21.6.2011 | 11:56
Lokað þar, - opnað hér.
Fréttir um röskun á flugi, bæði hér heima og erlendis, hafa nú verið á sveimi í nokkrar vikur, nú síðast vegna eldfjallaösku í lofti yfir Ástralíu.
Þess vegna er kannski allt í lagi, svona til tilbreytingar, að segja frá því að í gær var farin sérstök skoðunarferð til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum til að kanna ástand vallarins.
Þeir Arngrímur Jóhannsson og Húnn Snædal flugu þangað á Piper Super Cub flugvél Arngríms, lentu á vellinum, könnuðu hann og gáfu þá umsögn að hann væri þurr, sléttur og harður og þar með opinn til umferðar fyrir allar flugvélar eftir að hafa verið lokaður í mestallan vetur vegna snjóa.
Þetta var viss áfangi í sögu þessa flugvallar, því að hinn 5. maí síðastliðinn kom út handbók flugmanna, AIP, þar sem flugvöllurinn var kominn á skrá með öðrum skráðum, vottuðum og viðurkenndum flugvöllum landsins ásamt starfsleyfi.
Langflestar flugvélar landsins eru aðeins tryggðar á flugvelli, sem eru skráðir og viðurkenndir af Isavia, og því var þessi lending sú fyrsta sem fram fer á vellinum eftir að hann náði þessum áfanga og bættist í hóp stærstu flugvalla landsins.
Ég ætla að henda inn þegar ég hef tíma, myndum, sem teknar voru í gær, en tvær efstu myndirnar voru teknar 6. júní í fyrra þegar völlurinn var orðinn fær og hann búinn að fá starfsleyfi, en skorti skráningu í handbók Isavia, AIP.
Reyndar kemur nú í ljós, að af tæknilegum ástæðum næ ég myndum úr ferð þeirra Arngríms og Húns ekki út úr umslagi sem þær eru í, merkt "34 great photos". Bæti því við einni eða tveimur loftmyndum og sé til á morgun.
Í AIP er völlurinn skilgreindur sem hálendisflugvöllur (660 m hæð) og því háð árstíðum hvort hann sé fær.
Nú hef ég sem ábyrgðarmaður vallarins tilkynnt svonefndri NOTAM-skrifstofu Isavia að völlurinn sé fær og verði það væntanlega allt til októberloka og þar með völlurinn opinn öllum flugvélum, allt upp í Fokker 50, en tvær af fjórum brautum vallarins eru nothæfar fyrir Fokker 50, önnur 1300 metra löng og hin 1000 metra löng.
Þetta er mikilvægt öryggisatriði því að völlurinn er sá eini á öllu hálendinu sem hægt er að nota fyrir þessar stóru flugvélar ef þörf krefur.
Síðan eru enn tvær brautir, 800 metra langar hvor þannig að ekki eiga að vera vandræði vegna hliðarvinds og því síður hindrana við lendingar og flugtök þarna.
Völlurinn er algerlega náttúrulegur og hefur ekki þurft að nota svo mikið sem skóflu eða malarspaða hans vegna.
![]() |
Röskun á flugi í Ástraliu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2011 | 11:06
Líkaminn er ekki skapaður fyrir farsíma.
Ýmsar rannsóknir hafa leitt það í ljós, sem raunar var fyrirséð, að það er oftast óhollt, sem nútímamaðurinn leggur á líkama sinn og ekki var hluti af áreitinu á dögum fyrri kynslóða, jafnvel árþúsund aftur í tímann.
Ég fæ ekki séð að heili okkar, taugakerfi og önnur líffæri hafi verið sköpuð til þess að þola geislun og bylgjur síma og rafeindatækja eða hafi haft þær aldir og árþúsund til að aðlaga sig að því.
Því miður mun líkleg óhollusta ekki koma strax fram. Það mun þýða að enda þótt elstu kynslóðirnar sleppi vegna þess að þær hafi ekki verið í þessu umhverfi lengi, er hættara við að yngsta fólkið, sem á eftir að leggja þetta á sig á langri ævi, muni verða fyrir barðinu á hugsanlegri óhollustu geisla- og bylgjuáhrifa.
Og þá verður of seint að snúa til baka hvað þetta fólk varðar.
![]() |
Farsímar ekkert hættulegir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2011 | 10:48
Óhjákvæmlegt.
Olíuframleiðsla heimsins hefur þegar náð hámarki og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær hrun hennar verður.
Meðan verð á eldsneyti var mun lægra hér á landi brugðust landsmenn við því með því að koma sér upp bílaflota sem er hinn eyðslufrekasti í Evrópu.
Dæmi um svona lagað má finna í nokkrum ríkjum utan Evrópu og eru Bandaríkin eitt besta dæmið um það.
