Steini Jóns lenti "Bumbu" í 50 hnúta þvervindi.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að fara í nokkrar hópferðir með Þorsteini Jónssyni flugstjóra á erlendar flugsýningar. Þá var hann hættur að fljúga eftir að hafa flogið flestu sem hægt var að fljúga um ævina, allt frá Piper Cub upp í Boeing 747 hjá Cargolux. 

Steini var hreint einstakur maður eins og metsölubækur hans um hið magnaða líf hans bera með sér, en annað eins lífshlaup hefur enginn Íslendingur átt.

Þegar hann fór síðustu hópferðirnar var hann um áttrætt og búið að taka mestallan magann úr honum vegna magasárs og gott ef það var ekki krabbi líka. En það skipti svo sem engu máli þegar Steini átti í hlut, lífsnautnin var svo alger á hverju sem gekk.

Hann var uppi á morgnana eldhress og byrjaði daginn með því að sturta í sig hressandi viskísopa á fastandi maga, (ef maga skyldi kalla) rétt eins og hann væri tvítugur nagli.

Ekki haggaðist Steini og var vel með á nótunum og hrókur alls fagnaðar fram á kvöld. 

Ég á og geymi kvikmyndir og viðtöl við hann óstytt, en búta úr þeim notaði ég í fréttapistla og einn þátt um flug, en á vonandi eftir að gera fleiri ef Guð lofar. 

Um svipað leyti og fyrri ævisögubók Steina kom út, "Dansað í háloftunum", kom út ævisaga Jónasar Jónassonar, sem hét "Lífsháskinn".

En saga Steina var svo mögnuð að segja mátti í gamni að á einni blaðsíðu í sinni bók kæmist hann oftar og meira í lífshættu en Jónas í allri bók sinni!

Hafa fáir ef nokkrir Íslendingar og áreiðanlega enginn köttur átt eins mörg líf og Steini.

Ein saga Steina var af því þegar hann átti um enga kosti að velja aðra en að lenda "Bumbu", (Boeing 747 "Jumbo) í Glasgow í 50 hnúta hliðarvindi.

Þetta tókst Steina og sagði hann það bera því magnað vitni hvílík afbragðs flugvél Bumban væri.

Lýsing Steina á þessari lendingu var svo mögnuð að ef hár hefðu verið á höfði mínu, hefðu þau risið. 

Þeir sem nú eru að lenda Daumadísinni og vilja meiri vind verða að biðja um meira en 50 hnúta vind ef þeir eiga að toppa Steina! 


mbl.is Ekki nógu hvasst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Ómar, þegar að ég las bókina hans Þorsteins var ég þvílíkt hrifinn að það hálfa væri nóg, þegar að  hann lýsti því þegar hann var að leggja af stað í árásarferðir yfir Ermasundið var sem ég allur titraði af spenningi, ég lifði mig svo inn í flugferðirnar hjá honum að mig verjkjaði!!

Guðmundur Júlíusson, 5.2.2011 kl. 01:47

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Snildar frásögn.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.2.2011 kl. 02:58

3 Smámynd: Árni Sigurður Pétursson

http://www.youtube.com/watch?v=-cWB7rZKVTU&feature=related

alveg stórmerkilegur maður greinilega

og ég á alveg pottþétt eftir að ná mér í þessa bók.

Árni Sigurður Pétursson, 5.2.2011 kl. 03:03

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Ómar, þetta er skemmtileg færsla hjá þér um Steina. Ég geymi alltaf viðtalið við hann sem var tekið þegar hann hætti í atvinnufluginu ,og flaug síðast Boeing 747 "Jumbo það er skemmtilegt viðtal og lýsir honum vel.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 5.2.2011 kl. 10:33

5 identicon

Þessi bloggfærsla þín Ómar, verður langlíf. Því að Steini frændi minn Snæbjörnsson er absolút mesti töffari staðfestrar Íslandssögu. Það þarf heila línu af lýsingarorðum bara til að byrja á kallinum. Nú veit ég ekki hvaða flugsýningar eru þér eftirminnilegastar, en verð að afhjúpa nokkrar staðreyndir sem kannski hleypa minningum af stað, og svo leggja inn í gagnabankann eitthvað sem fáir vita. Þetta er hellingur af efni.

Síðsumars 1998 var blásið til ferðar til Bretlands, - flugsýning á Farnborough. Sem topp-viðbót var heimsókn á Duxford flugvöll og safn (rétt hjá Cambridge). Þar var tekin alvöru sýningarsyrpa á Spitfire til heiðurs Þorsteini, sem var heiðursgestur í ferðinni. Ef ég man það rétt þá var Ómar með, og með myndavélina.

Pottur & panna bak við margar þessar ferðir var Gunnar nokkur Þorsteinsson, og tókst honum með allskonar brellibrögðum að koma því í kring að flogið var sýningarflug til heiðurs okkar ágæta Steina. (Það voru notuð diplómatísk samskipti o.fl, enda vill sennilega enginn vita hvað klukkustundin kostar á Spitfire). Þarna áttu, Ómar, örugglega skemmtilegt myndefni, - ég man eftir þér uppi á turninum á Duxford.

(Við vorum þar þrír, Eiríkur Dagbjartsson var í stiganum, og svo einhver Bresk kona í svokallaðri öryggisgæslu. Steini komst upp á sjarmanum, þú Ómar á myndavélinni, og ég skáldaði mig upp með því að ég væri að passa ykku sem sérþjálfaður leiðsögumaður í að skoða fossa)

Seinna stóð til að efna til annarar ferðar á Farnborough. Gunnar stóð fyrir því, enda hugsjónamaður mikill í flugmálum.

Nú, þetta var sumarið 2000 sem var 60 ára afmæli orrustunnar um Bretland. Þá var ég oft í sambandi við Steina, og hljóp í okkur púki nokkur, hvar við sammála urðum um að skekkja planið hjá Gunnari frá Farnborough yfir á Duxford. Þar var nefnilega gríðarleg flugsýning, mestmegnis flugvélar úr seinna stríði. Steina langaði mikið að heyra alvöru mótorhljóð, - sagðist ekki nenna til Bretlands bara til að hlusta á helv. "ryksugur".

Gunnar leitaði ráða hjá Steina og Steini sagði "DUXFORD" og hananú

Gunnar setti upp ferð á Duxford, og þetta var algerlega æðislegt. Það þurfti aðra ferð til að anna eftirspurn. (Önnur er árleg "Flying Legends" en var sérstaklega mikil þetta árið, og hin var "Battle of Britain" afmælissýning)

Þarna var Ómar með, a.m.k. í seinna skiptið, þar sem við vorum báðir með blaðamannapassa og gátum því gengið um rampinn og hrært upp gamlar minningar frá þessum gömlu flugmönnum sem stóðu í þessu tuski sumarið 1940.

Þetta er bara byrjunin, því að þarna átti ég marga stundina með þeim gamla, og það er svoleiðis meitlað fast í kollinn á mér flest það er gerðist. Ég skal, ef einhver nennir að lesa, skjóta allmörgu hérna inn á bloggið, - nefni hér nokkra smásögutitla:

- Þegar við Steini vorum sífellt fastir við barinn á Hendon. Tímalaus snilld.

- þegar Ómar náði ótrúlega snöggu og snilldarlegu viðtali við gamlan Orrustuflugmann á Duxford

- Þegar Steini svaf hjá Hitler. Það var á eftir Hendon.

- Og fleira. Þegar Steini glímdi við 50.000 fetin. Ómar á að muna þennan ;)

- Þegar Steini kastaði sinni ballast yfir Berlín 1945. Ómar ætti að muna þennan líka.

Hvað á ég að taka fyrst?

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 12:36

6 identicon

Sagan segir að Þorsteinn hafi bankað upp á hjá Ólafi Thors og spurt Ólaf, sem kom  til dyra, hvort dóttir hans væri heima, en hún átti eftir að verða eiginkona hans. “Nei”, þrumaði í Ólafi, “hún er farin út með öðrum róna”. 

Ómar minnir á frásögn Þorsteins af lendingu í Glasgow. Minnistæð er mér einnig frásögn Þorsteins af lendingu í Vestmannaeyjum í alveg brjáluðu veðri. Það var á DC-3. Eftir lendinguna spyr Þorsteinn, hver lenti vélinni, ekki gerði ég það. Bækur Þorsteins sem og Jóhannesar Snorrasonar eru frábærar. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 13:04

7 identicon

Athugid einnig vinsamlegast ad Omar Ragnarsson er einhver fraeknasti i einkafluginu og skyldi skodast ,eg og fleyri hafa sed til hans.Hann er hreynt ut sagt otrulegur,tad fer engin tar sem hann er med yljarnar nema kannski Torolfur Magnusson

Axel Solvi Axelsson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 14:02

8 identicon

Einhverntímann hef ég fengið far með Ómari á FRÚnni. Reyndar oft. Alltaf jafn skemmtilegt, og verð ég að játa á mig tilhlökkun til þess að geta kannski skoppað með kallinum eitthvað í vor.

