9.7.2011 | 19:28
Tvær skyssur í vegagerð varðandi Kötlu?
Flóðið í Múlakvísl fór létt með að þeyta burtu brúnni yfir ána. Ef brúin hefði verið jafn rammbyggð og brúin yfir Gígju á Skeiðarársandi hefði hún staðið áhlaupið af sér en vegurinn hins vegar látið undan beggja vegna.
Hvers vegna er þá brúin yfir Múlakvísl jafn sterk og stór og Gígjubrú?
Ástæðan er sú, að miðað við hegðun Kötlu um aldir, var búist við risavöxnu hamfarahlaupi, hinu langstærsta á Íslandi, ef hún gysi.
Þess vegna var brúin yfir Múlakvísl höfð eins ódýr og unnt var svo að tjónið yrði minna við það að hún sópaðist hvort eð er í burtu.
Nú hafa hlaupin 1955 og 2011 sýnt að annað hvort hefur Katla breytt stórlega um hegðun og stundar aðeins minni háttar gos eða að á milli stórgosa geti komið smærri gos sem gera þá miklu meiri usla en ella, vegna þess hvað brúin er aum.
Ofan á þetta bætist að jökullinn hefur þynnst mikið síðan 1918 og því minni efniviður í hamfarahlaup en þá.
Kannski var það skyssa að reikna aðeins með stórgosum í eldstöðinni.
Hin skyssan blasir við þegar ekin er Fjallabaksleið eins og ég gerði í dag.
Síðan ég fór þessa leið fyrst og rallað var eftir leiðinni, hefur hún verið lagfærð mjög mikið, til dæmis tekin af fjöldi óbrúaðra áa og leiðin stórlöguð á erfiðustu köflunum.
Miðað við kröfur rallara um krefjandi sérleiðir er búið að taka burtu stóran hluta af því sem var svo eftirsóknarvert, þ. e. að komast þessa sérleið án stórra áfalla.
Frá sjónarmiði venjulegs fólks er leðiin hins vegar mun auðveldari viðfangs en áður eins og sjá má á því að ég mætti Yaris á leiðinni í dag.
Við rölluðum á venjulegum fólksbílum í den og Ragnar álskalli komst meira að segja í gegn á Mini í október 1977 sem mér fannst þá og finnst enn hafa verið mikið afrek.
Með því að fara að öllu nákvæmlega rétt er hægt að komast leiðina á venjulegum fólksbíl nú en á viðkvæmum bílum þarf að taka til þess ógnarlangan tíma því að vegurinn er einstaklega illilega holóttur, alger hörmung.
Nýtísku rútur komast hana ekki og heldur ekki nútíma vöruflutningabílar með aftanívagna.
Þetta er bagalegt vegna þess hve gríðarleg röskun verður í samgöngum á þessum árstíma þegar hringvegurinn rofnar.
Þótt leiðin liggi um friðland á það ekki að koma í veg fyrir að hægt sé að leggja hana þannig að engar óafturkræfar skemmdir hljótist af.
Sjá má í erlendum þjóðgörðum að lagðir eru malbikaðir kaflar enda er hægt að fjarlægja þá ef menn kjósa.
Á Fjallabaksleið nyrðri eru tvær slæmar, grófar brekkur, sem rútur og stórir vöruflutningabílar myndu ekki komast og eru raunar illfærar mörgum minni bílum.
Á þessa brekkukafla væri hægt að leggja malbik til að laga þetta og snjallir, smekkvísiir og aðgætnir vegagerðarmenn geta með lagni gert þessa leið þannig úr garði að hún sé nothæf varaleið þegar hringvegurinn rofnar.
Gott dæmi um malbikaðan veg sem fer vel í þjóðgarði er vegurinn um Bolabás í Þingallaþjóðgarði.
Fjallabak er svo einstakt svæði, að sjálfur Yellowstone bliknar í samanburðinum. Því þarf að fara að með sérstakri virðingu og gát á þessu dæmalausa svæði þegar leyst eru mikilvæg samgönguvandamál, þræða gullinn meðalveg.
![]() |
Fjallabaksleið hugsanlega styrkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.7.2011 | 18:57
Já, hún þjófstartaði !
'I bloggpistli í gær gantaðist ég með þá spá, að Katla myndi ekki leyfa Heklu að stela sjóinu heldur þjófstarta og verða fyrri til.
Hið ótrúlegasta gerðist að það gekk eftir, og þetta reyndist vera sambærilegt við þjófstart að því leyti að hlaup í kjölfar þjófstarts endar snubbótt og klárast ekki.
Kannski eru þær Hekla og Katla búnar að skipta um hegðun, hvor á sinn hátt.
Hekla gýs ekki lengur stórgosum á um hálfrar til heillar aldar fresti, heldur smærri gosum á tíu ára fresti.
Katla gaus að öllum líkindum smáu gosi 1955 þegar Múlakvísl hljóp líkt og nú gerðist, þótt hlaupið væri stærra nú.
Ég var uppi á Brúaröræfum í nótt og lagði af stað akandi suður frá Egilsstöðum um sjöleytið en frétti þá af tiltæki Kötlu.
Þarna sýndist ég í fyrstu vera öfugu megin við atburðina en í ljós kom að við, sem vinnum fyrir fréttastofu Sjónvarpsins gátum "umkringt" Kötlu fyrir bragðið.
Ég ók sem snarast suður Austfirði og kom við og tók myndir og viðtöl frá Skaftafelli um Fjallabaksleið nyrðri sem notaðar verða í kvöld.
Í þessum hamagangi var enginn tími til að blogga fyrr en nú.
![]() |
Myndir af sigkötlunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)