Þrjóskast við með þokukenndum loforðum.

Framsóknarflokkurinn er furðuskepna. Í byrjun var hann frjálslyndur umbótaflokkur rétt vinstra megin við miðju í hægri-vinstri litrófi stjórnmálanna.

Eftir fimm ár verða liðin 100 ár frá stofnun hans og í þessi 100 ár hefur þessi flokkur alltaf haft eitthvað lík í lestinni, sem hefur komið í veg fyrir að hann næði þeirri stærð sem frjálslyndur miðjuflokkur á að geta náð.

Hann var ekki orðinn nema táningur þegar hann tók ástfóstri við eitthvert ólýðræðislegasta fyrirbrigði íslenskra stjórnmála, sem var afar ranglát kjördæmaskipan sem leiddi af sér alveg ótrúlegt misvægi atkvæða. 

Sem dæmi má nefna að fámennasta kjördæmið, Seyðisfjörður, með aðeins um 700 íbúa, hafði tvo þingmenn eftir kosningarnar 1949, vegna þess að auk hins kjördæmakosna þingmanns, komst annar frambjóðandi inn á þing sem uppbótarþingmaður vegna  fráleitra ákvæða þess efnis, að annað hvert uppbótarsæti féll í hlut þess frambjóðanda sem ekki hafði komist inn en hafði hæst hlutfall atkvæðanna í kjördæmi. 

Framsóknarflokkurinn hékk eins og hundur á roði á þessu óréttlæti lungann af síðustu öld og náðí sér í tvö önnur lík í lest sína, forréttindastöðu SÍS og síðan kvótakerfið.

SÍS féll fyrir tuttugu árum en síðan hefur Framsóknarflokkurinn haldið sig fast við að líma kvótakerfið við sig með öllum þess göllum.

Ein af höfuðröksemdunum fyrir því að viðhalda kvótakerfinu óbreyttu er sú, að núverandi kvótaeigendur megi alls ekki við því að missa neitt af kvóta sínum í hendur annarra.

Rekið var upp mikið ramakvein þegar strandveiðar bar á góma eða nokkur sú aðferð, sem gæti hleypt lífi í sjávarbyggðir, sem kvótakerfið hafði lagt yfir sína dauðu hönd.

Nú á að slá ryki í augu fólks með loðnum og þokukenndum yfirlýsingum um að auka nýliðun og rétta hlut deyddra sjávarbyggða án þess að nokkur tilraun sé gerð til að útskýra þessi innantómu orð nánar.

Framsóknarflokkurinn á sennilega eftir að ná hundrað ára aldri án þess að losa sig við það, sem gerir það að verkum að um þessar mundir styðja í skoðanakönnunum innan við 10% flokk, sem er hefur látið taka sig gildan sem aðili að Alþjóðasambandi frjálslyndra flokka.

Sem slíkur ætti hann að eiga möguleika á að ná miklu meira fylgi á miðju stjórnmálanna þar sem kjósendur eru flestir. En líklega verður hann enn við sama heygarðshornið þegar hann nær 100 ára aldrinum, höktandi áfram sem skugginn af því sem hann var á fyrsta áratug ævi sinnar. 

Ég hef kosið fleiri en einn flokk, fleiri en tvo og fleiri en þrjá síðan ég fékk fyrst kosningarétt í bæjarstjórnarkosningunum 1962. 

Aðeins einu sinni kaus ég Framsóknarflokkinn og sé eftir því. Það var í kosningunum 1974 þegar ég þóttist sjá að það stefndi í samstjórn Íhalds og Framsóknar og ég vildi að ekki yrði farið of geyst í að fylgja eftir undirskriftasöfnuninni "Varið land". Vildi leggja mitt af mörkum til þess að staða flokksins yrði ekki of veik í því máli í komandi stjórnarsamstarfi. 

Mér finnst leitt að hafa ekki getað kosið frjálslyndan umbótasinnaðan miðjuflokk eins og Framsóknarflokkinn ætti að vera, nema einu sinni.  En völdin, sem kjötkatlar valdanna á grunni ranglátrar kjördæmaskipunar færðu flokknum, spilltu honum svo mjög að hann hefur aldrei borið þess bætur.

 

 

 

 


mbl.is Blönduð leið í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hógvær snillingur.

Helgi Tómasson er einn af bestu sonum Íslands eins og sést á sessi San Francisco-ballettsins í balletheiminum.

Ég hef áður orðað þá hugmynd að stytta af honum verði reist framan við Þjóðleikhúsið í ballettstellingum og styttur af Björk og Vigdísi á viðeigandi stöðum. 

Á sínum tíma var Helgi í fremstu röð ballettdansara heimsins. Eitt sinn er hann kom til heimalandsins, spurði fjölmiðlaamaður hann: "Hver er besti ballettdansari heims? Er það Nurejev?" 

Helgi svaraði hógværlega: "Það er ekki hægt að svara svona spurningu. Við erum fjórir." 


mbl.is Helgi risi í ballettheiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka þríhyrninginn á Rauðarárholti.

Það er mjög þarft mál að friða verkamannabústaðina við Hringbraut. Þetta eru stórmerkar og einstæðar byggingar í sögu þjóðarinnar.

En mér finnst þetta gott tilefni til að taka upp annað mál, friðun "þrýhyrnings" verkamannabústaða og annarra húsa á Rauðárárholti, sem segir byggingarsögu þjóðarinnar frá árunum eftir verkamannastaðina í Vesturbænum, á árunum 1940-1965. 

Á þessum árum, einkum árunum 1940-1950, urðu mestu breytingar á þjóðarhögum í sögu þjóðarinnar og á fáum ef nokkrum stöðum á landinu endurspegla íbúðabyggingar þetta betur en á Rauðarárholti. 

Á þríhyrningi, sem markaðist af Stórholti, Háteigsvegi og Einholti voru byggðir verkamannabústaðir, en utan við verkamannabústaðina, á norðurhlið Stórholts og suðurhlið Háteigsvegar eru hins vegar hús einkaframtaksins. 

Samhliða húsaröð einstaklingsframtaksins við Stórholt rísa síðan nýir verkamannabústaðir við Stangarholt strax eftir stríðið, sem eru áberandi stærri en verkamannabústaðirnir upp suðurhlið Stórholts og saman segja þessar húsaraðir á dásamlegan hátt frá kjörum þjóðarinnar á þessum árum. 

Húsin í þríhyrningnum eru þakin gráum skeljasandi, sem var höfuðeinkenni á húsum þessarar tíðar og sést til dæmis vel í Norðurmýri og einnig um allt land. 

Styrkja þarf þá sem þyrfti að endurnýja ytra byrði húsanna til að kljúfa viðbótarkostnað, sem felst í því að setja skeljasand utan á húsin.

Skipulag hverfisins er athyglisvert þar sem þvert í gegnum það voru litlar tengigötur og göngugata í gegnum leikvöll, sem var í miðju þess. 

Mér rennur blóðið til skyldunnar því ég ólst upp í Stórholtinu í aldeilis dæmalausu umhverfi í rúmlega 1000 manna þorpi sem stóð þá á holtinu með Klambratún á aðra hliðina en autt holtið á hinar hliðarnar og hermannabragga fyrir ofan og neðan. 

Saga fólksins í götunni er líka sérstök vegna mannlífsins sem þar var og kemur að hluta til fram í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, sem ólst upp í Stórholtinu.

 Er vafasamt að jafnmargt þjóðfrægt fólk hafi verið á ferli á jafn litlum bletti á sama tímabili.

Ef við töku litlu tengigötuna milli Meðalholts  og Stórholts sem miðju er allt þetta fólk í götunni á um það bil 200 metra kafla frá Einholti til Stórholts:

Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ í marga áratugi, Bjarni Böðvarsson og sonur hans Ragnar Bjarnason, Pétur Pétursson þulur og dóttir hans, Ragheiður Ásta Pétursdóttir, Kristján Kristjánsson og sonur hans Pétur Kristjánsson, Baldur Scheving knattpsyrnumaður í Fram,  - og síðan upp Stórholtið (set inn nokkra minnisverða karaktera í svigum) : Oddur sterki af Skaganum, Pétur Hannessson og dóttir hans Sólvegi Pétursdóttir, alþingismaður og forseti Alþingis, (kaupmaðurinn á horninu, Bernhard Arnaar og synir hans, Örn skurðlæknir og Björn), aðstoðarmaður kaupmannsins, Ámundi Ámundason, (Villi sleggja), Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari, Hafsteinn miðilll (Ingólfur Hólakot) Jónína Þorfinnsdóttir, kennari og formaður Hvatar og fleiri félaga, Jón R. Ragnarsson, rallkappi, "Snæra-Mangi" leigubílstjóri, Hilmar Karlsson, kvikmyndagagnrýnandi, (......"fulla", sögupersóna í Bíódögum sem "var í Kananum og sneri síðar við blaðinu og gerðist reglusöm og virðuleg frú) , Eyþór Gunnarsson, læknir, og sonur hans, Gunnar Eyþórsson fréttamaður, fyrri maður Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, hans sonur síðan Eyþór Gunnarsson, hljómlistarmaður, Helgi Kristjánsson, glímukappi, hans sonur Davíð Helgason, landsliðsmaður í körfubolta, Sigríður Hannesdóttir verkalýðsfrömuður, Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, Kristín Ólafsdóttir, söngkona og síðar borgarfulltrúi.

Læt hér staðar numið en vísa á rölt mitt og Sigurlaugar systur minnar með Lísu Pálsdóttur um hverfið nú um daginn í tveimur þáttum Lísu Páls. 


mbl.is Friða verkamannabústaðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðalög lúðrasveitarinnar.

Á fyrstu árum sjónvarpsins þurfti að hljóðsetja fréttamyndir, sem komu til landsins án hljóðs. Hljóðmenn voru orðnir svo snjallir í þessu að þeir gátugert ótrúlegustu hluti.

Einkum var Marínó heitinn Ólafsson snillingur í þessu. 

Í þættinum "Eyðibyggð" eru nokkur leikin atriði þar sem enginn maður sést þó.

Sagt er frá því þegar draugurinn Hafnar-Skotta réðist á bóndann að Höfn í Hornvík þar sem hann var að slá úti á túni og skar hann á háls með ljánum. 

Við Marínó settum þetta á svið á morðstaðnum þannig að aðeins sást skugginn af sláttumanninum og varð úr hjóðsett atriði í stíl hins fræga sturtuatriðis í Psycho Hitchcocks.

Tryllinglegan hlátur Hafnar-Skottu bjuggum við þannig til að Maríanna Friðjónsdóttir var klipin dálítið hressilega og hláturblandið vein hennar bjagað svolítið. 

Korrið í bóndanum skornum á háls var búið til úr hljóðum svína í svínabúi á Vatnsleysuströnd. 

Í einum kafla myndarinnar er gengið upp stiga í timburhúsi í Aðalvík og komið að auðu rúmi þar sem sagt er frá unglingi með slæman berklahósta sem þar gæti hafa legið á árum áður og endað þar líf sitt.

Berklahósti og hrygla unglingsins var þannig búin til að notuð var upptaka á hinum magnaða reykingarhósta Magnúsar Bjarnfreðssonar og hann gerður talsvert hraðari og hærri. 

Eitt sinn vantaði hljóð við leik Lúðrasveitar Siglufjarðar við upphaf Skíðalandsmótsins 1973. 

Marínó var ekki lengi að leysa það mál. 

Nokkrum vikum síðar átti Jón Múli Árnason leið upp í sjónvarp og hitti fyrir tilviljun okkur Marínó. Hann sagði við okkur: "Fyrir hreina tilviljun horfði ég á myndina ykkar frá fyrsta degi Skíðalandmótsins og verð að upplýsa ykkur um eitt: Ég er búinn að spila í Lúðrasveit verkalýðsins í marga áratugi en sú lúðrasveit hefur aldrei komið til Siglufjarðar." 


mbl.is Gleymdist að fjarlægja hnéð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband