Ferðalög lúðrasveitarinnar.

Á fyrstu árum sjónvarpsins þurfti að hljóðsetja fréttamyndir, sem komu til landsins án hljóðs. Hljóðmenn voru orðnir svo snjallir í þessu að þeir gátugert ótrúlegustu hluti.

Einkum var Marínó heitinn Ólafsson snillingur í þessu. 

Í þættinum "Eyðibyggð" eru nokkur leikin atriði þar sem enginn maður sést þó.

Sagt er frá því þegar draugurinn Hafnar-Skotta réðist á bóndann að Höfn í Hornvík þar sem hann var að slá úti á túni og skar hann á háls með ljánum. 

Við Marínó settum þetta á svið á morðstaðnum þannig að aðeins sást skugginn af sláttumanninum og varð úr hjóðsett atriði í stíl hins fræga sturtuatriðis í Psycho Hitchcocks.

Tryllinglegan hlátur Hafnar-Skottu bjuggum við þannig til að Maríanna Friðjónsdóttir var klipin dálítið hressilega og hláturblandið vein hennar bjagað svolítið. 

Korrið í bóndanum skornum á háls var búið til úr hljóðum svína í svínabúi á Vatnsleysuströnd. 

Í einum kafla myndarinnar er gengið upp stiga í timburhúsi í Aðalvík og komið að auðu rúmi þar sem sagt er frá unglingi með slæman berklahósta sem þar gæti hafa legið á árum áður og endað þar líf sitt.

Berklahósti og hrygla unglingsins var þannig búin til að notuð var upptaka á hinum magnaða reykingarhósta Magnúsar Bjarnfreðssonar og hann gerður talsvert hraðari og hærri. 

Eitt sinn vantaði hljóð við leik Lúðrasveitar Siglufjarðar við upphaf Skíðalandsmótsins 1973. 

Marínó var ekki lengi að leysa það mál. 

Nokkrum vikum síðar átti Jón Múli Árnason leið upp í sjónvarp og hitti fyrir tilviljun okkur Marínó. Hann sagði við okkur: "Fyrir hreina tilviljun horfði ég á myndina ykkar frá fyrsta degi Skíðalandmótsins og verð að upplýsa ykkur um eitt: Ég er búinn að spila í Lúðrasveit verkalýðsins í marga áratugi en sú lúðrasveit hefur aldrei komið til Siglufjarðar." 


mbl.is Gleymdist að fjarlægja hnéð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband