9.5.2011 | 21:32
Til hamingju, vinur !
Samvinna okkar hefur verið afar mikilvæg og gefandi og af því að ég hef fylgst dálítið með gerð myndarinnar um hann, veit ég að hún verður frábær og færir honum endanlega þá viðurkenningu sem hann á skilið sem afburða listamaður, fjölmiðlamaður og einstakur hugsjónamaður.
"Síðustu dagar heimskautasvæðanna" er án efa ekki aðeins stórmerk mynd fyrir samtíð okkar um mann, sem hefur varpað einstöku ljósi á það mannlíf og dýralíf, sem nú er ógnað af mannavöldum á norðurslóðum.
Hún á eftir að verða enn mikilvægari og merkilegri eftir því sem viðfangsefni hennar verður stærra og dramatískara með hverjum áratug sem líður.
Flugið hefur verið vettvangur okkar og grasrótarflugið er okkur hugleikið, því það er undirstaða alls flugs og forsenda margs af því sem RAX hefur afrekað.
Læt kannski fylgja með eina eða tvær myndir af því. Til hamingju, vinur!
P. S. Fann myndir af túninu á Kvískerjum, þar sem hann var í sveit, og litla léttflugvélin hans er gul, til hægri á myndinni. Þarna var hann að fljúga til að taka myndir af Jökulsárlóni og fleiru og er á nærmynd að stilla litlu myndavélina ásamt Halldóri Kolbeins.
![]() |
RAX frumsýndur á BBC |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2011 | 16:58
Sumir jafnari en aðrir ?
Nú er komið í ljós að á ári óttans í Kaupþingi, skulfu allir þar á bæ á beinunum en voru látnir halda að með því að hreyfa ekki við hlutabréfum sínum væru þeir að sýna samstöðu til að berjast fyrir vinnustað sinn og í þessari samstöðu berðust einn fyrir alla og allir fyrir einn sem jafningjar.
En ennfremur hefur komið í ljós að sumir voru jafnari en aðrir og ef þeir voru nógu stórir var í góðu lagi að þeir neyttu allra bragða til að skara eld að eigin köku og gæfu skít í alla samstöðu.
Ætlun þeirra var greinilega að geta haldið sínu þótt aðrir yrðu að blæða.
![]() |
Ár óttans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2011 | 08:53
Risaeðlur bílanna.
Á árunum 1955-1970 var blómatími kraftakagganna, aflmikilla, stórra amerískra bíla. Fyrsti bíllinn, sem nota má þetta heii um, var Chrysler 300, en síðan tók hver við af öðrum allt fram yfir 1970, þegar mengunin frá hinum stóru bílvélum var orðin svo mikil, að taka varð í taumana.
Síðan kom olíukreppan fyrri 1973 og aftur enn verri olíukreppa 1979 og tími taumlausrar kraftakeppni var liðinni í bili.
Það er í góðu lagi þótt varðveittir séu nokkur hundruð svona bílar hér á landi. Þeim er aðeins ekið á hátíðarstundum og eyðsla þeirra eins og dropi í eyðsluhaf næstum 200 þúsund bíla, sem eru hér á landi.
Þeir voru eins og risaeðlurnar í sögu jarðarinnar, - áttu blómaskeið sem byggðist á utanaðkomandi aðstæðum og endaði vegna utanaðkomandi aðstæðna.
Í framtíðinni verða þeir enn magnaðra tákn en nú um skammsýnt bruðl þeirrar jarðarbúa, sem lifðu á hinni skammvinnu olíuöld en líka heillandi á sína vísu, alveg eins og það væri, ef haldin væri sýning á lifandi risaeðlum.
![]() |
Kraftalegir kaggar á rúntinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)