En, - hérna kemur sagan um 50.000 fetin hans Steina. Þetta er eftir minni, en var það eftirminnilegt að það ætti að vera ca. 100% rétt:

Hópur af flugáhugamönnum var staddur í rútu á leiðinni London-Duxford árið 2000. Ómar var þar með í för. Ég held reyndar að ég hafi setið við hliðina á Helgu hans.

Ómar hafði keypt (sennilega á Hendon) bækling nokkurn sem var afþrykk af "Spitfire's pilot´s manual), - sem sé upplýsingar um það hvernig skal stjórna Spitfire.

Hann greip tækifærið við brottför og fór að spyrja Steina um ýmis atriði varðandi bæklinginn, flugtakhraða, ofris, hámarkshraða o.fl. Svo kom eitthvað um hámarksflughæð.

Steini skaut því inn að hann hefði komið Spitfire í 49.000 fet.

Ómar spurði hvað hann hefði verið að gera svona hátt.

Steini svaraði: "Ég var að reyna hversu hátt ég kæmist. Takmarkið var 50.000 fet. En ég komst ekki hærra, með allt í rauða botni og bókstaflega hékk á skrúfunni. Ef ég hefði skotið úr byssunum hefði ég farið beint í spinn"

Hann var spurður hvort hann hefði nokkurn tímann komist í 50.000, og þá svaraði hann "JÁ".

"Það var reyndar á Boeing 747.  Við vorum að koma langt að og vélin var létt. Lendingin var í Luxemburg. En franskir flugumferðarstjórar voru í verkfalli, þannig að við máttum ekki fara það yfir, og þá voru góð ráð dýr. Nema, að þeirra umsýslusvæði náði bara upp í 50.000 fet, og bumban fór létt með að komast þar upp, þannig að við fórum YFIR verkfallsvæðið"

Ég hef engar efasemdir um að hann hafi farið rétt með.

Það eru til staðfest tilvik af Spitfire yfir 50.000 fetum, og sú flugvél seinna stríðs sem skotin var niður í mestri hæð féll fyrir Spitfire, - yfir N-Afríku ef ég man rétt.

Boeing 747 með léttan farm og lítið eldsneyti ætti að fara létt með þetta ;)

Meira seinna ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 21:20

9 identicon

Meira innlegg.

Seinna sátum við Steini saman, og ég spurði hann meir út í þetta háflug.

"Var ekki kalt þarna uppi?"

"Jú jú" sagði Steini. "En það var alltaf orðið eins kalt eins og það varð yfirleitt í rúmum 20.000 fetum, og það merkilega var, að yfir Miðjarðarhafi var mikið kaldara í háloftunum en yfir Bretlandi, og yfir Þýskalandi gat verið býsna kalt. Svo var annað merkilegt í þessari hæð, og það var hvað himininn varð dekkri."

Ég spurði hvort hann hefði ekki verkjað í liðina, en hann sagðist alltaf hafa sloppið við það.

"Mest var kalt yfir Þýskalandi" sagði hann "Því við vorum sendir svo löng flug að fylgja sprengjuvélum. Ameríkanarnir voru komnir með rafhitaða búninga, en við fengum þá aldrei, og maður var gjörsamlega að frjósa í hel, klesstur fastur í sætið í 40 stiga frosti í allt að 6 tíma. Og það var svo pirrandi, að lulla áfram að fylgja B-17 vélum, sem voru svo hlaðnar af skyttum og skotfærum og allskonar járni, að Mustanginn hjá mér hefði getað borið sömu þyngd, og farið svona 2-3 ferðir á móti einni. Og Þjóðverjarnir, - ef þeir sáu okkur, þá fóru þeir bara, svo að það var ekkert að gerast. Og ég var svo pirraður, að í eitt skipti bombaði ég á Berlín því sem ég hafði"

"Og hvað var það" spurði ég.

"Nú, mér var bara svo mál að míga" sagði Steini. "Og það var svona rör til þess að bjarga slíku, þannig að ég lét vaða á Berlín úr 30.000 fetum. Það var reyndar svo kalt að það fraus á endanum í rörinu, en eitthvað fór niður, þannig að þeir fengu einhver högl í hausinn þarna, hehe"

Meira seinna, ef einhver vill...

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband