Hve lengi sleppum við?

Það er ekki á almanna vitorði, að ég held, að vegna fjarlægðar Íslands frá öðrum löndum og afar ákveðinna viðbragða íslenskra sóttvarnarlækna, höfum við hingað til nær alveg sloppið við svonefndar MOSA smit, sem fara hraðvaxandi í öðrum löndum.

Þessi smit, sem hafa tífaldast í Danmörku, hafa ekki numið land hér, þótt vitað sé um einstaka tilfelli.

Til dæmis fékk dótturdótir mín svona smit og var umsvifalaust sett í sóttkví heima hjá sér en ekki á sjúkrahúsi, því að mikið er lagt upp úr því að koma í veg fyrir að þessir sýklar sleppi og leiki lausum hala á sjúkarhúsum.

Aukið ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum tengist öðru heilbrigðisvandamáli, fíkniefnaneyslu.

Enginn hópur þjóðfélagsþegnanna veldur jafn miklu tjóni á þessu sviði vegna þess að það er helst þegar fíkniefnaneytendur fá sýklalyf, sem misbrestur verður á því að taka þau samfellt þann tíma sem læknar fyrirskipa.

Í vímunni vill þetta gleymast og við þessar aðstæður drepast sýklarnir ekki, heldur lifa af og ávinna sér ónæmi gegn sýklalyfjunum.

Önnur stór ástæða er tilhneiging margra til að taka sýklalyf í tíma og ótíma, en þessi ofnotkun hefur líka hraðað styrkingu sýklanna.

Sýklarnir efla mátt sinn að þessu leyti hraðar en læknavísindin, sem reyna að elta þá, en verða fyrir bragðið að hanna æ sterkari lyf, sem reyna mun meira á sjúklinginn sjálfan en gömlu lyfin.

Æ oftar gerist það að líffæri sjúklingsins sjálf þola ekki lyfin og get ég þar talað af reynslu. Þegar ég fékk sýkingu á leið til Bandaríkjanna, sem óx afar hratt, átti ég um tvo kosti að velja: Að leggjast inn á sjúkrahús þar og taka áhættuna af því að verða þar innlyksa vikum saman með tilheyrandi kostnaði, því að ef um MÓSA smit var að ræða var ekki um það að ræða að koma aftur heim fyrr en sýkingunni væri að fullu eytt.

Ég ákvað að taka áhættuna af því að fara undir hnífinn hér heima og tapa tveimur dögum fyrir bragðið þar sem sýkingin gat grasserað á fullu.

Ekki reyndist um MÓSA smit að ræða en þó afar illvíga sýkla sem aðeins sterkasta sýklyf dugði við.

Læknirinn sem skar mig var hreinn snillingur en ef ég hefði verið skorinn í Bandaríkjunum hefði sýkingin verið mun minni og viðráðanlegri og á þorrablótinu, sem ég var að skemmta á, var einn gesta Örn Arnar læknir, sem hefði vafalaust fengið handa mér topp lækni.

Hugsanlega gerði ég mistök þarna miðað við það sem á eftir fór en þetta dæmi sýndi mér hve vandasöm glíman við skæðar sýkingar er orðin.

Vonandi verður sú staðreynd að Ísland er eyja langt norður í höfum til þess að auðvelda okkur að halda þessari vá frá okkur.


mbl.is MÓSA smitum fjölgar í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarfangelsi með múra á hafi úti.

Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sþ bar upp þá tillögu að samtökin samþykktu stofnum Ísraelsríkis.

Íslendingar eru því guðfeður þess ríkis.

En hvorki hann eða aðrir þálifandi Íslendingar hefðu getað látið sér detta í hug að 63 árum síðar héldu Ísraelsmenn Palestínumönnum í þjóðarfangelsi, brytu gegn samþykktum Sþ og að fangelsið næði út á alþjóðlegt hafsvæði.

Ísraelsmenn kvarta yfir því að guðfeðurnir séu ekki ánægðir með þetta og gefa í skyn að þeir líti á okkur sem óvini Ísraelsmanna af því að við sýnum Palestínumönnum ekki fjandskap, heldur teljum að þeir eigi sama rétt og Ísraelsmenn höfðu 1948 til þess að stofna sitt eigið ríki.

