Að sjálfsögðu.

Ég var að enda við að blogga um rúmlega 2ja ára gamlan ágreining í Sjálfstæðisflokknum um Icesave og rétt að því afloknu staðfestir Geir H. Haarde þetta. Vísa í bloggpistil á undan þessum.
mbl.is Geir styður Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmlega tveggja ára ágreiningur.

Allt frá Hruninu 2008 hefur ríkt ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins um afstöðuna til Icesave og AGS, þó einkum hið fyrrnefnda.

Ágreiningurinn var upphafi milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar, en Davíð var algerlega á móti því að semja um Icesave og í upphafi á móti því að leita til AGS. 

Eftir brotthvarf Geirs Haarde hefur Bjarni Benediktsson tekið við af honum en Davíð og hans menn haldið sínu striki. 

Út af fyrir sig er sú ákvörðun Bjarna og meirihluta þingflokksins rökrétt að því leyti, að ef menn ganga til samninga hlýtur niðurstaðan oftast að vera sú að hvorugur aðilinn fái allt sitt fram.

Ef menn ganga út frá þessu verður niðurstaða samninga oftast sú hvort hún sé sanngjörn, "fair deal" eða ekki.

Niðurstaða upphaflegu samninganna var mjög ósanngjörn að því leyti að ætlast var til að hver íslenskur skattgreiðandi greiddi 25 sinnum meira vegna þeirra en hver skattgreiðandi í Bretlandi og Hollandi. 

Á það ber hins vegar að líta að fyrri samningar voru gerðir við þær aðstæður, sem þá ríktu, og voru okkur afar óhagstæðar. Við stóðum af afar höllum fæti eftir hið mikla Hrun. 

Tíminn vann hins vegar með okkur og  nú liggur fyrir margfalt skaplegri samningur.

Þeir, sem vildu fara samningaleiðina á annað borð, verða að velja um það hvort þeir telji líklegt að hægt sé að ná enn lengra eða hvort að nú hafi náðst það góður árangur að viðunandi sé. 


mbl.is Ekki gegn ályktun landsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steini Jóns lenti "Bumbu" í 50 hnúta þvervindi.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að fara í nokkrar hópferðir með Þorsteini Jónssyni flugstjóra á erlendar flugsýningar. Þá var hann hættur að fljúga eftir að hafa flogið flestu sem hægt var að fljúga um ævina, allt frá Piper Cub upp í Boeing 747 hjá Cargolux. 

Steini var hreint einstakur maður eins og metsölubækur hans um hið magnaða líf hans bera með sér, en annað eins lífshlaup hefur enginn Íslendingur átt.

Þegar hann fór síðustu hópferðirnar var hann um áttrætt og búið að taka mestallan magann úr honum vegna magasárs og gott ef það var ekki krabbi líka. En það skipti svo sem engu máli þegar Steini átti í hlut, lífsnautnin var svo alger á hverju sem gekk.

Hann var uppi á morgnana eldhress og byrjaði daginn með því að sturta í sig hressandi viskísopa á fastandi maga, (ef maga skyldi kalla) rétt eins og hann væri tvítugur nagli.

Ekki haggaðist Steini og var vel með á nótunum og hrókur alls fagnaðar fram á kvöld. 

Ég á og geymi kvikmyndir og viðtöl við hann óstytt, en búta úr þeim notaði ég í fréttapistla og einn þátt um flug, en á vonandi eftir að gera fleiri ef Guð lofar. 

Um svipað leyti og fyrri ævisögubók Steina kom út, "Dansað í háloftunum", kom út ævisaga Jónasar Jónassonar, sem hét "Lífsháskinn".

En saga Steina var svo mögnuð að segja mátti í gamni að á einni blaðsíðu í sinni bók kæmist hann oftar og meira í lífshættu en Jónas í allri bók sinni!

Hafa fáir ef nokkrir Íslendingar og áreiðanlega enginn köttur átt eins mörg líf og Steini.

Ein saga Steina var af því þegar hann átti um enga kosti að velja aðra en að lenda "Bumbu", (Boeing 747 "Jumbo) í Glasgow í 50 hnúta hliðarvindi.

Þetta tókst Steina og sagði hann það bera því magnað vitni hvílík afbragðs flugvél Bumban væri.

Lýsing Steina á þessari lendingu var svo mögnuð að ef hár hefðu verið á höfði mínu, hefðu þau risið. 

Þeir sem nú eru að lenda Daumadísinni og vilja meiri vind verða að biðja um meira en 50 hnúta vind ef þeir eiga að toppa Steina! 


mbl.is Ekki nógu hvasst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband