Kuldatregða Grænlandsjökuls.

Hvernig má það vera að á láglendi sé frost á Fróni þegar nálgast lok maí og yfir landið er komin birta allan sólarhringinn með sólarhæð yfir 40 gráður á hádegi ? 

Megin sökudólgurinn er stærsti ísskjöldur norðurslóða, 1,7 milljón ferkílómetra freraflykkið Grænlandsjökull, sem enginn sólarylur vinnur og viðheldur háum loftþrýstingi sem að því leyti skilar sér hina stuttu vegalengd til Íslands, að hér á landi er hæsti meðal loftþrýstingur ársins í maí. 

Þess utan er enn á þessum tíma enn hvítt yfir að líta á nyrstu slóðum Kanada þegar kuldapollur norðurskautsins er þar enn oft þaulsætinn á þessum tíma árs.

Ís felur í sér afar mikla tregðu hvað hitastig snertir. Þannig eru vötn og lón á hálendi Íslands oft ísi þakin vel fram í júní þegar allt umhverfið hefur verið autt vikum saman.

Grænlandsjökull geymir uppsafnaðan aldagamlan kulda og það mundi taka tímann sinn, jafnvel þótt lofthjúpur jarðar hitni verulega, að bræða þennan meira en þriggja kílómetra þykka ís.

Á sunnanverðu landinu nýtur fólk þess að ísköld norðanáttin færir yfirleitt þurrt loft ofan af hálendinu og allra syðst myndast svonefndur hjúkaþeyr við það að rakinn fer úr loftmassanum auk þess sem sólin fær tækifæri til að hita landið upp.

Meðan hinn voldugi nágranni okkar í vestri heldur velli megum við búast við því að vorin geti orðið köld þangað til útþensla hins heita lofts yfir Evrópu nær norður yfir Ísland og fær aðstoð frá hitnandi norðursléttum Kanada til að sækja að Grænlandi og Íslandi úr vestri.  


mbl.is Áfram frost á fróni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má bæta við þetta aðeins.

Það er búið að vera vestanstætt nokkuð í vor, og það er alltaf eins og það færi kuldann nær okkur. Og svo einn og einn bangsa.

Svo er það alltaf spurningin upp á framtíðina hvað hafstraumarnir "gera" þegar norðurskautið verður sífellt ísminna. Þar er ákveðið "viðhald" sem er að hverfa, og getur husanlega ollið stórbreytingum á sjávarstraumum. T.d. það að Golfstraumurinn fari vestur og norður um og sleppi suðurströndinni.

Ef svo fer sem horfir, þá er íshetta norðurskautsins horfin að sumarlagi vel innan mannsaldurs, - jafnvel á 10-20 árum. En Grænlandsjökull á lengri tíma eftir.

Þá munu takast á ótrúleg náttúruöfl og þeim fylgja mögulegar veðrabreytingar, þar sem Jökullinn heldur loftmassakerfi sínu, en þarf að tuskast við mögulegar breytingar á straumakerfi hafsins og þær hitabreytingar sem því fylgja.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.5.2011 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband