18.4.2011 | 17:30
Með illu skal illt út reka?
"Með illu skal illt út reka" segir máltækið og er þá átt við það, að ef ekki duga nein vettlingatök geti neyð orðið til þess að grípa verði til afgerandi ráða, þ. e. oft verði að gera fleira en gott þykir.
Ofþyngd er ekkert gamanmál, heldur um að ræða eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins.
Þegar hún er komin á hátt stig verður ástandið oft þannig, að engin leið er að sleppa billega úr klóm hennar nema að velja á milli tveggja kosta: Að láta ástandið versna með þeim slæmu afleiðingum, sem af því hlýst, - eöa - grípa til þeirra ráða, sem duga og láta sig hafa óþægindin og erfiðleikana, sem ganga verður í gegnum.
Móðir mín heitin kenndi mér ágætt orðtak, sem stundum er hollt að hafa í huga, þegar staðið er frammi fyrir svona vandamáli, þ. e. "að láta sér leitt ljúf þykja."
Þetta er heimspeki Pollyönnu eða hugsun dægurlagatextanna "Pretend" og "Smile".
Þegar um enga góða kosti er að ræða verður að sætta sig við það leiða val að velja þann kost sem er illskástur.
Uppákomurnar í þáttum Loga og Einars þjóna vafalaust tvíþættum tilgangi: 1. Að vekja athygli á þáttunum og umræðu um þá. 2: Að vera ekki að fegra viðfangsefnið á óraunsæjan hátt.
Hvort tveggja er fyllilega verjandi að mínum dómi og framtakið þarft, einkum hjá Einari Bárðarsyni sem verður að bera þann þunga kross, sem hann er smám saman að hafa mikið fyrir að létta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2011 | 10:55
Skiljanlegt í ljósi sögunnar.
Það er skiljanlegt að Finnum svíði það að þurfa að vera í hópi þeirra þjóða sem hlaupa undir bagga með þjóðum, sem hafa klúðrað fjármálum sínum.
Líklega er leitun að þjóð sem hefur sýnt annan eins styrk og og einbeitni í að bjarga málum sínum myndarlega af eigin rammleik og Finnar hafa gert þegar syrt hefur í álinn.
Þeir voru skyldaðir til að borga svimandi háar stríðsskaðabætur eftir heimsstyrjöldina og gerðu það af slíkum glæsileik að hliðstæður finnast varla.
Aðeins sjö árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar héldu þeir glæsilega Ólympíuleika í Helsinki.
Þegar Sovétríkin hrundu stóðu þeir frammi fyrir einhverju mesta útflutnings- og utanríkisverslunarhruni sem dæmi eru um en tóku á því af aldeilis einstæðri hreysti, - jafnvel um of, því að við það skapaðist óþarflega mikil neyð á velferðarsviði þeirra á tímabili.
Finnar eru greinilega mikil baráttuþjóð og taka því ekki sem gefnu að halda uppi sjálfstæðu og öflugu velferðarþjóðfélagi. Þeir hafa vanist því að þurfa að berjast fyrir hlutunum og vera að því leyti "Sannir Finnar".
![]() |
Finnar tala um byltingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2011 | 10:47
Þegar kviknaði í húsinu okkar.
Gamlar bernskuminningar lifna við að fá um það skeyti að allar stöðvar hafi sent bíla til að fást við eldsvoða á Laugavegi 81.
Þegar ég var fimm ára var fjölskyldan nýflutt í splunkunýtt hús að Stórholti 33. Einn daginn brá svo við að eldtungur stóðu upp úr reykháf hússins og var auðvitað hringt á slökkviliðið sem kom með hraði.
Þetta var ekkert grín, því að í risi hússins voru fjögur lítil súðarherbergi með þurrum og eldfimum texskilrúmum, sem gátu fuðrað upp á augabragði ef eldur komst í þau.
Slökkviliðsmenn þustu því upp í risið til að stöðva eldinn þar, ef hann væri að breiðast þar út.
Í ljós kom að eldurinn var bundinn við reykháfinn einan og hafði kviknað vegna þess að gleymst hafði að rífa timburmótin innan úr honum.
Á þessum árum voru hús kynt með kolum og eldurinn úr kolamiðstöðinni í kjallaranum hefði læst sig upp í timburmótin í reykháfnum!
Ég man vel hvað þetta var mikið uppistand í heimilislífinu og hvað þetta þótti neyðarlegt í alveg spánnýju húsi. Ennfremur hvað það var skrýtið að mikill mannfjöldi safnaðist saman við húsið okkar til að fylgjast með "eldsvoðanum".
Móðir mín gantaðist með það eftirá að henni fannst skrýtið hvað slökkviliðsmönnumum var starsýnt á hana og var að velta því fyrir sér, hvort þeir væru virkilega að veita konum athygli frekar en að vinna störf sín.
Þegar hún leit í spegil eftir að mestu lætin voru að baki, áttaði hún sig á því hvers kyns var.
Þegar hún hafði farið að kanna ástandið við upphaf "eldsvoðans" varð andilt hennar þakið sótblettum svo að hún varð útlits eins og trúður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)