Afleiðingarnar blasa við hvað þau varðar: Íbúar þeirra, sem eru 5% af mannfjölda jarðarinnar, nota 25% af orkunni.
Eldsneytisverð er álíka hátt hér á landi og í öðrum löndum Evrópu og það er að mínum dómi óskhyggja að vilja að farið sé niður fyrir einhver "þolmörk" sem urðu tll í óeðlilegu og óheppilegu ástandi, sem nú bitnar á okkur í formi bílaflota, sem er með allt of marga stóra að eyðslufreka bíla.
Enginn skattagning er gallalaus en skattlagning, sem kemur beint á eldsneytisverð, er sú skásta, því að henni fylgja minnstu skattsvikin og fæstu undankomuleiðirnar til að fara fram hjá skattlagningunni.
Hún kemst næst því að "sá greiðir sem notar".
Íslendingum er bráðnauðsynlegt að draga það ekki að búa sig undir olíukreppuna, sem við blasir á næstu áratugum og mun fara miklu lengra fram úr þeim "þolmörkum" sem nú er rætt um.
Fáar þjóðir eiga eins góða möguleika á því og Íslendingar að færa sig yfir í aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti.
Þess vegna sýnist mér það ekki af hinu góða að vera að sveigja orkunotkun okkar til baka yfir í það bruðl með eldsneyti sem lægra eldsneytisverð veldur.
Það mun bara tefja þá óhjákvæmlegu og nauðsynlegu þróun í orkunotkun, sem framundan er, fyrr eða síðar.
![]() |
Þolmörkum náð fyrir löngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2011 | 10:24
Mörg fyrri dæmi.
Til eru óteljandi "sérfræðingar" sem geta látið fólk rýrna eða grennast ótrúlega hratt og mikið. Hitt er annað mál hve hollar sumar aðferðirnar eru og hve vel þær duga til langframa.
Jón Páll Sigmarsson vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þegar hann, þetta mikla og stóra vöðvatröll, kom sem algerlega nýr maður til keppni á Íslandsmeistaramótinu í vaxtarrækt, þetta líka litla "skorinn" og glæsilega ræktaður.
Hann uppskar sigurlaun og heillaði alla upp úr skónum. Þessum árangri hefði hann aldrei getað náð ef í kröfum vaxtarræktarinnar hefði falist að sýna gildi hennar með æfingum, sem útheimtu kraft, snerpu og þol í þeim mæli sem Jón Páll hafði umfram aðra þegar hann keppti um titilinn "Sterkasti maður heims."
Eitt af þeim ráðum sem Jón notaði var vafalaust það að svelta sig og þurrka upp næstu dægur á undan keppninni með því að innbyrða sem minnst af vökva, en það dregur mátt úr fólki að gera slíkt í miklum mæli.
Nokkur dæmi má nefna um það að of hröð og ákveðin létting dragi mátt úr fólki.
Elsta dæmið er líklega þegar Jim J. Jeffries létti sig úr 135 kílóum niður í 105 kíló og galt fyrir það í "bardaga aldarinnar" 1910 á þann hátt að hann þraut úthald í 15 lotu bardaga.
Muhammad Ali kom til leiks til bardaga við Larry Holmes 1980 eftir að hafa létt sig um 15 kíló og uppskar aðdáunarklið þegar hann gekk inn í hringinn.
Þóttust áhorfendur ekki hafa séð hann í svona góðu formi í sex ár, því að marga bardaga háði hann árin á undan greinlega of þungur og ekki í sínu besta formi.
Í ljós kom í bardaganum 1980 að ráðgjafi Alis hafði gert honum mikinn grikk, gefið honum meðal sem olli vökvatapi og léttingu en að dró að sama skapi úr þreki og úthaldi.
Roy Jones var af mörgum talinn frábærasti hnefaleikari tíunda áratugarins í millivigt, milliþungavigt og síðast í léttþungavigt.
Hann freistaðist síðan til að þyngja sig upp í þungavigt og brilleraði í einum bardaga í henni og náði heimsmeistarabelti.
En þegar hann létti sig aftur niður í fyrri þyngd kom í ljós að hann hafði misst þann ofurhraða, sem áður hafði gert honum kleift að brjóta ýmsar varnarreglur og komast upp með það.
Þetta fyrirbæri er þekkt í keppnisíþróttum og getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar.
Fyrir venjulegt fólk í daglega lífinu er þetta kannski ekki eins áhrifaríkt og fyrir keppnisíþróttafólk.
En það gefur þó vísbendingu um það að óráðlegt sé að nota mjög grimmar aðferðir til að létta sig eða ná fram einhverjum eftirsóknarlegum líkamsvexti. Betra sé að fara sér hæfilega hægt en þó örugglega í sömu átt.
![]() |
Hvernig fór Beatrice að því að rýrna svona? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)