Hvað um brennisteinsmengunina? Ljúga áfram?

Svifryk er aðeins nokkra daga á ári yfir mörkum í Reykjavík.  Fyrir þremur árum kom í ljós að loftgæði í Reykjavík stóðust í 40 daga á ári ekki öll lágmörk sem gerð eru í Kaliforníu.

Síðan hafa útblástur og mengun aukist verulega á Hellisheiðarsvæðinu og í ráði að stórauka mengunina með virkjunum við Gráuhnúka og síðar Hverahlíð.

Því stefnir í það að mánuðum saman standist loftgæði á höfuðborgarsvæðinu ekki lágmörk Kaliforníuríkis sem er að stórum hluta mjög þéttbýlt land með stórborgirnar Los Angeles og San Fransisco. 

Heilbrigðiseftirlit leiðir nú líkur að því að brennisteinsvetni í lofti sé orðið það mikið nú þegar að það hafi heilsuspillandi áhrif, einkum á astmasjúklinga og gamalt fólk.

Auk þess eru rannsóknir Orkuveitu Reykjavíkur gagnrýndar harðlega sem villandi og lélegar en það er svo sem ekkert nýtt, því að í mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjuna var talið að loftmengun myndi hafa sáralítil ef nokkur áhrifi á gróður við virkjunina. Annað kom þó í ljós.

Við segjum hverjum sem er, líka Kaliforníubúum sem hingað koma, að í Reykjavík sé hreinasta loft í nokkurri höfðuborg í heimi. Hve lengi ætlum við að halda áfram að ljúga þessu að öðrum þjóðum.

Við segjum líka öllum að orkuvinnslan sem komin er og áætluð er á svæðinu frá Nesjavöllum til Gráuhnúka í samræmi við sölusamninga við álver standist kröfur um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun. Samkvæmt þeim rannsóknum, sem nú liggja fyrir, mun þessi orka vart duga lengur en í 50 ár og svæðið þá verða kalt í allt að öld eftir það. 

Hvenær ætlum við að hætta að ljúga að okkur og öðrum í þessum efnum? 


mbl.is Svifryk verður yfir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Góður pistill. En hvað með geislamengun frá Fukushima, sem mælist nú um allt norðurhvel jarðar? Nýjustu upplýsingar sem Geislavarnir hafa birt ná til 13. apríl sl. og sýna að magn af manngerðu geislavirku joði (I-131) var suma daga meira en þúsundfalt það sem var fyrir kjarnorkuslysið. Ég hef sent áskorun til Geislavarna um að birta nýrri gögn svo hægt sé að átta sig á þróuninni frá 13.4. til dagsins í dag, og vona að stofnunin muni verða við þeirri góðfúslegu hvatningu.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2011 kl. 16:15

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í frétt í fyrri viku var frá því skýrt að geislamengun frá Fukushima væri langt langt fyrir neðan heilsuverndarmörk þótt hið sáralitla magn, sem áður hafði mælst hefði margfaldast.

En það væri ekkert verra að fá að vita nánar um þetta. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2011 kl. 22:59

3 identicon

Eftir sprengingar Frakka á Mururova á sjöunda áratugnum voru Íslensk matvæli þau geislavirkustu í Evrópu. Reyndar mjög lítið magn, en útskolunin hér er hæg.

Þetta breyttist svo 1986 þegar Chernobyl yfirtrompaði Evrópumenn og við fengum nánast ekkert í okkar hlut.

Fukushima er þess eðlis að það lendir sjálfsagt allsstaðar. 

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 10:19

4 identicon

Takk fyrir ádrepuna Ómar.

Það er þó tvennt sem ég hefði kosið að þú rökstyddir frekar:

"Því stefnir í það að mánuðum saman standist loftgæði á höfuðborgarsvæðinu ekki lágmörk Kaliforníuríkis" - Þetta held ég að sé ekki rétt.
"Samkvæmt þeim rannsóknum, sem nú liggja fyrir, mun þessi orka vart duga lengur en í 50 ár og svæðið þá verða kalt í allt að öld eftir það." - Þessar rannsóknir hef ég ekki séð og þigg ábendingar.
Því miður sýna loftgæðamælingar að svifryk yfir höfuðborginni er tugi daga á ári yfir mörkum. Sömu mælingar sýna að brennisteinsvetnið var engan dag yfir mörkum í fyrra.

Það er auðvitað einfaldara fyrir mig og fleiri að benda á aðra í staðinn fyrir að taka okkur sjálf á í umferðarmálunum.

Hér er síðan tengill á frummatsskýrsluna vegna Gráuhnúka og tengill á skýrslu um áhrif brennisteinsvetnis á mosann í grennd við Hellisheiðarvirkjun.

Kær kveðja,

Eiríkur.

Eiríkur Hjálmarsson (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband