Reagan lét plaffa á hann, Obama varla.

Ronald Reagan lét ráðast beint á Gaddafi á sínum tíma og meðal þeirra sem féllu var fósturdóttir hans, ef ég man rétt.

Gaddafi sjálfur slapp en fyrir Araba er það mikið áfall að geta ekki varið heimili sitt og fjölskuldu og eftir hana breytti Gaddafi um hegðun og lét af mesta gassaganginum. 

Árásin á Reaganstímanum misheppnaðist að vísu hvað það snerti að drepa Gaddafi sjálfan og allt til þessa dags hefur hann því leikið lausum hala eftir því sem hann hefur haft þor til. 

Honum tókst af klókindum að slaka það mikið á andspyrnu sinni gegn vestrænum ríkjum, að hann fékk viðskiptabanni Sameinu þjóðarnna aflétt árið 2003. 

Síðan þá hefur hann notað sér þessa bættu aðstöðu óspart í tengslum við olíuframleiðslu landsins og tókst meira að segja með blekkingum að fá látinn lausan hryðjuverkamann, sem bar ábyrgð á sprengingu farþegaþotu yfir Lockerby, á þeim forsendum að hann væri við dauðans dyr vegna banvæns krabbameins. 

Kauðanum var tekið sem þjóðhetju þegar heim kom og ekki vitað annað en að hann sé frískur vel. 

Bein árás á Gaddafi myndi varla kála honum núna en valda skaðlegu og óþörfu mannfalli.

Allt dráp á óbreyttum borgurum mun stórskaða aðgerðir bandamanna, því að aðgerðir þeirra eiga að miða að því að bjarga lífi borgaranna en ekki að tortíma því.

Obama mun því varla feta í fótspor kúrekamyndaleikarans byssuglaða. 


mbl.is Áköf loftvarnaskothríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkt fyrirbæri varðandi "neysluna."

Það er þekkt fyrirbæri í tengslum við vandamál fíkniefnaneytenda, þar með taldir áfengisfíklar, að bætt aðgengi að efnunum og meiri nálægð þeirra eykur neysluna.

Fíkill, sem er að reyna að komast á réttan kjöl, fær eftir meðferðina hjálparmann (sponsor), sem fíkillinn felur alræðisvald hvað þetta snertir og hvaðeina sem kemur fíkninni við. 

Ef fíkillinn vill til dæmis fara á samkomu, sem lítur sakleysislega út, kannski bara afmæli eða slíkt, gerir hann hjálparmanni sínum grein fyrir því hvernig samkoman muni verða, hverjir verði þar og hvers verði líklega neytt. 

Komist hjálparmaðurinn að þeirri niðurstöðu að líklega verði of mikil neysla eða of mikið af vímuefnaneytendum bannar hann fíklinum harðlega að fara á samkomuna. 

Það kann að virðast fúlt en hér er venjulega um líf eða dauða að tefla fyrir fíkilinn sem beygir sig undir þá staðreynd. 

Britney Spears virðist vera í aðstöðu, sem líkist þessu, og þá duga engin vettlingatök, - allt verður að leggjast á eitt um að halda freistingunni og fíkninni frá. 


mbl.is Ekkert áfengi og engin eiturlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt saman misskilningur.

Muamar Gaddafi er ekki einvaldur í Líbíu heldur einstaklingur, sem allir landsmenn hafa tekið sig saman um að elska.

Munurinn á honum og valdamönnum í öðrum löndum er sá að hans eigin sögn, að það er hægt að krefjast þess að þeir afsali sér valdastöðum sínum, en af því að Gaddafi gegnir engri valdastöðu, er ekki hægt að láta hann afsala sér neinni stöðu.

Aðgerðir bandamanna beinast að röngum aðila því að fólkið, sem veifað hefur fánum í Benghazi, eru útsendarar Osama Bin Laden og hreinir hryðjuverkamenn. 

Það var auðvitað misskilningur að halda að eitthvað skorti upp á að vopnahléð, sem Gaddafi lýsti yfir, heldur réðust bandamenn á frelsissveitir, sem ætluðu að frelsa Benghazi úr klóm hryðjuverkamanna. 

Firring Gaddafis virðist síst minnka heldur þvert á móti aukast. Heimsmynd hans og sýn hans á hann sjálfan og ástandið í heimalandi hans  er hin eina rétta og allt annað er misskilningur.

 


mbl.is Árásir byggðar á misskilningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið óútreiknanlega Ísland.

Þegar sú hugmynd kom upp í haust að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í sparnaðarskyni byggðist það á því að komið höfðu vetur nú síðustu hlýju árin, þegar fáir dagar buðust þar til iðkana.

Sparnaðurinn af því að loka svæðunum hefði þó varla orðið þjóðhagslegur, því að ef Bláfjöll hefðu verið lokuð í vetur, hefði fólk reynt að leita annað, til dæmis til Akureyrar, og heildarútgjöld þjóðfélagsins því orðið meiri en ella. 

Skíðaíþróttin er einstaklega holl og fjölskylduvæn íþrótt, um það get ég vitnað af eigin reynslu þótt ég sé einhver lélegasti skíðamaður landsins og hafi ekki getað sinnt skíðunum síðustu árin. 

En Ísland er óútreiknanlegt á alla lund, ekki aðeins eldfjöllin heldur ekki síður veðráttan. 

Þessi vetur virðist ætla að verða einhver hinn besti hér syðra hvað skíðiðkun snertir, sem komið hefur lengi. Sem betur fór var Bláfjöllum ekki lokað úr því að lukkan snerist skíðafólki í vil. 


mbl.is Draumaaðstæður á skíðasvæðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti ekki bílljós.

Ég var að koma ofan úr Borgarfirði seint í kvöld og man ekki eftir jafn björtu veðri um hánótt.

Jörð er alhvít og heiðskír himinn og það munaði lítið um það að slökkva á bílljósunum því að auðvelt var að sjá veginn og landið, jafn auðvelt og í dimmu dumbungsveðri að degi til. 

Sjón mín er viðkvæm fyrir mikilli birtu en afar næm í myrkri og ég er ekki í neinum vafa um að ég hefði getað látið augu mín venjast þessum birtuskilyrðum með því að slökkva öll ljós á bílnum nógu lengi, að ég hefði getað ekið eins og um hábjartan dag. 

Svona nætur að vetrarlagi eru forréttindi að eiga og njóta. 


mbl.is Ofurmáni veður í skýjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband