Það síðasta sem við þurftum.

Eyjafjallajökulsgosið í fyrra og Grímsvatnagosið um daginn röskuðu talsverðu á meðan þau stóðu en á móti kom að til lengri tíma litið auglýstu þeir Ísland rækilegar en nokkuð annað, sem hægt er að nefna í því sambandi. 

Sú var tíð hér á árum áður að verkföll á Íslandi voru tíðari en í flestum öðrum löndum og vinnudeilur ollu gríðarlegu tjóni. 

Sem betur fer skánaði þetta en hvarf þó ekki með öllu.

Efnahagshrunið og hrun krónunnar ollu ómældu tjóni en á móti kom að ferðaþjónustan fékk mun betra rekstrarumhverfi en áður og var í raun eina bjargráðið og sóknarfæri okkar. 

Það er því þyngra en tárum taki að einmitt í upphafi aðal ferðamannatímans á lang mikilvægasta tímabilinu skuli vinnudeilur ógna þessu eina sem við áttum þó til að reiða okkur á.

Þetta var það síðasta sem við þurftum. 


mbl.is „Hurðinni skellt á okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegur karakter í "barna"ævintýrum.

Hvernig dettur mér í hug að nefna barnaævintýri þegar ég minnist Peters Falk og Colombos í sakamálaþáttunum frægu? 

Jú, vegna þess að ákveðin atriði í þessum framhaldsþáttur hlíttu lögumálum barnaævintýranna, þar sem efsta krafan er: Segðu mér söguna aftur!

Í hverjum Colomboþætti gerðist sama atvikið aftur og aftur, þátt eftir þátt, og maður varð aldrei leiður á þeim, heldur hefði það verið alger eyðilegging á þeim að sleppa þessum atriðum.

Þau fólust í því að þegar Colombo var búinn að ónáða skúrkinn, sem yfirleitt var stórgáfaður og snjall, og kvaddi hann, og skúrkurinn andaði léttara, bankaði Colombo aftur að dyrum og átti þá eitthvað afar smátt erindi, sem oft tengdist þó beint eða óbeint glæpnum.

Fleiri atriði í þáttunum voru eins ómissandi og síendurtekin stef í barnaævintýrum, gamla Peugeot druslan og skítugi, snjáði rykfrakkinn.

Aðal uppstillingin í þessum frábæru þáttum fólst í þekktu atriði varðandi sakamál, sem er það, að oft er auðveldara að fella afburða gáfaðan glæpamann eða flækja hann í eigin neti heldur en ef hann væri treggáfaður.

Ástæðan er sú að hinn stórsnjalli reynir ávallt að láta allt dæmið ganga 100% upp og ef minnsta ósamræmi finnst, verður það höfuðatriði að reyna að leiðrétta það.

Þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Shutz sem kom hingað til að rannsaka Geirfinnsmálið var beðinn um að líta á óupplýst morð Gunnars Tryggvasonar leigbílstjóra frá því fyrir nokkrum árum þar sem allt var fyrir hendi sem vantaði í Geirfinnsmálinu:  Lík, morðvopn sem fannst í fórum hins grunaða og hugsanleg  ástæða fyrir morðinu. 

En Shutz sagði eftir að hafa skoðað yfirheyrslur og skýrslur um málið: "Þennan sakborning get ég ekki fellt. Hann er of heimskur til þess að það sé hægt að flækja hann í eigin neti heldur stendur fastur á ákveðnum atriðum sem hann fattar ekki hvers eðlis eru.  

Við þekkjum dæmi um gildi endurtekninganna úr mörgum öðrum framhaldsþáttum, til dæmis slagsmálaatriði Catos og Peters Sellers í hverjum þætti um lögreglufulltrúann klaufska, og ákveðin atriði sem voru stef í öllum myndunum um James Bond.

Þegar þau hófust vissum við fyrirfram um það hvernig þau yrðu, en samt urðum við að sjá þau aftur og aftur.

Þessi atriði eru dæmi um þau barnaævintýri fyrir fullorðna sem ekkert getur drepið.  


mbl.is Peter Falk látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband