15.7.2011 | 21:28
Blóm í hnappagat Vegagerðarinnar.
Öll spjót stóðu á Vegagerðinni þegar brúin yfir Múlakvísl sópaðist í burtu og allt ætlaði vitlaust að verða þegar því var lýst yfir að minnst 2-3 vikur tæki að koma á vegasambandi að nýju.
Enn frekar jókst svartsýnin þegar með fylgdi að nú væri sumarleyfistíminn og erfitt að smala saman mannskap.
Nú hefur komið í ljós að betra var að fara varlega í að gefa áhættusöm bjartsýnissvör en láta heldur verkin tala.
Og það hefur svo sannarlega verið gert.
Opnun brúarinnar fyrir umferð á morgun er rós í hnappagatið fyrir Vegagerðina.
Það er ekki á hverjum degi sem reist er brú, sem er tvöfalt lengri en Ölfusárbrú á aðeins einni viku, jafnvel þótt um bráðabirgðabrú sé að ræða.
Vegagerðin, bravó! Bravó! Bravissimó!
![]() |
Opnað fyrir umferð á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2011 | 21:16
Kóngur vill sigla, en...
"Kóngur vill sigla en byr verður að ráða." Einhvern veginn svona hljóðar gamalt máltæki og það á við um Landeyjahöfn að vetri til.
Og þá er bara að taka því. Höfnin gerir geysilegt gagn að sumarlagi þegar umferð fólks á Suðurlandi er margfalt meiri en að vetrarlagi og fari svo að hún nýtist aðeins á þeim árstíma tel ég að það sé þó nægilega mikið framfaraspor í samgöngum til þess að hægt sé að réttlæta gerð hafnarinnar.
Að þessu leyti samsvarar hún þá fjallvegum fyrri tíma og nokkrum fjallvegum nútímans eins og Hrafnseyrarheiði, Hellisheiði eystri og Öxi.
Varla mun nokkrum manni detta í hug að þessir vegir séu, þrátt fyrir þennan mikla annmarka, réttlætanlegir.
Veðurlag, sjólag, straumar og sandflutningar eru gerólíkir yfir háveturinn eða um hásumar.
Mig hefur allan tímann grunað að menn hafi vanmetið sandburðinn, straumana og öldurótið að vetrarlagi, og að ekki verði mikið lengur hægt að kenna gosinu í Eyjafjallajökli um það að höfninni sé ekki hægt að halda opinni að vetrarlagi.
Við Vík í Mýrdal og við ár um allt land eru reistir grjótgarðar til að safna að sér sandi til að byggja upp strönd eða bakka og garðarnir, sem standa út frá Landeyjahöfn sýnast líklegir til að gera það sama í langvarandi og hörðum austan og suðaustanáttum eða vestan- og suðvestanátt..
![]() |
Hættuleg höfn að vetri til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.7.2011 | 17:07
Umferðarfréttirnar farnar að þyngjast.
Skyldu vera mörg lönd þar sem það eru helstu fréttirnar fyrir hverja sumarhelgi að "umferð sé farin að þyngjast"?
Á útlendu máli er frétt nefnd "news" eða "nyheder." Það þýðir að frétt sé eitthvað sem sé mjög óvenjulegt.
Það getur ekki verið neitt nýtt við það að "umferð sé farina að þyngjast" þegar líður á föstudag um hásumarið.
Umferð þyngist alltaf við þessi skilyrði og það væri frekar frétt ef umferð væri ekki farin að þyngjast þegar helgin hefst.
En þetta helst í hendur við hið árvissa kapphlaup fjölmiðla við að segja frá svona löguðu og nær hámarki um verslunarmannahelgina þegar beinar útsendingar og næstum því bílatalningar eru á leiðum út úr höfuðborginni til að fjalla sem best um það sem gerist fyrirsjáanlega á hverju ári, að í lok föstudags fyrir verslunarmannahelgina sé "umferð farin að þyngjast."
Dag hvern dynja yfir þjóðina "fréttir" af samkomum hér og samkomum þar enda beint og óbeint auglýsingaflóð yfirþyrmandi, og í gangi er nokkurs konar Íslandsmeistarakeppni ífjölmiðla í því að fylgjast með fólksfjölda hér og þar, fylliríi hér og þar og allt að því kapphlaup um fréttir af fíkniefnabrotum, óhöppum, erli lögreglu og fjölda nauðgana.
Áratugum saman tók ég af áhuga þátt í þessu fréttakapphlaupi en hin síðari ár sækja á mig spurningar um það hvort það séu svona miklar fréttir að umferð sé farin að þyngjast eða minnka.
![]() |
Umferð farin að þyngjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2011 | 16:52
Margföldunaráhrif röskunar.
Tölur sem birtar eru um áreiðanleika áætlana flugfélaganna byggja á meðaltölum. Inni í þeim leynast afar óheppileg atvik sem raska áætlunum flugfarþega jafnvel um marga daga.
Dæmi um þetta er að Iðunn dóttir mín og Friðrik Sigurðsson maður hennar voru búin að panta far með flugvél Flugfélags Íslands til London og síðan þaðan með annarri flugvél til Madridar.
Fjögur barnabörn mín voru með þeim í för.
En ferðaáætlunni var rústað með hvorki meira né minna en sólarhrings seinkum á fluginu frá Keflavík.
Þau þurftu því að leita sér að gistingu fyrir þau öll, ekki aðeins þessa einu aukanótt, heldur líka aðra, því að þau þurftu að bíða dag í viðbót eftir því að fá far með flugvél til Madridar, af því ekki var pláss daginn eftir að þau komu til Lundúna.
Þessi kostnaður var alger viðbót, því að í Madrid höfðu þau samið við spánska fjölskyldu um að vera í íbúð þeirra þar gegn því að íbúð Iðunnar og Friðriks yrði til reiðu fyrir spænsku fjölskylduna á sama tíma hér heima.
Fyrir sex manna fjölskyldu munar um svona mikinn aukakostnað sem mér skilst að flugfélagið bæti ekki.
Nú virðist vera að hefjast aftur yfirvinnubann í vinnudeilu flugmanna og varla fækkar það svona vandræða uppákomum eða gerir þær léttbærari.
![]() |
Þriðjungur vélanna á áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)