Fór með hestinn upp á 2. hæð ?

Hér í gamla daga voru margir af helstu hestamönnum landsins jafnframt miklir gleðimenn og gerðu sér þá dagamun í mat og drykk.

Ein af þeim sögum sem ég heyrði ungur af einum þeirra var sú, að í teiti sem einn þeirra hélt í íbúð sinni á efri hæð hefði hann teymt einn af eftirlætis gæðingum sínum til að gera samkvæmið óviðjafnanlegt. 

Ég hef vissan skilning á þessu vegna þess að í ungæðishætti á menntaskólaárunum gerði ég það einu sinni í bríaríi að aka NSU-Prinz örbílnum mínum inn í KFUM-húsið við Antmannsstíg þar sem tveimur bekkjardeildum skólans var kennt. 

Til að komast aftur út bakkaði ég bílnum inn í fatahengi, en hrekkjalómar skelltu þá hurðinni að henni í lás svo ég var fastur inni. 

Ég sá að ef ég kæmist ekki strax út myndi uppátæki mitt geta orðið til þess að ég lenti í enn frekari vandræðum og yrði rekinn úr skólanum. 

Tók ég á það ráð að flauta hátt og snjallt og var heppinn, því að hávaðinn olli því að húsvörðurinn, ung kona, kom og opnaði dyrnar. 

Ég afsakaði veru mína í flýti, sagðist hafa lagt bílnum hjá hinum skóhlífunum og hefði orðið að selja frakkann minn til að eignast hann. 

Konan gapti svo af undrun að sá ofan í háls henni, og ég greip tækifærið og brunaði út. 

Hún kærði mig sem betur fer ekki og naut ég kannski þess að vera þá orðinn landsþekktur skemmtikraftur. 

En 40 árum síðar var ég að skemmta á fjölmennri skemmtun um verslunarmannahelgina í Vatnaskógi þegar roskin kona snaraðist upp á sviðið, stöðvaði atriðið hjá mér og sagði, að nú loksins fengi hún tækifæri til að borga fyrir óskundann, sem ég olli forðum. 

Var þar komin húsvarðarkonan góða frá árinu 1960 og náði sér þarna loks niðri á mér, í skemmtilegasta bróðerni þó. 

Ég hef aldrei fengið sannreynda að fullu söguna um hestinn sem fór upp stigann en ég trúi henni allt eins. 


mbl.is Mætti með hestinn á spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um brennisteinsmengunina? Ljúga áfram?

Svifryk er aðeins nokkra daga á ári yfir mörkum í Reykjavík.  Fyrir þremur árum kom í ljós að loftgæði í Reykjavík stóðust í 40 daga á ári ekki öll lágmörk sem gerð eru í Kaliforníu.

Síðan hafa útblástur og mengun aukist verulega á Hellisheiðarsvæðinu og í ráði að stórauka mengunina með virkjunum við Gráuhnúka og síðar Hverahlíð.

Því stefnir í það að mánuðum saman standist loftgæði á höfuðborgarsvæðinu ekki lágmörk Kaliforníuríkis sem er að stórum hluta mjög þéttbýlt land með stórborgirnar Los Angeles og San Fransisco. 

Heilbrigðiseftirlit leiðir nú líkur að því að brennisteinsvetni í lofti sé orðið það mikið nú þegar að það hafi heilsuspillandi áhrif, einkum á astmasjúklinga og gamalt fólk.

Auk þess eru rannsóknir Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýndar harðlega sem villandi og lélegar en það er svo sem ekkert nýtt, því að í mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjuna var talið að loftmengun myndi hafa sáralítil ef nokkur áhrifi á gróður við virkjunina. Annað kom þó í ljós.

Við segjum hverjum sem er, líka Kaliforníubúum sem hingað koma, að í Reykjavík sé hreinasta loft í nokkurri höfðuborg í heimi. Hve lengi ætlum við að halda áfram að ljúga þessu að öðrum þjóðum.

Við segjum líka öllum að orkuvinnslan sem komin er og áætluð er á svæðinu frá Nesjavöllum til Gráuhnúka í samræmi við sölusamninga við álver standist kröfur um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun. Samkvæmt þeim rannsóknum, sem nú liggja fyrir, mun þessi orka vart duga lengur en í 50 ár og svæðið þá verða kalt í allt að öld eftir það. 

Hvenær ætlum við að hætta að ljúga að okkur og öðrum í þessum efnum? 


mbl.is Svifryk verður yfir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband