Annað Öskubuskuævintýri, hið fyrra var KA.

Í kringum miðjan sjöunda áratuginn var lið ÍBA besta liðið á Íslandi. En það vorar yfirleitt talsvert síðar á Norðurlandi en fyrir sunnan og því töpuðu Akureyringar yfirleitt í upphafi mótsins og urðu því aldrei Íslandsmeistarar. 

Enginn átti von á því að KA eða Þór gætu hampað bikarnum úr því að sameinað lið gat það ekki.

En síðan kom Guðjón Þórðarson til skjalanna og sannaði það, að stundum dugar ekki venjuleg samlagning til að finna út hve gott lið eða hópur er.

Stundum verður útkoman stærri en samtala einstaklingsgetu hvers og eins og KA varð Íslandsmeistari. 

Góð dæmi eru bestu kvartettar Íslands, svo sem MA-kvartettinn, þar sem gæðin urðu samtals meiri en nam samtölu getu einstaklinganna.

Á hinn bóginn var Einsöngvarakvartettinn skipaður fjórum af bestu einsöngvurum landsins og hefði því átt að verða langbesti kvartett Íslandssögunnar en varð það því miður ekki, því að það var svo augljóst að það voru fjórir einsöngvarar að syngja í einu en ekki mjúk og samstæð heild. 

Á sínum tíma komu knattspyrnumennirnir í Víði í Garði á óvart og nú eru það knattspyrnumenn úr aðeins 970 manna vestfirsku samfélagi sem er yst á jaðri byggðar á norðvesturhorni landsins.

Þetta er sannkallað Öskubuskuævintýri og ástæða til að óska þjálfara, leikmönnum og Bolvíkingum til hamingju með hinn ótrúlega sigur. 


mbl.is Erum frekar hátt uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót í íslenskum íþróttum.

Svo undarlega sem það hljómar hefur lengi verið það ástand íþróttamála á landi, sem kennt er við ís, að íshokkí hefur varla verið til, hvað þá að það hafi notið neinnar viðlíka hylli og það hefur notið beggja vegna Atlantshafsins. 

Sömuleiðis var það þannig lengi vel hér á landi, að flestum þótti það eðlilegt ástand að íslenskt fimleikafólk væri eftirbátar erlends fimleikafólks. 

Nú hafa orðið tímamót í báðum íþróttagreinunum. 

Hin fyrri voru fólgin í meistaratitli stúlknaflokks Gerplu sem setti þær á stall með þeim allra bestu í Evrópu. 

Síðari tímamótin felast í því að stefnt geti í það að fyrsti íslenski íshokkímaðurinn verði atvinnumaður erlendis.

Þetta er afar mikilvægt því að nokkrir fordómar hafa lengi ríkt varðandi íshokkí, líkt og Formúla eitt var lengi vel ekki talin vera sjónvarpsefni fyrir Íslendinga þótt hún væri með allra vinsælasta íþróttaefni í erlendu sjónvarpi.

Báðar greinarnar njóta sín að vísu best fyrir áhorfendur á staðnum, en sjónvarp frá íshokkí með góðum útskýringum á mikla möguleika rétt eins og Formúlan. 


mbl.is Ingólfur er eftirsóttur erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin heillandi náttúra landsins.

Náttúra Íslands hefur um aldir verið helsti ógnvaldur þjóðarinnar og enn eimir eftir af því hugarfari að það sé af hinu vonda. 

Þjóðin verður með reglulegu millibili fyrir búsifjum af völdum náttúruaflanna en gagnstætt því sem áður var þegar áhrif náttúrunnar voru öll neikvæð, er það þvert á móti aðdráttarafl bæði fyrir Íslendinga og ekki síður útlendinga hve stórbrotin sköpunin er sem íslensk náttúra býður okkur upp á.

Í fyrra fór ég með fjölmörgum erlendum fjölmiðlamönnum yfir Eyjafjallajökul og í sérstaka ferð niður eftir Gígjökli og þegar komið var í lok "rússíbanaferðarinnar" niður að rótum jökulsins, var það punkturinn yfir i-ið að benda á það, hvernig aurframburðurinn af völdum bráðnandi jökulsins hafði fyllt upp djúpt lón, sem áður var við jökulsporðinn.

Nú stefnir í að það verði jafn áhugavert að benda á það hvernig lónið er byrjað að myndast á ný og að sagan endalausa um hinn stórbrotna og einstæða sköpunarmátt íslenskrar náttúru hefur fengið viðbót og framhald.

Og það, að fyrirbærið sé hættulegt, eykur á virði þess sem fólgið er í töfrum og hrikaleik þess lands, sem í ógnvekjandi fegurð snertir við frumþáttum mannlífsins, sem er einfaldlega að "lifa af", og túlkað er í enska orðinu "survival".

Þetta séreinkenni íslenskrar náttúru er eitt af því sem lokkar hingað útlent ferðafólk öðru fremur.

Þess vegna má finna út úr hættunni sem Gigjökull hefur nú afhjúpað, aðdráttarafl þar sem hið jákvæða er margfalt dýrmætara en hið neikvæða.  


mbl.is Varað við nýju lóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband