"Ó, athvarf umrenningsins..."

Ofangreind orð koma fyrir í ljóðinu "Íslenska konan" þar sem ég leitast við að lýsa hlutskipti hennar og fórnarlund frá landnámi:

"Með landnemum silgdi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma, hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún er íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð. 

 

Ó, hún var ambáttin hljóð! 

Hún var ástkonan rjóð! 

Hún var amma, svo fróð!

 

Ó, athvarf umrenningsins! 

Inntak hjálpræðisins! 

Líkn frá kyni til kyns!..."

 

Í síðustu þremur línunum hafði ég einkum í huga ömmusystur mína, Björgu Runólfsdóttur, bónda að Hvammi í Langadal,  sem var einstæð móðir sem barðist ásamt börnum sínum tveimur í sveita síns andlitis fyrir því að eignast aftur jörðina sem hún hafði misst í hendur ríkissjóðs við skilnað við mann sinn fyrr á tíð. 

Hún aumkaði sig yfir fjóra konur, utangarðsfólk og niðursetninga, sem hún hafði á bænum. 

Þrjár þeirra, móðir með tveimur dætrum, fengu að vera í gamla torfbænum í Hvammi, en hin fjórða var í herbergi inni á heimilinu. 

Björg mátti ekkert aumt sjá og um þetta og lífið í dalnum skrifaði ég bókina "Manga með svartan vanga" sem kom út 1993. 

Mér kemur þetta í hug þegar Íslendingar hafa sýnt samúð og stórhug, sem kom meðal annars fram þegar við skutum skjólshúsi yfir Bobby Fisher og komum honum undan þeim sem ofsóttu hann. 

Aftur bjóðumst við til að gera þetta varðandi Marie Amelie. 

Við gerum þetta þótt við séum gagnrýnd fyrir það að fara í manngreinarálit og mismuna fólki, af því að aðrir í svipaðri stöðu fái ekki boð um slíka aðstoð. 

En mér finnst hitt vega þyngra, að við lítum til sérstæðra aðstæðna þeirra, sem við viljum rétta hjálparhönd frekar en þröngs lagabókstafs. 

Mér finnst það til sóma fyrir örþjóð eins og okkur að hefja okkur einstaka sinnum upp úr þrætubókarlist og sýna að við viljum sjálf ráða því hverjum við bjóðum athvarf í okkar ranni hér á klakanum. 

 

 


mbl.is Amelie hugsar hlýlega til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú áttir góða ömmusystur Ómar, og mér sýnist þú vera svolítið líkur henni.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 07:36

2 identicon

Þetta er fallegur kveðskapur, og ekki er hugsunin síðri.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 10:39

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Gerumst við meyrir með aldrinum Ómar ??/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 6.2.2011 kl. 11:27

4 Smámynd: Kristján Hilmarsson

það er einmitt þetta sem "örþjóð" getur leyft sér (með fyrvara um að "þjóðin" samþykki þetta útspil Árna og Simba) meðan stærri þjóðir verða að halda sig meir að lögum og reglum og ekki láta undan þrýstingi frá ýmsum hópum, sem fylkja liði utanum einhvern útvaldann og fara fram á viðkomandi verði undanþeginn landslögum, því eftir því sem samfélög eru stærri, því færri "vinargreiða" og undanlát undan þrýstihópum sjáum við.

Þar fyrir utan er akkúrat þetta útspil varðandi þessa stúlku án áhættu, hún er búin að fá passann sinn sem norsk stjórvöld eru búin að biðja hana um framvísa allann tímann og er á leið tilbaka til Noregs innan tíðar.

Bara svona í nafni víðara sjónarhorns á þetta þál sem önnur.

Annars var ljóðið fallegt og átti vel við, en kannski eru verr staddir "umrenningar" sem væri nær að hjálpa, en ekki eins frægir því miður.

MBKV

KH

PS. Hvað var það aftur sem Fischer var flýja ?

KH

Kristján Hilmarsson, 6.2.2011 kl. 12:24

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fisher var að forðast það að verða dreginn fyrir bandarískan dóm og dæmdur fyrir að brjóta gegn viðskiptabanni við Júgóslavíu með því að tefla einvígi við Boris Spasskí þar í landi.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2011 kl. 18:46

6 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Já svo var hann sárlasinn kallgreyið og örugglega gott að eyða æfikvöldinu á Íslandi, það er ekki málið, heldur hitt finnst mér hvernig fólk er valið, virðist vera að vinsældir og frægð séu fyrsta skilyrði, einhver árátta í okkur Íslendingum að baða okkur í frægðarljóma þekkts fólks  og svo er sterkur "hyglingar" og "vinargreiða" keimur af þessu öllu, það var aftur á móti örugglega ekki krafturinn á bak við þessi góðverk ömmusystur þinnar, enda efa ég að Árni og Sigmundur fái tileinkað lofgerðarljóð um sig vegna tillögunnar.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 8.2.2011 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband