Færa leikinn til Raufarhafnar?

Á sama tíma og jörð er hvít í Reykjavík og hálka á fjallvegum á vestanverðu landinu er 15 stiga hiti og heiðskírt veður á norðaustanverðu landinu, til dæmis á Raufarhöfn.

Þetta er Ísland. Og ef það er brúklegur knattspyrnuvöllur á Raufarhöfn mætti færa fyrsta leik Íslandsmótsins í knattspyrnu þangað. 

Þetta eru hins vegar bara látalæti hjá mér. 

Snjófölin á grasinu syðra er blaut og ekkert frost á ferðum, þessvegna ígildi rigningar, sem hingað til hefur ekki stöðvað knattspyrnuleiki. 


mbl.is Víkingsvöllur snævi þakinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ævintýri enn gerast..."

Í tímahraki fyrir rúmum 40 árum hraðsauð ég textann "Ævintýri" fyrir samnefnda hljómsveit og fyrir tilviljun varð lagið nokkurs konar einkennislag fyrir ákveðin kynslóðaskipti í dægurtónlistinni.

Ég var hins vegar alla tíð hálf óánægður með textann og vegna þess hve mörgum lögum þurfti að sleppa á ferilsplötu minni fyrir síðustu jól var Ævintýri á dauðalistanum. 

En í ljós kom að öðru þyrfti frekar að sleppa. 

Tilstandið í kringum kóngafólkið í Bretlandi virkar á marga eins og hræðileg tímaskekkja á tímum frelsis og jafnréttis en þetta er nú samt ekki alveg svona einfalt. 

Enginn skyldi nefnilega vanmeta gildi ævintýrisins, að geta látið sig dreyma. Tveir milljarðar manna hefðu varla verið að fylgjast með þessu ef þeir hefðu ekki talið það þess virði. 

Ekkert virðist geta drepið ævintýrið og það að gera sér dagamun og láta sig dreyma. 

Tilstandið er réttlætt með því að Bretar eigi engan einn þjóðhátíðardag eins og flestar aðrar þjóðir og megi því vel gera sér dagamun einstaka sinnum af verulegum myndarskap. 

Og er kannski svo mikill munur á því að sitja fyrir framan sjónvarp og horfa á konunglegt og ævintýralegt brúðkaup eða að sitja og horfa á "ævintýramanninn" Messi eða aðra rígfullorðna karlmenn eltast við leðurtuðru? 


mbl.is Yfirgáfu konungshöllina í þyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Spurðu hann, hann var sé eini sem var alltaf edrú."

Minnisleysi fer eftir ýmsu og þarf víst ekki eiturlyfjaneyslu til. Að minnsta kosti finnst mér á allra síðustu árum oft óþægilegt hvernig ýmis mannanöfn detta úr kollinum á mér og ekki hefur eiturlyfjaneyslunni verið fyrir að fara eins og hjá Ozzy Osbourne. 

Fyrir um 15 árum var gefin út ævisaga eins af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar og brá svo við á meðan á ritun hennar stóð, að söguritarinn var sífellt að hringja í mig, stundum daglega, til þess að spyrja mig um ýmis atriði sögunnar. 

Þegar ég spurði hann loks af hverju hann spyrði ekki söguhetjuna sjálfa um þetta svaraði ritarinn: "Hann segir alltaf við mig: "Spurðu Ómar, - hann var sá eini sem var alltaf edrú!" 

Fleira en eiturlyfjaneysla getur skemmt minnisheimildir heilans. Afar misjafnt er hvernig barsmíðar hafa áhrif á hnefaleikara og hafa margir þeirra sem voru barðir mest og lengst orðið bæði langlífir og verið langminnugir á sama tíma og aðrir hafa skaðast. 

Floyd Patterson var heimsmeistari 1956-62 og eftir að hann dró sig í hlé tók hann að sér trúnaðarstörf fyrir íþróttahreyfinguna og stóð sig vel. 

Fyrir nokkrum árum kom þó að því að hann sagði sig úr stjórn samtakanna, sem hann sat í. 

Það gerðist þegar hann mundi ekki lengur hvern hann hafði sigrað þegar hann varð heimsmeistari 1956. 

Sá, sem hann sigraði, Archie Moore, varð hins vegar hálfníræður og barðist á fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum allt frá tíma Joe Louis til Muhammads Ali. 

Hann bar með  sóma viðurnefnið "Old Mongoose". Moore barðist oftar og var barinn meira en nokkur annar, alls 220 atvinnumannabardaga, sem er svona fjórum sinnum meira en gerist mest hjá öðrum. 

Hann vann 185 sinnum og tapaði 23 sinnum og lauk 131 bardaga með "knock-out" sem er langtum, langtum meira en nokkur annar afrekaði. 

Og hann mundi nógu mikið af því sem hann hafði reynt að bestu hnefaleikarar heims þótti eftirsókn í því að hafa hann í horninu hjá sér til að gefa góð ráð þegar mikið lá við. 

Victor Borge var að sem skemmtikraftur allt til níræðs og ekki virtist minnisleysi há honum. 

Þó gantaðist hann með það þegar hann sagði: "Núna, þegar ég er orðinn svona gamall, er minnisleysið orðið mjög pirrandi og það er einkum þrennt sem ég á langerfiðast að muna. 1. Nöfn. 2. Tölur. 3. Eh, þetta þriðja!" 


mbl.is Þjáist af minnisleysi vegna eiturlyfjaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband