Mörg fyrri dæmi.

Til eru óteljandi "sérfræðingar" sem geta látið fólk rýrna eða grennast ótrúlega hratt og mikið.  Hitt er annað mál hve hollar sumar aðferðirnar eru og hve vel þær duga til langframa. 

Jón Páll Sigmarsson vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þegar hann, þetta mikla og stóra vöðvatröll, kom sem algerlega nýr maður til keppni á Íslandsmeistaramótinu í vaxtarrækt, þetta líka litla "skorinn" og glæsilega ræktaður.

Hann uppskar sigurlaun og heillaði alla upp úr skónum. Þessum árangri hefði hann aldrei getað náð ef í kröfum vaxtarræktarinnar hefði falist að sýna gildi hennar með æfingum, sem útheimtu kraft, snerpu og þol í þeim mæli sem Jón Páll hafði umfram aðra þegar hann keppti um titilinn "Sterkasti maður heims."

Eitt af þeim ráðum sem Jón notaði var vafalaust það að svelta sig og þurrka upp næstu dægur á undan keppninni með því að innbyrða sem minnst af vökva, en það dregur mátt úr fólki að gera slíkt í miklum mæli.

Nokkur dæmi má nefna um það að of hröð og ákveðin létting dragi mátt úr fólki.

Elsta dæmið er líklega þegar Jim J. Jeffries létti sig úr 135 kílóum niður í 105 kíló og galt fyrir það í "bardaga aldarinnar" 1910 á þann hátt að hann þraut úthald í 15 lotu bardaga.

Muhammad Ali kom til leiks til bardaga við Larry Holmes 1980 eftir að hafa létt sig um 15 kíló og uppskar aðdáunarklið þegar hann gekk inn í hringinn.

Þóttust áhorfendur ekki hafa séð hann í svona góðu formi í sex ár, því að marga bardaga háði hann árin á undan greinlega of þungur og ekki í sínu besta formi.

Í ljós kom í bardaganum 1980 að ráðgjafi Alis hafði gert honum mikinn grikk, gefið honum meðal sem olli vökvatapi og léttingu en að dró að sama skapi úr þreki og úthaldi.

Roy Jones var af mörgum talinn frábærasti hnefaleikari tíunda áratugarins í millivigt, milliþungavigt og síðast í léttþungavigt.

Hann freistaðist síðan til að þyngja sig upp í þungavigt og brilleraði í einum bardaga í henni og náði heimsmeistarabelti.

En þegar hann létti sig aftur niður í fyrri þyngd kom í ljós að hann hafði misst þann ofurhraða, sem áður hafði gert honum kleift að brjóta ýmsar varnarreglur og komast upp með það. 

Þetta fyrirbæri er þekkt í keppnisíþróttum og getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. 

Fyrir venjulegt fólk í daglega lífinu er þetta kannski ekki eins áhrifaríkt og fyrir keppnisíþróttafólk. 

En það gefur þó vísbendingu um það að óráðlegt sé að nota mjög grimmar aðferðir til að létta sig eða ná fram einhverjum eftirsóknarlegum líkamsvexti.  Betra sé að fara sér hæfilega hægt en þó örugglega í sömu átt. 


mbl.is Hvernig fór Beatrice að því að rýrna svona?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband