Áhrif á framtíð kjarnorkuvera?

Nýting kjarnorkunnar hefur gengið í bylgjum, allt frá upphafi beislunar hennar. Upp úr 1960 var hún talin hin bjarta von orkuöflunar mannkyns, svo björt, að rætt var um að nýting vatnsafls, til dæmis á Íslandi, yrði ekki samkeppnishæf.

Þetta var afar grunn hugsun því að nýting vatnsafls er langoftast sjálfbær en til lengri tíma litið er verður nýting kjarnorkunnar það ekki því að hráefnið til hennar er takmarkað, einkum ef menn ætla sér að láta kjarnorkuna taka alveg við af notkun jarðefnaeldsneytis.

Bakslag kom í nýtingu kjarnorkunnar vegna slysa í Bandaríkjunum og Ukrainu auk þess sem förgun kjarnorkuúrgangs er mikið deilumál. 

Nú síðustu árin hefur birt til, einkum af tveimur ástæðum.  Annars vegar stóraukið öryggi veranna og hins vegar það, að olíuskorturinn og orkuskorturinn eru orðin alvarlegra vandamál en áður var. 

Ljóst hlýtur að vera bakslagið sem nú er komið í Japan mun setja strik í orkureikning þeirra og hafa einhver áhrif í öðrum ríkjum, hækka orkuverð og örva nýtingu annarra orkuöflunaraðferða.

Ófarirnar nú munu draga úr trú manna á öryggi veranna í Japan og skapa vandamál, sem menn sáu ekki fyrir. 

Ólíklegt verður þó að telja að menn muni missa trúna á nýtingu kjarnorkunnar í öðrum löndum, sem ekki teljast til mestu jarðskjálftalanda heims eins og Japan. 

Orkuvandi heimsins er nefnilega orðinn svo mikill að ekki er lengur hægt að hægja á jafn drjúgri orkuöflun og nýting kjarnorkunnar er. 

 

 


mbl.is 180.000 íbúar flýja kjarnorkuver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurtekur sig.

"Að hika er sama og að tapa" segir grimmt máltæki, og það virðist ætla að eiga við um viðbrögð þjóðasamfélagsins gegn grimmdaræði og vitfirringu Gaddafis. Þrátt fyrir stór orð í upphafi um að láta hann ekki komast upp með að taka miskunnarlaust á uppreisnarmönnum hefur skort samstöðu um aðgerðir og komið hefur hika á suma.

Þetta nýtir Gaddafi sér til hins ítrasta og stefnir auðvitað að því að vera búinn að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum áður en tekist hafi samstaða um aðgerðir gegn honum sem duga.

Uppreisnarmönnum voru gefnar ákveðnar vonir um utanaðkomandi aðstoð í upphafi en í ljós hefur komið að engin innistæða var á bak við hin stóru orð ýmissa þjóðarleiðtoga. 

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins hefur rétt fyrir sér þegar hann gagnrýnir að með þessu hafi verið gefin óraunhæf von. 

Sagan geymir ótal dæmi um hliðstæður. Þegar Ítalir réðust inn í Abbesyníu 1935 vantaði ekki fordæmingu þjóðarleiðtoga á athæfinu en máttlausar viðskiptaþvinganir voru það eina sem gert var og breyttu engu. 

Franco gerði uppreisn gegn rétt kjörinni lýðræðisstjórn á Spáni 1936 og gagnrýnisraddir Breta og Frakka reyndust máttlaust gelt.  Hitler og Mussolini voru ófeimnir við að leggja Franco lið og höfðu sigur 1939. 

Mussolini réðst á Albaníu vorið 1939 án þess að Vesturveldin hreyfðu legg né lið og ekkert bitastætt var gert þegar Hitler tók Tékkóslóvakíu í mars sama ár. 

Grimmir harðstjórar hafa jafnan sallað niður andspyrnumenn og murkað úr þeim lifið til þess að vekja skelfingu og óttablandna undirgefni. 

