14.5.2011 | 20:23
Stór dagur fyrir Manchester.
Dagurinn í dag er stór dagur fyrir Manchester þegar bæði stórlið borgarinnar hampa stóru bikurunum í ensku knattspyrnunni. Ef ég fer rétt með eru það aðeins þrjár enskar borgir sem hafa unnið þá báða, Manchester, Liverpool og London.
London er að vísu varla sambærileg hvað aðstöðu snertir vegna þess hve margfalt stærri hún er en hinar borgirnar tvær.
Þess vegna er það sjaldgæft að tvö lið frá annarri borg en Londin hreppi báða bikarana.
Síðast unnu Liverpoolliðin þá báða 1985 þegar fyrirliðar Everton og Liverpool lyftu bikurunum eftirsóttu á loft.
Frétt af mbl.is
![]() |
Manchester City bikarmeistari 2011 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2011 | 13:08
Hver var í kjól frá hverjum?
Ég bloggaði í gærkvöldi um það risastökk í menningarmálum, sem Harpa er, lítið minna en Þjóðleikhúsið fyrir 61 ári. Hélt að aðalatriðið í umræðunni væri frábær opnunarhátíðin og einstakir liðir hennar.
Harpa er tónlistarhús en engu að síður virðist það aðalfrétt dagsins og kvöldsins í gær hver hafi verið í flottustu fötum hjá "elítunni" eins og hún er kölluð í frétt um þetta á mbl.is, þar sem vísað er í 22 ljósmyndir af herlegheitunum.
Þetta minnir mig á magnaða ræðu sem Bubbi Morthens hélt þegar menningarverðlaun DV voru afhent í eitt skiptið á níunda áratug síðustu aldar.
Bubbi fékk ein verðlaunanna og þegar hann tók við styttunni hélt hann tilfinningaþrunginn reiðilestur, enda uppreisnargjarn ungur maður.
"Sjá þetta lið, sem er hér saman komið!" hrópaði Bubbi. "Þegar maður lítur yfir salinn og fylgist með fólkinu er auðséð að menningin er algert aukaatriði! Það er aðallega fylgst af gaumgæfni með því hvernig liðið á næstu borðum er klætt, í hvernig kjólum konurnar eru, hve dýrir þeir séu og hvar keyptir. Að ekki sé nú talað um skartgripina! Hvað skyldi það hafa tekið langan tíma að kaupa þetta og máta það og búa sig upp fyrir fata- og snobbkeppnina sem hér ríkir?! Menningarverðlaun? Nei, fatasamkeppni! Hvílík hræsni!"
Ég minnist þess hve flatt þetta kom upp á gestina, sem sátu sem þrumu lostnir.
Sjálfur gat ég þó ekki annað en brosað í kampinn. Sá, sem flutti þessa mergjuðu ræðu var nefnilega hugsanlega sá í salnum, sem hafði eytt hvað mestum tíma í að velja, kaupa og máta allt "outfittið" sem hann var í til að geta talist alvöru pönkari, húðflúrið, hanakambinn, gleraugun, hringina og allt það sem tilheyrði ekta pönkarafötum.
![]() |
Þessir voru í Hörpunni í gærkvöldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)