24.2.2011 | 20:21
Hef alltaf haldið upp á Halldór.
Ég hef fylgst með íslenskum handbolta í meira en hálfa öld og auðvitað hafa stórstjörnur, allt frá Geir Hallsteinssyni og Axel Axelssyni til Alexanders Pettersson og Ólafs Stefánssonar, hrifið mann mikið.
En ég hef ekki síður haldið mikið upp á leikmenn, sem hafa verið lítið áberandi en þó bæði haft mikil áhrif á liðsheildaina og spilið og oft á tíðum skorað miklu meira en búast hefði mátt við.
Í stjörnuleik "gömlu mannanna" í FH og Fram sem eitt sinn var spilaður í Laugardalshöllinni og Geir og félagar brilleruðu með glæsitilþrifum og mörkum var það nú samt Fram sem hafði betur ef ég man rétt.
Og annað kom algerlega á óvart. Hver var markahæstur í leiknum? Guðjón Jónsson? Hvenær skoraði hann öll þessi mörk? Jú, Guðjón var einhver útsjónarsamasti leikmaður sem ég minnist og ótrúlega snjall við að finna glufur í vörnum andstæðinganna og nánast lauma boltanun niður í gólfið og upp í markhornin, svo lítið bar á!
Bergur Guðnason kunni þetta bæði í knattspyrnu og handbolta og löngu síðar komst Halldór Ingólfsson á lista minn yfir leikmenn, sem virðast jafnvel vera ólíklegir til að vera handboltamenn, hvað þá meðal þeirra bestu.
Nú veit ég ekkert hve góður Halldór er sem þjálfari, en margföld reynsla er fyrir því að þegar liði gengur undir væntingum er þjálfarinn venjulega látinn fjúka, jafnvel þótt ástæðan fyrir slöku gengi sé önnur.
Sem sagt: Ekki orð um stöðu Halldórs sem þjálfara, en hrós og þakkir fyrir þá ánægju sem hann veitti mér þegar hann var upp á sitt besta sem handknattleiksmaður í fremstu röð, án þess að séð væri að hann væri frekar afburða handboltamaður heldur en venjulegur silalegur og sívalur skrifstofumaður hjá Tryggingarstofnun ríkisins.
![]() |
Halldóri sagt upp hjá Haukum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2011 | 18:22
Með besta stuðningsmannalagið.
Hvað gerir maður eins og ég, sem veit af reynslunni að gengi enskra knattspyrnuliða á toppnum er mjög valt?
Í stað þess að finna það sem er bæði stopult og umdeilanlegt finnur hann eitthvað annað varðandi lið, sem varla verður um deilt.
Mér finnst stuðnigsmannalag Liverpool besta stuðningsmannalagið. Ég á erfitt með að sjá að það geti breyst jafn mikið og gengi liðsins á vellinum. Þar að auki er þetta og verður um eilífð Bítlaborgin, - "Strawberry fields forever" og "Love! Love! Love!"
Einhver vafi? Nei. Málið dautt.
![]() |
Liverpool vinsælla en Man Utd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2011 | 10:08
Enn harðsvíraðri en Hitler.
Ég nýbúinn að er skrifa bloggpistil um það, sem er líkt með Gaddafi og Hitler varðandi það, að báðir hafa talið sig vera ofurmenni, snillinga, þjóðhetjur í hæsta gæðaflokki og jafnvel rétthærri þjóð sinni.
Hitler olli dauða milljóna manna síðustu mánuði stríðs sem var löngu tapað og allir viðurkenndu í hjarta sínu nema hann. Rétt fyrir endalokin taldi hann alla hafa brugðist nema hann, og þjóðin ætti ekkert annað skilið en að farast í vítislogum.
Gaddafi lýsir þeim löndum sínum, sem ekki vilja lengur þola glæpastjórn hans, sem eiturlyfjaneytendum og rottum sem þurfi að eyða miskunnarlaust. Hitler vildi líka gereyða Gyðingum og villimönnum Bolsévismans.
Hitler var þó ekki eins harðsvíraður og Gaddafi að einu leyti. Hitler kvaddi unglinga úr Hitlersæskunni til herþjónustu síðustu mánuði styrjaldarinnar og uppskar fyrir það fyrirlitningu víða um lönd.
Gaddafi veit að það sem réði úrslitum þegar hermenn í Moskvu óhlýðnuðust fyrirskipunum 1991, það sem réði úrslitum þegar hermenn, sem áttu að handtaka Napóleon óhlýðnuðust fyrirskipunum og það sem réði úrslitum í Túnis og Egyptalandi, var það að hermenn hikuðu við að hlýðnast valdboði, sem var í hrópandi mótsögn við sannfæringu þeirra sjálfra.
En einkum réði úrslitum að hermennirnir hikuðu við að skjóta á og drepa samborgara sína að skipun yfirmanna, sem þeir fyrirlitu.
Gaddafi er harðsvíraðri en Hitler að því leyti að hann setur undir þennan leka með því að ráða kaldrifjaða málaliiða frá fjarlægum löndum til þess að fremja voðaverkin gegn góðri umbun.
Ég spáði því í pistli mínum að Gaddafi myndi kjósa "píslarvættisdauða" og fremja þess vegna sjálfsmorð eins og Hitler. Nú segir maður, sem vel þekkir til í ranni harðstjórans, að þetta verði líklegast.
![]() |
Gaddafi mun deyja eins og Hitler |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)