Hitler losaði sig við Röhm og SA-lið hans á "nótt hinna löngu hnífa" 1934, lét myrða íbúa þorpsins Lidice í Tékklandi til að hefna morðs á Heydrich og drepa uppreisnarmenn í ágúst 1944 á hryllilegan hátt.

Stalín losaði sig við milljónir og lét drepa megnið af herforingjum og liðsforingjum Rauða hersins í hreinsununum hræðilegu skömmu fyrir stríð með þeim afleiðingum að Rauði herinn var að miklu leyti höfuðlaus her þegar Hitler réðst á Sovétríkin 22. júní 1941. 

Það var Stalín sem mælti hin fleygu orð: "Dráp á milljónum er bara tala, dráp á einum manni er morð"

Eitthvað í þessa veru mun væntanlega verða í huga Gaddafis þegar hann gengur á milli bols og höfuðs á öllum þeim sem hatursæði hans mun beinast gegn. 


mbl.is Sveitir Gaddafis „hreinsa landið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmrar hálfrar aldar þýsk hefð.

Þjóðverjar gáfu ákveðinn tón á HM í knattspyrnu 1954 um það að tapa ekki tveimur leikjum í röð gegn sama landsliðinu og þeirri hefð var við haldið í Halle í dag .

1954 var ungverska landslið það langbesta í heiminum og hafði meðal annars burstað Englendinga á Webley 7:3 og var þó eitt mark dæmt ranglega af Ungverjum vegna þess að sókn þeirra var svo hröð að dómarinn áttaði sig ekki ! 

Þjóðverjar og Ungverjar drógust saman í riðil og Ungverjar völtuðu yfir Þjóðverja 6:3. Á þessum tíma gat það gerst að lið lentu tvisvar móti hvort öðru og Ungverjar léku til úrslita við Þjóðverja. 

Þá brá svo við að Þjóðverjar unnu með eins marks mun og frumsýndu þar með þýsku seigluna að gefast helst aldrei upp og að ekki sé til umræðu að tapa tvisvar fyrir sama mótherja í áríðandi leik í stórmóti. 

Það er eins og þetta sé sálrænt, ekki bara hjá Þjóðverjum, heldur líka mótherjum þeirra sem virðast orðnir vanir þessu. 

Það er sjaldgæft að Guðmundur þjálfari taki jafn snemma fyrsta leikhlé í svona leik en það varð hann að gera því að íslenska liðið var gersamlega heillum horfið.

En allt kom fyrir ekki og það var ekki vonum fyrr að flautað var til leiksloka áður en markamunurinn yrði enn meiri.

Og þá er bara að taka því, bíta á jaxlinn og segja: Það gengur betur næst! 


mbl.is Ellefu marka skellur í Halle
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að læra af síðari hálfleiknum.

Íslenska handboltalandsliðið lærði af tapleiknum sára gegn Þjóðverjum á HM og það skilaði sér hér heima í frábærum fyrri hálfleik gegn Þjóðverjum.

Síðari hálfleikurinn var ekki eins góður og við töpuðum honum því að Þjóðverjar lærðu sína lexíu af óförunum í fyrri hálfleik. 

Kannski á það eftir að reynast dýrkeypt síðar að geta ekki haldið hinum mikla markamun en eitt er þó jákvætt við þetta. 

Það er það að nú getum við krufið það til mergjar hvað fór úrskeiðis í síðari hálfleiknum og nýtt okkur þá reynslu í síðari leiknum á sunnudag.  Ef það verður gert var tapið í síðari hálfleiknum hér heima ekki til einskis og jafnvel hið besta mál.

 

P. S. Ég hripaði þennan pistil niður í fyrradag en lenti síðan út úr netsamandi uppi í Leirársveit þangað til nú, að þessum hörmulega leik er að ljúka og ljóst að Íslendingar lærðu nánast ekkert og voru heillum horfnir í leiknum.


mbl.is Hef bara góða tilfinningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband