4.3.2011 | 23:03
Írland og Ísland.
Saga Íslands og Írlands hefur stundum tvinnast saman í gegnum aldirnar. Raunar eru liðnar að minnsta kosti 1200 ár síðan Írar sigldu til Íslands og Norðmenn nefndu Papa.
Það voru ekki aðeins þrælar eða munkar sem komu til Íslands frá Írlandi, heldur gerðist það samtímis að norrænir menn urðu að hrökklast frá Írlandi og var það áreiðanlega kynblandað fólk að stórum hluta sem kom á þennan hátt til landsins.
Og ekki má gleyma höfðingjakonunni Auði djúpúðgu sem dæmi um þann straum, sem kom frá Írlandi til Íslands og gerði það að verkum að talið er að Íslendingar séu að einum þriðja hluta ættaðir frá Bretlandseyjum.
Áður en báðar þjóðirnar fengu fullveldi um svipað leyti á tuttugustu öldinni voru þær undir erlendu valdi og voru Írar sýnu óheppnari en Íslendingar.
Þegar Móðuharðindin léku Íslendinga grátt gengust Danir fyrir söfnun til aðstoðar Íslendingum og eftir þau varð aldrei aftur hungursneyð á Íslandi þótt lífsbaráttan væri mjög hörð í misjöfnu árferði.
Nýlenduveldin létu sig litlu skipta á þessum öldum kjör þjóðanna, sem þau réðu yfir.
Hins vegar hrundi fólk niður tugþúsundum saman úr hungri á Írlandi þegar uppskerubrestur varð þar án þess að Englendingar aðhefðust neitt sambærilegt við það sem Danir gerðu þó til hjálpar Íslendingum.
Ef Bretar hefðu ráðið yfir Íslandi töluðum við áreiðanlega ekki íslensku og þegar farið er um eyjarnar Orkneyjar og Hjaltland sést mikill munur á högum fólksins þar eða á Íslandi.
Sjálfstæðisbarátta Íra kostaði miklar blóðfórnir en athyglisvert er að sjálfstæðisbarátta Íslendinga kostaði ekkert mannslíf, en það er fágætt.
Það er gott að nú sé hugað að því að græða þau sár, sem þarf að græða úr sambúð Englendinga og Íra og láta nýja tíma renna upp.
![]() |
Fyrsta heimsóknin til Írlands í 100 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2011 | 14:54
Leitið og þér munuð finna?
Eftir því sem jarðefnaeldsneyti þrýtur á jörðinni mun herðast leitinn að nýjum orkugjöfum.
Engan grunaði í upphafi kreppunnar á síðustu öld að eftir aðeins rúman áratug væri búið að beisla kjarnorkuna.
Þá töldu margir hana framtíðarlausnina en annað kom í ljós.
Þegar lífefnaeldsneyti kom upp á borðið töldu margir það vera lausnina en ræktunin, sem stendur undir henni er svo landfrek að leggja þyrfti heilu fylkin undir hana og á sama tíma er þörfin fyrir matvælaframleiðslu sífellt brýnni.
Komið hefur fram að að jarðvarmaorka heimssins sé svo tryllingslega mikil að hún geti gefið mannkyninu miklu meiri orku en það þarf.
En með núverandi tækni er hins vegar aðeins hægt að nýta brotabrot af henni og oft alls ekki á sjálfbæran hátt.
Segja mætti að samanlögð orka í öllum haföldunum kringum Ísland gæti leyst orkuvanda Evrópu en tæknina til að nýta hana vantar.
En leitin heldur áfram að og verður að halda áfram því að ef ekki er leitað finnst ekki neitt.
Á meðan vex þörfin á byltingu í hugarfari hvað varðar það að sóa og bruðla með verðmæti jarðarinnar líkt og gert er.
![]() |
Framleiða eldsneyti úr sól, vatni og koldíoxíði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2011 | 00:27
Rétt eins og höfnin.
Reykjavíkurflugvöllur tekur nú upp 7% af landi Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Reykjavíkurhöfn tekur upp svipað rými. Miklabrautin tekur rúmlega 3% af þessu svæði.
Sífellt er verið að tala um að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur svo að hægt sé að reisa íbúðabyggð á vallarsvæðinu en enginn talar um að flytja siglingarnar til Njarðvíkur.
Samt er það svo að allar flugleiðir innanlands mun lengjast við það að flytja flugið suður á Miðnesheiði en siglingar erlendis frá til aðalhafnar landsins myndu hins vegar styttast ef Reykjavíkurhöfn yrði lögð niður.
Ef innanlandsflugið er flutt til Keflavíkur lengist ferðaleið þess, sem þarf að fara fram og til baka milli Reykjavíkur og Akureyrar um samtals 160 kílómetra eða tvöfalt lengra en ef Hvalfjarðagöng yrðu lögð niður.
Sagt er að völlurinn hafi valdið því að byggð fór austur fyrir Elliðaár og þessu þurfi að snúa við.
Hvernig 7% af byggingarlandinu vestan Elliðaáa gátu skipt sköpum um það að 130 þúsund manns eiga nú heima austan ánna er mér hulin ráðgáta. Eða hvaða hverfi og byggðir austan Elliðaáa eigi að tæma til að flytja 45 þúsund manns í Vatnsmýrina.
Sagt er að umferð og umferðarslysum muni fækka um 40% ef byggð sé 45 þúsund manna byggð á núverandi flugvallarsvæði, því að allir ibúar þess muni vinna á þessu svæði og enginn fara um nema gangandi eða í almenningssamgöngum og þá niður á Laugaveg til að versla.
Einnig virðist reikna með að um engan í hverfinu muni gilda það að hann leiti sér vinnu utan þess.
Sagt er að Reykvíkingar muni græða milljarða á því að selja lóðir á svæðinu. Svo er að sjá að þessir peningar muni detta af himnum ofan og enginn muni borga fyrir lóðirnar og eyða til þess peningum sem annars hefðu farið í eitthvað anna.
Nú er það svo að það er styttra í Kringluna heldur en niður á Laugaveg en samt halda menn að fólk muni berjast gangandi á móti norðangarra til að versla við Laugaveg heldur en að fara í Kringluna.
Sagt er að miðja verslunar og þjónustu muni verða í gamla miðbænum ef íbúðabyggð rísi í Vatnsmýri.
Stærstu krossgötur landsins eru hins vegar fimm kílómetrum austar á línunni Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn. Það er alþjóðlegt lögmál að krossgötur laða að sér verslun og þjónustu. Gamli miðbær Reykjavíkur eru úti á nesi. Möguleikar hans eru að vera manneskjuleg, vinaleg og aðlaðandi byggð, full af sögulegum og menningarlegum minjum, - ekki að keppa við Smáralind eða Korputorg.
Sagt er að höfuðborgarsvæðið sé margfalt dreifbýlla en í sambærilegum borgum Evrópu.
Þá miða menn við milljónaborgirnar Kaupmannahöfn, London og Brussel.
Í norrænni skýrslu um 16 borgir á Norðurlöndum kemur fram að þær tíu þessara borga sem eru á stærð við Reykjavík eru með álíka dreifða byggð eða jafnvel dreifðari. Þessari skýrslu var stungið ofan í skúffu í borgarkerfinu á sínum tíma.
Sagt er að Reykjavíkurflugvöllur sé einsdæmi hvað varðar nálægð byggðar við hann. Allir sem hafa flogið til útlanda vita að þetta er ekki rétt. Í Los Angeles eru fjórir flugvellir og aðeins einn af ca 20 flugbrautarendum liggur að auðu svæði.
Í og rétt við Stokkhólm eru fjórir flugvellir og allir vita um legu Kastrupflugvallar. Gunnar Þorsteinsson skoðaði á sínum tíma hve langt væri frá flugvöllum til borga að meðaltali í heiminum og það voru sjö kílómetrar ef ég man rétt.
Hægt er að breyta Reykjavíkurflugvelli með því að lengja austur-vestur-brautina út í Skerjafjörð og gera nýja, stutta norður-suður-braut, sem aðeins yrði notað í norðan eða sunnan hvassviðri. Aðflugið yrði fyrir utan Kársnes. Talsvert rými myndi losna við þetta.
Haldin var dýr samkeppni um íbúðabyggð í Vatnsmýri en engin samkeppni um það hvernig svæðið gæti litið út með breyttum flugvelli.
Það er ekki einkamál Reykvíkinga hvort fólk á landsbyggðinni þarf að lengja ferð fram og til baka til Reykjavíkur um 160 kílómetra. Ekkert frekar en að það sé einkamál Blönduósinga hvort norðurleiðin um land Blönduósbæjar verði stytt um 14 kílómetra. Síðan gleymist það að það yrðu líka Reykvíkingar sem myndu þurfa að lengja ferðaleið sína fram og til baka um 160 kílómetra í hvert skipti sem þeir flygju út á land.
Kominn er tími til að slá því föstu að höfuðborg landsins verði með eins góð og hentug mannvirki til samgangna á landi, sjó og í lofti og eðlilegt er. Því að það er eðli borga að þær verða til og dafna vegna samgangna.
Þegar menn vilja fjarlægja samgöngumannvirki til þess að reisa íbúðabyggð í staðinn gleyma þeir því að lega borga gagnvart samgöngum skóp íbúðabyggðina.
Þegar köngulóin í ævintýrinu hafði gert undur fallegan vef fannst henni þráðurinn að ofan, sem hún hafði komið eftir, ekki passa inn í myndina og klippti á hann. Þá féll vefurinn saman.
Það á vel við að líkja flugvelli við þráðinn að ofan.
![]() |
Vilja flugvöllinn áfram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)