Kannski til 2070?

Á áratugnum 1920-30 ríkti tiltölulega mikið frelsi í viðskiptum, enda áratugurinn kallaður "the roaring twenties" í Bandaríkjunum. Þótt hrunið í kauphöllinni í New York yrði í nóvember 1929, entist dýrðin út árið 1930 og var það ár með Alþingishátíðinni, stofnun ríkisútvarpsins og vígslu ýmissa bygginga glæsilegasta ár, sem Íslendingar höfðu lifað.

Ekki spillti að fá Graf Zeppelin, stærsta loftfar heims, í heimsókn. 

1931 skall kreppan á af fullum þunga og setja varð gjaldeyrishöft og verndartolla, sem urðu til þess að innanlands var farið að framleiða alls konar hluti, sem áður höfðu verið fluttir inn. 

Allt var þetta gert til bráðabirgða, en kreppan entist lengur hér á landi en annars staðar og náði sinni mestu dýpt 1939. Stríðsgróði Íslendinga var innilokaður í Bretlandi til stríðsloka, en var síðan notaður til að láta smíða nýtískulegasta togaraflota heims og í meðal annars í metinnflutning á bílum. 

Þessi dýrð stóð svo stutt að í árslok 1947 var gjaldeyririnn búinn og við tók skömmtunar- og haftatímabil sem sló flestu öðru við, sem menn höfðu áður þekkt. 

Aldrei gafst neitt tóm til að rífa niður tollmúrana og 1950 tók við margfalt gengi krónunnar og höftin héldust lengur hér en í öðrum löndum, þótt Íslendingar hefðu grætt á stríðinu og fengið meiri hlutfallslega Marshallaðstoð en nokkur önnur þjóð. 

Það var skammarlegt siðferðilega séð að að nýta sér hernaðarlegt mikilvægi landsins til að fá Bandaríkjamenn til að friðþægja okkur með þessum framlögum. 

Með Viðreisninni 1959 og inngöngu í EFTA 1970 var byrjað að slaka á tollverndinni, sem hafði haldið uppi margs kyns iðnaði, sem ekki var samkeppnishæfur. 

En þessi tollvernd og gjaldeyrishöft, sem áttu að vera til bráðabirgða við upphaf kreppunnar entust í meira en 60 ár, allt fram á síðasta áratug aldarinnnar þegar síðustu leifar hennar hurfu loksins. 

Nú verður fróðlegt að sjá hvort gjaldeyrishöft, sem sett voru sem skammtíma úrræði til bráðabirgða í kjölfar Hrunsins og kreppunnar 2008 muni endast jafn lengi og hin fyrri, eða fram undir 2070.

Ef þau gera það er til lítils fyrir mig að pæla í því, því að þá yrði ég ekki einasta löngu dauður heldur börn mín líka. 

Ekki sérlega uppörvandi pæling þetta! En um þetta gilda sannindin að maður verði að vera viðbúinn hinu versta og vona það besta. 

 


mbl.is Höft til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má gjarna vera "flaggaður inn".

Seinkun útfarar Elísabetar Taylor minnir mig á það að ég hef minnst á það í samtölum að ég hefði ekkert á móti því þegar mín stund kemur, að félagar úr Bifreiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur og Flugmálafélagi Íslands sjái um það að ég verði flaggaður" af stað á eftir niðurtalingu: 10-9-8-7-6-5-4-3-2-1, þegar líkbíllinn leggur af stað frá kirkjunni, og "flaggaður inn" þegar bíllinn kemur að staðnum þar sem hann staðnæmist við kirkjugarðinn.

Bílamenn og flugmenn mættu sjá um þetta saman, því að einn af bikurunum í safni mínu er svonefndur Shellbikar, sem ég fékk eftir flugkeppni 1970. 

Ég hef þegar samið lag og texta undir heitinu "Síðasta bílferðin", sem flytja má við þetta tækifæri og hefur einu sinni verið flutt við jarðarför. 

Ef líkbíllinn fer áleiðis í Fossvogskirkjugarð hefði ég ekkert á móti því að honum yrði ekið sérleiðina, sem er í Öskjuhlíð, en hins vegar krækt niður á Gufunesveg á sérleið, sem þar var, á leiðinni upp í Grafarvogskirkjugarð, verði legstaðurinn þar. 

Leiðin liggur þar að auki undir aðflugsleiðinni að austur-vestur-brautinni á flugvellinum og kannski einhver sem myndi vilja taka að sér að taka á loft í austur yfir Hlíðarfótinn, ef skilyrði leyfa. 

Lífið heldur áfram eftir að maður kveður og það má gjarnan lífga aðeins upp á það fyrir eftirlifendur þetta tækifæri. 


mbl.is Vildi koma of seint í eigin jarðarför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lengi tekur sjórinn við..."

Ofangreint orðtak hefur verið landlægur hugsunarháttur hér á landi og má líka bæta við: "Lengi tekur loftið við."

Við Íslendingar höfum unað glaðir við þá hugsun að sjór og loft séu í þvílíku magni hér úti á hala veraldar að sjálfgefið sé að hvergi í veröldinni sé hvort tveggja eins hreint. 

Nú geta menn unað glaðir við það sem sérfræðingar segja, að jafnvel þótt haldið verði áfram að dæla lúti í sjóinn við Krossanes munu áhrifin verða lítil til lengs tíma litið.

Það er gerólíkt þeim umhverfisáhrifum sem ýmsar framkvæmdir hafa haft í anda Rauðhólastefnunnar, sem ég kalla svo, en hún kemur vel fram í eyðingu Rauðhólanna við Reykjavík, ýmissa gíga og gígaraða á Reykjanesskaga að ekki sé minnst á það að fylla hinn 25 kílómetra langa Hjalladal upp af leir og drullu. 

Í bloggi mínu á undan þess hef ég nefnt nokkur dæmi um þann hugsunarhátt að lengi taki sjór og loft við því á Íslandi sem við dælum út í umhverfið. 

Sumir telja að útblástur hér á landi geti varla verið alvarlegt mál vegna þess hvað við erum fá og landið stórt úti í gríðarstóru hafsvæði. 

Þessi hugsun er alröng. Bíll sem blæs menguðu lofti út í andrúmsloftið á Íslandi hefur nákvæmlega sömu áhrif á lofthjúp jarðar og sams konar bíll í London hefur. Lofthjúpur jarðar er nefnilega sameiginlegur fyrir alla jarðarbúa og hafið umlykur jörðina líka. 


mbl.is Ekki þrávirk efni í menguninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband