Þegar kviknaði í húsinu okkar.

Gamlar bernskuminningar lifna við að fá um það skeyti að allar stöðvar hafi sent bíla til að fást við eldsvoða á Laugavegi 81.

Þegar ég var fimm ára var fjölskyldan nýflutt í splunkunýtt hús að Stórholti 33. Einn daginn brá svo við að eldtungur stóðu upp úr reykháf hússins og var auðvitað hringt á slökkviliðið sem kom með hraði.

Þetta var ekkert grín, því að í risi hússins voru fjögur lítil súðarherbergi með þurrum og eldfimum texskilrúmum, sem gátu fuðrað upp á augabragði ef eldur komst í þau.

Slökkviliðsmenn þustu því upp í risið til að stöðva eldinn þar, ef hann væri að breiðast þar út.

Í ljós kom að eldurinn var bundinn við reykháfinn einan og hafði kviknað vegna þess að gleymst hafði að rífa timburmótin innan úr honum.

Á þessum árum voru hús kynt með kolum og eldurinn úr kolamiðstöðinni í kjallaranum hefði læst sig upp í timburmótin í reykháfnum!

Ég man vel hvað þetta var mikið uppistand í heimilislífinu og hvað þetta þótti neyðarlegt í alveg spánnýju húsi. Ennfremur hvað það var skrýtið að mikill mannfjöldi safnaðist saman við húsið okkar til að fylgjast með "eldsvoðanum".

Móðir mín gantaðist með það eftirá að henni fannst skrýtið hvað slökkviliðsmönnumum var starsýnt á hana og var að velta því fyrir sér, hvort þeir væru virkilega að veita konum athygli frekar en að vinna störf sín.

Þegar hún leit í spegil eftir að mestu lætin voru að baki, áttaði hún sig á því hvers kyns var.

Þegar hún hafði farið að kanna ástandið við upphaf "eldsvoðans" varð andilt hennar þakið sótblettum svo að hún varð útlits eins og trúður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband