27.4.2011 | 19:30
Uppreisn um síðir. Vantar myndir af fyrirmyndum.
Bygging Hallgrímskirkju var einhver umdeildasta framkvæmd í sögu okkar lands og beindist gagnrýnin að henni úr mörgum áttum.
Ekki einasta voru margir ósáttir við að eyða miklum fjármunum í byggingu hennar á sama tíma sem undir henni kúrðu fátæklingar í braggahreysum og malarvegir og verkefni í gerð samgöngumannvirkja og hvers kyns mannvirkja annarra blöstu hvarvetna við.
Einnig kom fram hörð gagnrýni á útlit kirkjunnar sem mörgum þótti gamaldags, þunglamalegt og hallærislegt, til dæmis vegna þess að frá tveimur sjónarhornum sýnist turninn hallast.
Grínast var með að séð frá Skólavörðustíg væri hún eins og sæljón eða selur, sem lægi fram á hreifa sína og ræki trýnið upp í loftið.
Fleiri samlíkingar og dónalegri voru líka notaðar ef svo bar undir og mörgum fannst kirkjan bera aðrar bygginar í nágrenninu ofurliði og vera í hrópandi ósamræmi við þær og eyðileggja heildarmynd Skólavörðuholts.
Árum saman varð Hallgrímskirkjusöfnuður að notast við kórinn undir kirkjunni sem Guðshús og leit jafnvel út fyrir að þessi draumur Guðjóns Samúelssonar myndi ekki rætast.
Nú er þetta allt að baki og kirkjan sú langnýjasta af þeim tíu fegurstu kirkjum heims, sem ferðavefurinn Budget Travel hefur valið.
Eitt af því sem hefur því miður farist fyrir að geta um að fyrirmyndina að lagi turnsins og súlunum utan á honum sótti Guðjón annars vegar í Hraundranga í Öxnadal og hins vegar súlurnar í stuðlabergið við Svartafoss í Skaftafelli sem raunar er nákvæmar stælt í lofti Þjóðleikhússsins.
Ég tel upplagt að fyrir framan kirkjuna eða á áberandi stað inni í anddyri hennar séu myndir af þessum fyrirmyndum arkitektsins, nokkuð sem ég tel vanta upp á.
![]() |
Hallgrímskirkja meðal þeirra fallegustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2011 | 15:44
Engin afsökun fyrir vanrækslu á viðhaldi.
Það hefur aldrei verið til og er ekki til nein afsökun fyrir vanrækslu á viðhaldi vega á borð við það sem viðgengist hefur á sunnanverðum Vestfjörðum og norðanverðan Breiðafjörð um áratuga skeið, alveg burtséð frá deilum um vegagerð um Teigsskóg eða það hvort eða hvenær verða gerð göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, nýr og betri tenging milli Arnarfjarðar og Barðastrandar eða göng undir Hjallaháls.
Sýnt hefur verið fram á að gerð ganga undir Hjallaháls og nýs vegar yfir Ódrjúgsháls er ekki dýrari en hin umdeilda vegagerð sem ristir stærsta skóg á Vestfjörðum eftir endilöngu á afar slæman hátt, því að skógurinn er langur og tiltölulega mjór.
Brekkan og beygjan bratta austan í Ódrjúgshálsi hefur oft verið nefnd sem dæmi um það hvernig vegurinn þurfi að vera ef ekki er farið í gegnum Teigskóg en Vegagerðin hefur boðið upp stórfína vegagerð yrir hálsinn, sem liggur aðeins upp í 160 metra hæð yfir sjó, sem er álíka og Vatnsendahæð við Breiðholt í Reykjavík. (144 m)
Vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð og milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða hafa liðið fyrir það að tekin var sú ranga ákvörðun fyrir rúmum 30 árum að gera fyrst veg yfir Steingrímsfjarðarheiði og aðalleiðin milli Djúps og Reykjavíkur yrði um Strandir langt austur fyrir stystu línu milli Reykjavíkur og Vestfjarða.
Það sýnir best hve slæm lausn þetta var að nú er ekið úr Djúpinu austur yfir heiðahrygginn, sem skilur að Djúpið og Húnaflóa og síðan aftur í vesturátt yfir hann yfir til Reykhólasveitar og samt er þetta miklu styttir leið en upphaflega leiðin um Strandir var.
Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði átti að skapa blómlega og þétta byggð við Ísafjarðardjúp samkvæmt svonefndri Inn-Djúpsáætlun, sem virkar í dag eins og alger fáránleikabrandari.
Stysta flugleið frá Reykjavík til Ísafjarðar liggur um Skálmarnes á miðri norðurstönd Breiðafjarðar og því nær þeirri línu, sem meginleiðin liggur á landi, því betra.
Það þarf ekki annað en að líta á kort til að sjá að hve miklu hefði breytt ef menn hefðu haft þetta í huga á sínum tíma.
![]() |
Varasamur vegur fyrir vestan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)