Það er afar dapurlegt hvernig þessum málum er komið en Ísraelsmenn ættu að líta sér nær til að finna það sem er að fyrir botni Miðjarðarhafsins.


mbl.is Fékk ekki að fara til Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cadillac desert.

Einhver áhrifamesta bók um umhverfismál sem ég hef lesið er bókin "Cadillac desert" eftir Marc Reisner.

Hún fjallar um inngrip manna í náttúrufar í suðvesturríkjum Bandaríkjanna og opnaði fyrir mér nýjan heim í þessum málum.

Einkum var það sagan af Glen Canyon virkjuninni og baráttuna um hana sem sýndi glögglega að við Íslendingar erum því miður 40 árum á eftir Bandaríkjamönnum í umhverfismálum af þessu tagi, bæði hvað varðar umræðu alla og framkvæmdir.

Í einum af ritdómunum um bókina á sínum tíma var sagt að hún ætti að vera skyldulesning.

Atburðarásin varðandi Eyjabakka og Kárahnjúka hér heima var endurtekning á því sem gerðist varðandi Echo Park og Glen Canyon í Bandaríkjunum.

Athyglisvert er að nöfnin Echo park og Eyjabakkar byrja bæði á stafnum E.

Á sínum tíma barðist bandarískt umhverfisfólk harðar fyrir því að bjarga Echo park af því það þekkti þann stað vel en vissi lítið um Glen Canyon.

Því tókst að bjarga Echo park og gáfu Glen Canyoon eftir en þegar menn uppgötvuðu betur gildi Glen Canyon við upphaf framkvæmda þar kom í ljós að gerð höfðu verið arfamistök, - ef um eftirgjöf var að ræða hefði frekar átt að setja Glen Canyon í forgang.  

Þetta fékk svo mjög á David Brower, forystumann náttúruverndarfólks, að á tímabili vöktuðu vinir hans hann vegna þess að hann íhugaði sjálfsmorð.

Hér heima gerðist hliðstæða. Fólk þekkti Eyjabakka betur en Hjalladal og eðli Kárahnjúkavirkjunar, og eftir að náttúruverndarsamtök voru örmagna að lokinni baráttunni um Eyjabakka, var gengið á lagið og ekki aðeins virkjuð Jökulsá á Dal heldur líka Jökulsá í Fljótsdal með tilheyrandi stíflum og lónum austan Snæfells.

Virkjanamenn fengu í lokin jafnvel meira miðlunarvatn en þeir hefðu fengið ef þeir hefðu virkjað fyrst með því að sökkva Eyjabökkum og síðar með því sökkva Hjalladal í samræmi við fyrstu áætlanir þar um.

Nú er hliðstætt í pípunum. Í bili var fallið frá því að virkja Jökulsá á Fjöllum en nú er sótt ákaft eftir því að taka hana með í framkvæmd hinnar gömlu LSD-áætlunar um virkjun allra jökulfljótanna á norðausturhálendinu eftir endurbættri formúlu.

Í Bandaríkjunum átti að fylgja Glen Canyon eftir með því að virkja Coloradoána neðar á tveimur stöðum með virkjunum, sem voru meira en ígildi Kárahnjúkavirkjunar.

Byrjað var á borunum og framkvæmdum en þær stöðvaðar og slegnar af í eitt skipti fyrir öll, þótt sagt væri að þær hefðu lítil umhverfisáhrif.

Hér heima virðist hins vegar brautin greið og í fullri alvöru stefnt að því að stýfa Dettifoss undir því yfirvarpi að aðeins sé tekinn helmingurinn af vatnsafli hans en samt því haldið að útlendingum að fossinn sé sá aflmesti í Evrópu.


mbl.is Sandbylur huldi Phoenix á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lá strax ljóst fyrir.

Þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst og flug var lamað í stórum hluta Evrópu benti ég á það í pistlum mínum að nú væri Ísland í fyrsta skipti orðið heimþekkt í alvöru og að í því landi væri frægasta eldfjall heims.

Þetta yrði ómetanlegt aðdráttarafl til að laða vaxandi fjölda ferðamanna til landsins. Sú hefur orðið raunin.


mbl.is Góð áhrif á ferðaþjónustuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband