Did Torres "walk alone"?

Þetta er í fyrsta og kannski eina skiptið sem ég hef enska fyrirsögn á blogginu mínu, en ástæðan er auðvitað hið frábæra hvatningarlag Liverpool.

Torres gekk nefnilega einn yfir í raðir Chelsea og burtséð frá því hvort ég er stuðningsmaður Liverpool eða ekki er það kærkomið fyrir íþróttirnar og gildi þeirra ef liðsheildin vegur þyngra en einstakir leikmenn. 

Með öðrum orðum: Það er gott ef það eru ekki bara peningarnir sem ráða för í íþróttum heldur góður andi og samvinna alhliða góðra íþróttamanna, jafn á andlega sviðinu sem hinu líkamlega. 

Almennt séð var það bara ágætt að Manchester United og Chelse töpuðu því að með því jókst spennan á toppi ensku knattspyrnunnar auk þess sem afkomendur mínir í Klapparhlíð 30 geta nú glaðst yfir bættri stöðu síns liðs.

"Heilbrigð sál í hraustum líkama!" 


mbl.is Liverpool lagði Chelsea í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað geta svæði opnað?

Mikill er nú krafturinn í landinu okkar og einstökum svæðum þess. Fjöll og svæði geta nú opnað hitt og þetta án þess að þess sé getið í fréttinni, hvað sé opnað, samanber fyrirsögnina: "Skíðasvæðið í Bláfjöllum opnaði kl. 10 í dag."

Hvað opnaði skíðasvæðið?  Flösku? Dyr? Kassa? 

Auðvitað opnaði skíðasvæðið ekki nokkurn skapaðan hlut heldur var skíðasvæðið opnað af mönnum. 

Næsta stig þessarar rökleysu verður líklega þegar sagt verður eftir að verslunareigandi opnar verslun sína: "Hurðin opnaði klukkan níu" eða  "lykillinn opnaði hurðina klukkan níu" eða "dyrnar opnuðu hurðina klukkan níu" sem er þrátt fyrir allt rökréttasta vitleysan, sem hægt er að upphugsa miðað við það rugl, sem í gangi er um opnanir, hurðir og dyr. 


mbl.is Opið í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ó, athvarf umrenningsins..."

Ofangreind orð koma fyrir í ljóðinu "Íslenska konan" þar sem ég leitast við að lýsa hlutskipti hennar og fórnarlund frá landnámi:

"Með landnemum silgdi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma, hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún er íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð. 

 

Ó, hún var ambáttin hljóð! 

Hún var ástkonan rjóð! 

Hún var amma, svo fróð!

 

Ó, athvarf umrenningsins! 

Inntak hjálpræðisins! 

Líkn frá kyni til kyns!..."

 

Í síðustu þremur línunum hafði ég einkum í huga ömmusystur mína, Björgu Runólfsdóttur, bónda að Hvammi í Langadal,  sem var einstæð móðir sem barðist ásamt börnum sínum tveimur í sveita síns andlitis fyrir því að eignast aftur jörðina sem hún hafði misst í hendur ríkissjóðs við skilnað við mann sinn fyrr á tíð. 

Hún aumkaði sig yfir fjóra konur, utangarðsfólk og niðursetninga, sem hún hafði á bænum. 

Þrjár þeirra, móðir með tveimur dætrum, fengu að vera í gamla torfbænum í Hvammi, en hin fjórða var í herbergi inni á heimilinu. 

Björg mátti ekkert aumt sjá og um þetta og lífið í dalnum skrifaði ég bókina "Manga með svartan vanga" sem kom út 1993. 

Mér kemur þetta í hug þegar Íslendingar hafa sýnt samúð og stórhug, sem kom meðal annars fram þegar við skutum skjólshúsi yfir Bobby Fisher og komum honum undan þeim sem ofsóttu hann. 

Aftur bjóðumst við til að gera þetta varðandi Marie Amelie. 

Við gerum þetta þótt við séum gagnrýnd fyrir það að fara í manngreinarálit og mismuna fólki, af því að aðrir í svipaðri stöðu fái ekki boð um slíka aðstoð. 

En mér finnst hitt vega þyngra, að við lítum til sérstæðra aðstæðna þeirra, sem við viljum rétta hjálparhönd frekar en þröngs lagabókstafs. 

Mér finnst það til sóma fyrir örþjóð eins og okkur að hefja okkur einstaka sinnum upp úr þrætubókarlist og sýna að við viljum sjálf ráða því hverjum við bjóðum athvarf í okkar ranni hér á klakanum. 

 

 


mbl.is Amelie hugsar hlýlega til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband