Firrtir harðstjórar.

Múammar Gaddafi einræðisherra Lybíu er dæmi um hina firrtu harðstjóra, sem ríkja áratugum saman í Arabalöndum allt frá Marokkó til Sádi-Arabíu.

Svo firrtur er Gaddafi að hann hélt að mótmæli í landi hans myndu snúast um málefni Palestínumanna. 

Ekki virtist flögra að honum að landar hans hefðu neitt við harðstjórn hans að athuga. 

Ég held að því miður muni mótmæli verða barin niður með harðri hendi í flestum þeim löndum, þar sem djúpstæð óánægja kraumar undir vegna spilltra valdsherra, sem stjórna víða í skjóli laga með miðaldasvip þar sem kúgun ríkir á flestum sviðum þjóðlífsins. 

Ég fékk lítillega árið 1975 að kynnast áratuga langri harðstjórn sem verið hefur í Marokkó. 

Ég hugðist fljúga sem ósköp venjulegur ferðamaður frá Kanaríeyjum til Marakkes en lenti í verulegum vandræðum þegar það vitnaðist að á Íslandi væri ég í vinnu sem íþróttafréttamaður.

Það eitt að hafa atvinnu sem tengdist fjölmiðlun norður í Ballarhafi kostaði mikla rekistefnu en það var með naumindum sem ég fékk leyfi til að vera í ströngu eftirliti í för með öðru ferðafólki. 

Valdsherrarnir í þessum löndum hafa vit á því að láta Bandaríkjamenn standa í þeirri trú að þeir séu bandamenn þeirra og vita, að það nægir til þess að svonefnt forysturíki um mannréttindi í heiminum setur kíkinn á blinda augað og stuðlar í raun að því að lýðræði og mannréttindi séu vanvirt í tugum ríkja í heiminum. 


mbl.is Enn skotið á fólk í Líbýu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í heimsókn í Massey-Ferguson verksmiðjuna í Coventry árið 1986 vakti það furðu að sjá fagurgræna Fergusona á færiböndum alveg í röðum. Ég spurði og var tjáð að þeir ættu að fara til Líbýu. Af hverju? Jú, bein skipun frá Gaddafi, ég man ekki hvort búvélar máttu ekki vera rauðar eða urðu að vera grænar, en annað hvort var það. Skifti ekki máli þótt framleiðsluferlið yrði dýrara.

Svona er þetta.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband