30.7.2011 | 23:18
Þarf ekki lyf til.
Marga skrautlega ökumenn hef ég séð á rúmlega þúsund kílómetra akstri í gær og í dag. Þegar "lestarstjóri" á annars prýðilegum bíl heldur langri röð á eftir sér á 65-70 kílómetra hraða er ég oft að pæla í því hvernig á svona ökulagi standi.
Á einum stað í dag stór kyrrstæður bíll á ská á plani við vegbrún hjá T-gatnamótum þegar ég kom niður að þeim.
Aflíðandi beygja var inn á veginn en enda þótt svo virtist sem ekkert fararsnið væri á ökumanni bílsins sem stóð kyrr í stefnu inn á veginn var ég við öllu búinn.
Þegar ég var alveg að koma að honum rykkti hann bílnum skyndilega inn á veginn þvert í veg fyrir mig og beygði um leið í sömu átt og ég ætlaði.
Engin viðvörun, ekkert stefnuljós.
Ég svipti mínum bíl til og tókst með naumindum að komast fram hjá honum aftan við hann.
Stundum virðist sem sumir ökumenn séu að deyja úr ótta eða hræðslu.
Þeir þora ekki inn á gatnamót eða í hringtorg þótt enginn sé í vegi þeirra á þeirra akrein, hægja ferðina niður í 45 kílómetra hraða niður neðstu beygjuna í Kömbunum í logni, og þurru, heiðskíru veðri.
Erfitt er oft að giska á hvað veldur, lyfjaneysla, ölvun, ellihrumleiki, sofandaháttur eða vanmetakennd vegna getuleysis við stjórn bílsins.
Það þarf ekki nema nokkra ökumenn til þess að valda miklum vandræðum.
![]() |
Undir áhrifum fjölda lyfja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2011 | 10:29
Óbyggðirnar kalla.
Ég man eftir þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir tæpri hálfri öld þegar hún og Sjómannadagurinn voru fyrst og fremst hátíð Vestmannaeyinga.
Nú er hún orðin að einhvers konar Hróarskelduhátíð og fyrir flesta gesti drukknar menning Eyjamanna og fréttir af hátíðinni í því sem er svo áberandi, fyllerí og fréttnæmar árásir og jafnvel nauðganir.
Broslegt var að heyra í gær þegar mótshaldarar þar og á nokkrum öðrum stöðum töluðu um "nokkra dropa" þegar raunveruleikinn var mikil rigning.
Við hjónin fórum seint í gær eftir að búið var að afhenda nýja stjórnarskrá og ókum rakleiðis að Aðalbóli í Hrafnkelsdal, sem er, ásamt Möðrudal, næsti bær við óbyggðirnar á norðausturhálendinu.
Síðan förum við inn á Brúaröræfi allt inn undir Brúarjökul og dyttum að Sauðárflugvelli, en ég skilgreini mig sem eins konar flugvallarbónda þar inn frá með næsta nágranna í Grágæsadal, Völund Jóhannesson.
"Óbyggðirnar kalla og ég verð að hlýða þeim". Ljóðlínur og lag Magnúsar Eiríksonar svífa hér yfir vötnum.
![]() |
Bálið brennur í Herjólfsdal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2011 | 10:20
Hamfarir geta skapað tekjur.
Fyrstu viðbrögð okkar allra þegar náttúruhamfarir dynja yfir og valda miklu tjón og erfiðleikum fyrir fjölda fólks er að hugur okkar er hjá þeim, sem eiga um sárt að binda og að skylda okkar sé að veita þeim alla þá hjálp og samúð sem okkur er unnt.
En síðan er bráðnauðsynlegt að reyna að sjá sólarglætuna á bak við hin dimmu ský og átta okkur á þeim möguleikum, sem hamfarirnar færa okkur þrátt fyrir allt.
Fyrir rúmu ári kom það fram á bloggpistlunum mínum að þegar upp yrði staðið mynd hamfarirnar skila þjóðinni tekjuauka og það hefur komið á daginn.
Fyrir austan Skeiðarárbrú er afar mögnuð uppsetning á brúarbitum og öðrum leifum brúnna, sem flóðið mikla 1996 eyðilagði. Þetta dregur að ferðamenn.
Nú hefur gamla brúin yfir Múlakvísl bæst við. Þetta sýnir að vinna má úr áföllum þannig að allt fari vel að lokum.
![]() |
Gamla brúin áningarstaður ferðamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)