að setja Stjórnlagaþing á laggirnar, hvað varðar þessi efni og ýmis önnur sem nú eru komin í brennidepil.
Fallin er niður sú mótbára að það þurfi að kosta meira en 200 milljónir króna að kjósa aftur ef það er gert samhliða þjóðaratkvæði um Icesave. Það er meira að segja hægt að hafa þetta á sama kjörseðli ef menn vilja spara til hins ítrasta, því að afstaðan til Icesave-samninganna er einföld: Já eða nei.
Til að einfalda málið mætti minnka hámarkstölu nafna, sem setja má á kjörseðilinn úr 25 í 10 án þess að það raski úrslitum að neinu marki.
Mér fannst forsetinn færa gild rök fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III.
Eitt atriði er þó umhugsuarvert. Hann taldi að skoðun þingsins ætti að hafa meira vægi, ef það hefði verið nýkosið þegar samningarnir komu til undirskriftar vegna þess að þá hefði það skýrara umboð.
Þetta finnst mér ekki vega þungt í málinu.
Þegar athugað er hvort ríkisstjórnir eigi að segja af sér eða sitja í samræmi við þjóðaratkvæðagreiðslur getum við litið til nágrannalandanna, til dæmis Noregs, þar sem samningur um aðild að ESB var felldur í tvígang án þess að það væri talið tilefni til stjórnarslita.
Komandi Stjórnlagaþing hlýtur að taka þjóðaratkvæðagreiðslur til góðrar og ítarlegrar meðferðar og sjá svo til að ekki verði hætta á stjórnmálalegri upplausn vegna þess að ríkisstjórnir falli sjálfkrafa ef þeim tekst ekki að ná fram málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
![]() |
Breytt stjórnskipan Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.2.2011 | 13:51
Firrtir harðstjórar.
Múammar Gaddafi einræðisherra Lybíu er dæmi um hina firrtu harðstjóra, sem ríkja áratugum saman í Arabalöndum allt frá Marokkó til Sádi-Arabíu.
Svo firrtur er Gaddafi að hann hélt að mótmæli í landi hans myndu snúast um málefni Palestínumanna.
Ekki virtist flögra að honum að landar hans hefðu neitt við harðstjórn hans að athuga.
Ég held að því miður muni mótmæli verða barin niður með harðri hendi í flestum þeim löndum, þar sem djúpstæð óánægja kraumar undir vegna spilltra valdsherra, sem stjórna víða í skjóli laga með miðaldasvip þar sem kúgun ríkir á flestum sviðum þjóðlífsins.
Ég fékk lítillega árið 1975 að kynnast áratuga langri harðstjórn sem verið hefur í Marokkó.
Ég hugðist fljúga sem ósköp venjulegur ferðamaður frá Kanaríeyjum til Marakkes en lenti í verulegum vandræðum þegar það vitnaðist að á Íslandi væri ég í vinnu sem íþróttafréttamaður.
Það eitt að hafa atvinnu sem tengdist fjölmiðlun norður í Ballarhafi kostaði mikla rekistefnu en það var með naumindum sem ég fékk leyfi til að vera í ströngu eftirliti í för með öðru ferðafólki.
Valdsherrarnir í þessum löndum hafa vit á því að láta Bandaríkjamenn standa í þeirri trú að þeir séu bandamenn þeirra og vita, að það nægir til þess að svonefnt forysturíki um mannréttindi í heiminum setur kíkinn á blinda augað og stuðlar í raun að því að lýðræði og mannréttindi séu vanvirt í tugum ríkja í heiminum.
![]() |
Enn skotið á fólk í Líbýu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2011 | 01:57
Hvað um okkar eigin strendur?
Olían, sem lekið hefur úr Goðafossi í Oslófirði leiðir hugann að ástandinu við strendur Íslands. Nýlega bloggaði ég tvisvar ef ekki þrisvar um viðtal við íslenskan skipstjóra á risastóru súrálsskipi, sem siglir meðal annars til Straumsvíkur.
Hann hefur áratuga reynslu að baki og viðtalið var í blaði, sem gefið er út í álverinu. Skipstjórinn segir að hvergi í veröldinni sé eins auðvelt fyrir skipstjórnarmenn að láta hvað sem er fara úr skipunum í hafið, hér sé engar reglur að óttast og þaðan af síður eftirlit né áhyggjur.
Þetta þykir honum merkilegt vegna þess að í öðrum löndum, sem stundum eru kölluð "vanþróuð" sé þetta bannað og hafi skipstjórnarmenn fengið þunga dóma og jafnvel verið sviptir skipstjóraréttindum fyrir brot á þeim.
Bloggpistlar mínir um þetta hafa enga athygli vakið né viðbrögð og sennilega gerir þessi pistill það ekki heldur.
Hægt er að finna upprunalega pistilinn með því að smella á "hvergi er eins auðvelt að losa úrgang úr skipum" í leitarrammann ofarlega vinstra megin á síðunni.
![]() |
Ekki hressir með Goðafoss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)