10.4.2011 | 23:17
Loftflæði og flugvélar.
Flugvélar geta ekki flogið nema lágmarksmagn af loftflæði streymi hratt framan að þeim og aftur yfir vængina. Því meira flæði, því betra flug. Loftflæði og flugvélar.
En dæmið snýst við þegar flugvélar standa á jörðu niðri. Þá getur þetta endað eins og sást í sjónvarpsfréttum í kvöld að þær fara á hvolf.
Ekki veit ég hve mörg hundruð sinnum ég hef ekki þurft að eyða tíma og fyrirhöfn í það að koma í veg fyrir að FRÚin fyki og færi að þessu leyti að halda fram hjá mér.
Eftir ánægjulega dvöl á samkomu Umhverfisvaktarinnar í Hvalfirði í dag var þeyst austur fyrir fjall og fram á kvöld fór tíminn í að koma í veg fyrir að FRÚin fyki þar sem hún stóð úti.
Flugvinur minn, Kári Jónsson, reyndist mér vel þegar hann lét í té stóran vörubíl til að binda í og skýla vélinni.
Fyrst þurfti bíllinn að standa aftan við vélina á hlið til að koma í veg fyrir að stélið skemmdist vegna vindsveipa á hlið, því að vindur var miklu austanstæðari en spáð hafði verið, og ég hafði miðað við sunnanátt þegar ég fór austur í gærkvöldi til að binda vélina.
Síðan færði Kári bílinn framfyrir þegar vindur snerist loks til suðurs. Þetta er heilmikil fræðigrein og talsvert verk, ekki sama hvernig bundið er og með hvaða hnútum og einnig þarf stundum að grafa holur fyrir hjólin og lækka nefhjólið til að vængirnir taki ekki eins mikinn vind á sig.
Fyrir um 20 árum varð til þessi vísa þegar ég var að basla við þetta:
Margt vill brjótast böndum úr
sem bundið er með valdi
og erfitt er að fjötra frúr
svo fastar að það haldi.
![]() |
Farþegarnir komnir í land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.4.2011 | 12:24
Meirihlutinn ræður og vill meira áhættuspil.
Fjármálabólan mikla byggðist hér á landi á því að meirihluti þjóðarinnar var fús til að taka þátt í áhættuævintýrinu, sem bólan og þenslan byggðust á, langmesta vexti peningakerfis, sem nokkur þjóð hefur upplifað auk mestu virkjanaframkvæmda sögunnar með tilheyrandi umhverfisspjöllum.
Raddir þess efnis að hið alltof háa og í raun tilbúna gengi krónunnar gæti ekki annað en fallið með tilheyrandi stórtjóni fyrir þá sem tóku gengistryggð lán voru taldar úrtöluraddir og svartagallsraus.
Hugsanlega hefði bankabólan ekki sprungið svona snemma ef ekki hefði einnig verið á sveimi svipað fyrirbæri erlendis. En hættuspilið og spilaborgin hefði líkast til hrunið fyrr eða síðar.
Flestir hafa viðurkennt að með neii sé tekin meiri áhætta en með jái, þótt um það hafi reyndar líka verið deilt af sumum.
60 prósent þjóðarinnar hafa nú tekið af skarið og vilja fara þessa leið og nú er bara að sjá hvernig fer.
40 prósent vildu hins vegar fara samningaleiðina og kannski er það hærri prósentutala en oft áður í svipuðum málum, því að þegar uppleggið er hvort eigi að borga eða ekki borga er það reynsla annarra þjóða, að jafnvelt þótt þeir sem vilja borga samkvæmt samningum leiði að því rök að nei-leiðin verði dýrari, er einfaldara fyrir kjósendur að segja bara nei á staðnum og stundinni.
Í Kaliforníuríki fór illa þegar atkvæðagreiðslur voru um fjármál og þau eru venjulega ekki sett í þjóðaratkvæðagreiðslur í öðrum löndum. Það er helst í ríki eins og Sviss, þar sem alda hefð er fyrir þessari lýðræðisaðferð, að hún virkar á traustan hátt.
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru að stíga sín fyrstu alvöruspor hér á landi og það mun taka tíma að þroska þær og móta. Að því ber að stefna að mínum dómi og verður eitt mikilsverðasta viðfangsefni stjórnlagaráðs að beina því máli í sem bestan farveg og leiða þær til öndvegis eftir því sem fremstu tök eru á án þess að falla í þær gryfjur, sem þær geta fallið í.
![]() |
Afgerandi nei við Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)