11.4.2011 | 14:05
Eðlilegir umhleypingar.
Undarlegt hefur verið að fylgjast með því frá því í fyrrahaust, hvernig menn hafa kennt óvenjuleg óhagstæðu veðri og vindum um það hve illa hefur gengið að halda Landeyjahöfn opinni.
Ég hef þurft að hafa flugvélina TF-FRÚ úti í ellefu vetur og þurft að vera vakinn og sofinn jafnt á nóttu sem degi yfir því að hún snúi rétt og sé rétt bundin niður, og sé ekki að veturinn núna hafi verið neitt öðruvísi en hinir hvað umhleypinga snertir.
Sumir hafa verið verri en þessi og þeir, sem halda að það sé eitthvað sérstakt við það að það séu umhleypingar dögum og vikum saman á Íslandi að vetrarlagi virðast vera haldnir einstaklega ofþroskaðri óskhyggju.
Ég hef ekki séð nein gögn eða ítarlega úttekt frá Veðurstofu Íslands um það að veður og vindar í vetur hafi verið neitt frábrugðnir því sem alltaf má búast við á Íslandi.
Hið fyndna er að þegar hann hefur blásið á vestan hefur því verið kennt um sandburðinn og líka þegar hann hefur blásið á austan. Jafnvel sagt að fyrir einskæra óheppni hafi sandur, sem austanáttin bar vesturfyrir höfnina borist til baka austur vegna þess að það snerist úr vestan- í austanátt.
Hið eina sem var óvenjulegt var viðbótaraurburður Markarfljóts vegna gosefna úr Eyjafjallajökli.
Mikill aurburður Markarfljóts er hins vegar þekkt fyrirbæri frá árunum fyrir gos. Þannig eyðilögðu vatnavextir og aurburður veginn inn í Þórsmörk á stórum kafla haustið 2008 á svipaðan hátt og aurburður skemmdi veginn í fyrravor, þótt aurburðurinn hafi ekki verið eins mikill neðar við fljótið eins og í fyrra.
Landeyjahöfn á áreiðanlega eftir að koma sér vel þegar veðrið skánar nú í vor og hægt verður að opna hana og auðvitað kemur hún sér best á ferðamannatímanum, þegar umferð til og frá Eyjum er mest.
Það er hins vegar að mínu viti óraunsætt að ætlast til þess að hægt sé að treysta því að þessi höfn sé opin og vel athugandi að fá ferju, sem ristir ekki eins djúpt og Herjólfur, til að halda uppi siglingum um hana.
![]() |
Efni mun bætast við í hafnarmynninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2011 | 09:39
Verðið fyrir "Hotwave".
Í fyrradag komst hiti upp í 20 stig í Vopnafirði þótt enn sé vetur og Ísland liggi norður við heimsskautsbaug. Ástæðan er gríðaröflugur og stór massi af hlýju lofti sem þrýstist langt sunnan úr höfum alla leið hingað norður.
Til þess að flytja slík býsn af heitu lofti þarf feiknarlega orku, sem birtist í bálhvössum vindi í háloftunum og rokinu, sem fór yfir landið í gær og í nótt.
Um svipað leyti og Icesave komst í hámark í þjóðfélagsstormunum var það fyrirbæri sem kalla má "Hotwave" sem réði ríkjum í veðrinu, 20 stiga heitur hnjúkaþeyrinn sem blés yfir Vopnfirðinga í fyrradag og lárétt steypiregnið sem buldi á landsmönnum í gær.
Svona hvassviðri og læti í veðrinu er verðið sem við verðum að borga fyrir það að fá hlýtt loft alla leið hingað norður á þessum árstíma. Um það er ekki hægt að halda neina þjóðaratkvæðagreiðslu.
![]() |
Þrumur og eldingar yfir Bláfjöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)