Hinir amerísku lífshættir.

Allt frá því er Henry Ford kom Bandaríkjamönnum upp á bragðið að njóta lands frelsisins með því aka um það á eigin einkabílum hafa þessir lífshættir, "the american way of living" breiðst út um allan heim.

Bandaríkjamenn, sem eru aðeins um 5% jarðarbúa, nota fjórðung allrar orku í heiminum og repúblikanar eru fulltrúar þeirrar stefnu að viðhalda því mikla bruðli, sem felst í lífsháttum þeirra. 

Dísilbílar, sem eyða og menga miklu minna en bensínbílar, hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá Bandaríkjamönnum og endurvinnsla áls er þeim mikill þyrnir í augum, þótt með því megi spara nokkrar álbræðslur. 

Skattlagning á eldsneyti er sú langminnsta sem þekkist hjá nokkurri stórþjóð og fyrir bragðið hafa smábílar aldrei náð sömu útbreiðslu þar og annars staðar, heldur er stóri, ameríski pallbíllinn þjóðartákn hins ameríska lífsstíls. 

Allt sem getur raskað bruðlró hins villta vesturs er íhaldsmönnum vestra mikill þyrnir í augum. 

Þótt jöklar bráðni nú um allan heim og sífellt aukist líkurnar á því að samband sé að milli þess og útblásturs gróðurhúsalofttegunda, er reynt á allan hátt að berjast gegn því að mark sé á því tekið. 

Fulltrúar olíufélaganna hafa eilífðarpassa í Hvíta húsinu á sama tíma og fulltrúar leyniþjónustunnar þurfa að vera með sína passa í sífelldri endurnýjun. 

George W. Bush réði menn úr olíubransanum til að stjórna rannsóknum á umhverfismálum fyrir Hvíta húsið, sem síuðu út það sem ekki hentaði. 

Nú sækjast Kínverjar, Indverjar og fleiri þjóðir eftir því að taka upp ameríska lífshætti og þar með er komin í gang heimsmynd, sem felst í því að búa til samtryggingu þessarar þjóða við Bandaríkjamenn.

Hún felst í því að Kanarnir eru að gera sig að skuldaþrælum Kínverja, en á móti sjá þeir um að senda her sinn í hvert það stríð, sem nauðsynlegt kann að vera til að viðhalda ástandi, sem er dæmt til að enda með ósköpum þegar olíulindirnar tæmast ein af annarri án þess að aðrar viðlíka komi á móti. 

Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. Fyrirhyggjulaus bruðlfíkn hinna amerísku lífshátta mun enda með því að frelsi allra mun líða fyrir. 

Ég er talsmaður þess að samanlagt frelsi jarðarbúa, núlifandi og komandi kynslóða, verði sem mest, - ekki þess að hver hrifsi til sín það frelsi sem hann getur höndum yfir komið án þess að huga að því hvort það valti yfir frelsi annarra. 

Ég tel að það frelsi sem felst í því að eiga eigið farartæki geti vel þrifist án þess að það þurfi þrjú tonn af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti og án þess að það þurfi að ausa upp takmörkuðum orkulindum jarðarinnar. 

Frelsi óhefts og skefjalauss bruðls og sóunar er helsta ógnin við frelsi kynslóðanna á jörðinni um þessar mundir. 


mbl.is Tekist á um loftslagsvísindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið samtal við gjaldkera á degi kvenna.

Í dag mun vera alþjóðlegur dagur kvenna og það minnir mig á það að langflestir gjaldkerar í bönkunum eru konur.

Fyrir nokkrum árum þegar gróðærisbólan blés hvað mest út kom fram í fjölmiðlum að bankastjórinn hjá einum bankanum hefði jafn mikil laun og 72 gjaldkerar.

Þegar ég las þetta hér um árið átti ég leið í banka og eftirfarandi samtal átti sér stað við gjaldkerann, sem afgreiddi mig:   V=Viðskiptavinur.  G=Gjaldkeri. 

V: Ég er með hugmynd handa ykkur ef þið lendið í deilu um laun ykkar. 

G: Hver er hún? 

V: Ég var að lesa að bankastjórinn ykkar hefði laun á við 72 konur, sem gegna gjaldkerastöðu, og datt í hug að 72 ykkar kæmuð klukkutíma of seint í vinnuna einn morguninn.

G: Þetta er alveg fráleitt. Bankarnir myndu stöðvast og það yrði stórtjón. Það má ekki gerast.  Við yrðum allar reknar. 

V: Það getur bara ekki verið. Ég veit ekki til að bankastarfsemin hafi lamast þótt bankastjórinn, sem er jafnoki 72 gjaldkera, komi of seint í vinnuna. 

 

Nú er búið að leggja bankaútibúið niður í hagræðingarskyni og hinn samviskusami gjaldkeri var rekinn þótt hún gerði aldrei neitt af sér  og er sennilega atvinnulaus.

En bankastjórarnir hafa orðið fyrir alvarlegri kjaraskerðingu því að nú er rætt um bankastjórlaun, sem séu á við laun 20 kvenna en ekki 72ja.  


mbl.is Bankastjórarnir mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband