5.3.2011 | 21:50
"Örlög, þið ráðið okkar næturstað..."
"Örlög, þið ráðið okkar næturstað. Enginn má sköpum renna og best er það."
Þessi setning er sögð í einum af leikritum Shakespeares eins og svo margt annað spaklegt.
Þó er það nú svo, að margir vildu helst óska sér ákveðins dauðdaga, ef þeir fengju að ráða einhverju um það.
Þegar Albert Guðmundsson spilaði með Stjörnuliði mínu var hann orðinn líkast til um 120 kíló og kominn á sjötugsaldur. Hann gerði marga ævintýralega hluti með liðinu og lagði fast að mér að fá að láta mig vita af hverjum einasta leik.
Svo langt gekk hann að þegar hann var fjármálaráðherra og hingað til lands kom formaður fjárlaganefndar Bandaríkjaþings, vildi Albert frekar fara með okkur til að spila á Akureyri en hitta hinn bandaríska ráðamann.
Eitt sinn hitti ég Brynhildi, konu Alberts, og hún bað mig í guðanna bænum að hætta að láta mann sinn spila fótbolta, hann væri alltof þungur, með alltof háan blóðþrýsting og hjartaveill og væri raunar í lífshættu ef hann væri að þessari vitleysu.
Mér dauðbrá og sagðist ekki hafa vitað um þetta og þakkaði henni fyrir. Síst af öllu vildi ég bera ábyrgð á ótímabæru dauðsfalli einhvers liðsmanna mína.
En ég komst ekki upp með það að sniðganga Albert næst, því að næst þegar við hittumst spurði hann mig að fyrrabragði með tillhlökkunarsvip hvort og hvenær næsti leikur væri á dagskrá.
Ég sagði henni að konan hans hefði harðbannað mér að láta hann taka svona mikla áhættu og hefði sagt mér að hún hefði harðbannað honum það líka, - líf hans lægi við.
"Ég veit það vel," svaraði Albert, "og að sjálfsögðu reyni ég að uppfylla sem flestar óskir hennar. En þessu fær hún ekki að ráða, - þessu ræð ég. Hún kynntist mér sem knattspyrnumanni, hefur verið gift mér sem knattspyrnumanni alla tíð og verður bara að sitja uppi með það svo lengi sem við getum verið í sambúð. Ég harðbanna þér að hlusta á hana."
"Já, en", andmælti ég, "ég vil ekki bera ábyrgð á því að þú farir þér að voða."
"Þú berð enga ábyrgð á því," svaraði hann, "heldur ég. Skilurðu ekki, að ef það á fyrir mér að liggja að deyja úr hjartaáfalli, þá get ég ekki hugsað mér flottari dauðdaga en með boltann á tánum í miðjum leik? Láttu mig um þetta, þessu ræð ég og tek ábyrgð á því einn."
Tveir hjartveikir menn, Albert og Rúnar Júlíusson, léku með liðinu meðan þeir lifðu. Hvorugur dó með boltann á tánum, en Rúnar kvaddi með gítarinn innan seilingar og hefði liklega varla getað hugsað sér betri dauðdaga þegar hið óhjákvæmilega kall kom.
"Enginn má sköpum renna og best er það" segir Shakespeare. Satt er það en þó var ég ekki langt frá hugsun Albert og Rúnars Júl, þegar ég lét textann við lagið "Flökkusál" enda svona:
"...Sitjandi í auðninni upp við stóran stein
starandi á jökulinn ég bera vil mín bein..."
![]() |
Dó á sviðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2011 | 08:47
"Börnin fá mat en foreldrarnir svelta..."
Fyrir rúmum 60 árum var eitt af þeim lögum, sem sungin voru þá í útvarpi og höfðu mest áhrif á mig, lagið, sem Elsa Sigfúss söng við texta Davíðs Stefánssonar um kofa verkamannsins og byrjaði einhvern veginn svona:
"Þeim gleymist oft sem girnast glaum og dans
að ganga hægt hjá verkamannsins kofa.
Ó, hafið lágt við litla gluggann hans
og lofið dagsins þreytta barni´að sofa...."
Í textanum er lýst kjörum hins fátæka verkamanns, sem býr í hreysi, kjörum veikrar móður og barna sem búa við mikinn skort. Og ljóðið endar svona:
"Börnin fá mat en foreldrarnir svelta."
Þetta lag hefur ekki verið spilað svo ég muni í marga áratugi enda bötnuðu kjör fólks jafnt og þétt eftir að Davíð orti hið eftirminnilega ljóð.
Það er því nöturlegt ef þetta ljóð fær aftur að verða áminning til okkar, sem nú lifum.
Fyrir tuttugu árum staðfærði ég textann við lagið "Streets of London" og nefndi það "Öngstræti borgarlífsins."
Textinn fjallaði um kjör og líf þeirra, sem eru utangarðs á okkar tímum og Bubbi Morthens söng það í sjónvarpsþætti en seinna söng Halli Reynis það á diski sínum.
Sumum fannst farið of langt í þessu texta mínum og höfðu kannski eitthvað til síns máls.
Því miður sýnist mér að sumt í honum sé farið að eiga við í dag.
P. S. Innsláttarvilla átti sér stað í fyrirsögninni, sem var slegin inn í morgun, en nú, 14 stundum síðar, kem ég að tölvunni og sé athugasemd um hana. Takk, leiðrétti hana hér með.
![]() |
Svelta sig svo börnin fái mat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)