21.5.2011 | 11:42
Ábyrgðarhluti.
Það er búið að spá svo oft heimsendi að enn ein heimsendaspáin ætti að hljóma eins og kallið í sögunni: "Úlfur! Úlfur! Samt er það mikill ábyrgðarhluti þegar einhver nær því að hrella þúsundir manna um allan heim með svona spá.
Því að það virðist sama hve augljós villa þetta er, alltaf mun finnast nógu margt trúgjarnt fólk sem lætur þetta hræða næstum úr sér líftóruna.
Predikarinn, sem kom þessu af stað, hefur hins vegar ekki aðeins uppskorið þetta umrót, heldur fær birtar af sér myndir í fjölmiðlum um allan heim. Er hugsanlegt að það sé undirrót þessa uppátækis?
Þetta minnir mig á SMS- og tölvupóstinn sem reglulega er sendur út til fjölda fólks með tilkynningu um það að viðkomandi hafi dottið í lukkupottinn og fengið risavinning og þurfi að gefa upp nokkrar upplýsingar um sig til þess að móttaka herlegheitin.
Því miður er það alltaf svo að það verða einhverjir sem láta blekkjast, og með því að vera nógu iðnir við kolann og senda nógu mörgum nógu oft svona skeyti geta þessir skúrkar féflett grandalaust fólk.
Nóg er ógnin af tilvist kjarnorkuvopnanna þótt ekki sé verið að bæta ofan á það með gersamlega fráleitum spádómum, því að með því er verið að bægja athyglinni frá því sem raunverulega þarf að takak á til þess að eiga öruggari tilvist á þessari jörð.
![]() |
Heimsendapartý haldin víða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2011 | 10:23
Kuldatregða Grænlandsjökuls.
Hvernig má það vera að á láglendi sé frost á Fróni þegar nálgast lok maí og yfir landið er komin birta allan sólarhringinn með sólarhæð yfir 40 gráður á hádegi ?
Megin sökudólgurinn er stærsti ísskjöldur norðurslóða, 1,7 milljón ferkílómetra freraflykkið Grænlandsjökull, sem enginn sólarylur vinnur og viðheldur háum loftþrýstingi sem að því leyti skilar sér hina stuttu vegalengd til Íslands, að hér á landi er hæsti meðal loftþrýstingur ársins í maí.
Þess utan er enn á þessum tíma enn hvítt yfir að líta á nyrstu slóðum Kanada þegar kuldapollur norðurskautsins er þar enn oft þaulsætinn á þessum tíma árs.
Ís felur í sér afar mikla tregðu hvað hitastig snertir. Þannig eru vötn og lón á hálendi Íslands oft ísi þakin vel fram í júní þegar allt umhverfið hefur verið autt vikum saman.
Grænlandsjökull geymir uppsafnaðan aldagamlan kulda og það mundi taka tímann sinn, jafnvel þótt lofthjúpur jarðar hitni verulega, að bræða þennan meira en þriggja kílómetra þykka ís.
Á sunnanverðu landinu nýtur fólk þess að ísköld norðanáttin færir yfirleitt þurrt loft ofan af hálendinu og allra syðst myndast svonefndur hjúkaþeyr við það að rakinn fer úr loftmassanum auk þess sem sólin fær tækifæri til að hita landið upp.
Meðan hinn voldugi nágranni okkar í vestri heldur velli megum við búast við því að vorin geti orðið köld þangað til útþensla hins heita lofts yfir Evrópu nær norður yfir Ísland og fær aðstoð frá hitnandi norðursléttum Kanada til að sækja að Grænlandi og Íslandi úr vestri.
![]() |
Áfram frost á fróni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)