Tvær skyssur í vegagerð varðandi Kötlu?

Flóðið í Múlakvísl fór létt með að þeyta burtu brúnni yfir ána. Ef brúin hefði verið jafn rammbyggð og brúin yfir Gígju á Skeiðarársandi hefði hún staðið áhlaupið af sér en vegurinn hins vegar látið undan beggja vegna.

Hvers vegna er þá brúin yfir Múlakvísl jafn sterk og stór og Gígjubrú?

Ástæðan er sú, að miðað við hegðun Kötlu um aldir, var búist við risavöxnu hamfarahlaupi, hinu langstærsta á Íslandi, ef hún gysi.

Þess vegna var brúin yfir Múlakvísl höfð eins ódýr og unnt var svo að tjónið yrði minna við það að hún sópaðist hvort eð er í burtu.

Nú hafa hlaupin 1955 og 2011 sýnt að annað hvort hefur Katla breytt stórlega um hegðun og stundar aðeins minni háttar gos eða að á milli stórgosa geti komið smærri gos sem gera þá miklu meiri usla en ella, vegna þess hvað brúin er aum.

Ofan á þetta bætist að jökullinn hefur þynnst mikið síðan 1918 og því minni efniviður í hamfarahlaup en þá.

Kannski var það skyssa að reikna aðeins með stórgosum í eldstöðinni.

Hin skyssan blasir við þegar ekin er Fjallabaksleið eins og ég gerði í dag.

Síðan ég fór þessa leið fyrst og rallað var eftir leiðinni, hefur hún verið lagfærð mjög mikið, til dæmis tekin af fjöldi óbrúaðra áa og leiðin stórlöguð á erfiðustu köflunum.

Miðað við kröfur rallara um krefjandi sérleiðir er búið að taka burtu stóran hluta af því sem var svo eftirsóknarvert, þ. e. að komast þessa sérleið án stórra áfalla.

Frá sjónarmiði venjulegs fólks er leðiin hins vegar mun auðveldari viðfangs en áður eins og sjá má á því að ég mætti Yaris á leiðinni í dag.

Við rölluðum á venjulegum fólksbílum í den og Ragnar álskalli komst meira að segja í gegn á Mini í október 1977 sem mér fannst þá og finnst enn hafa verið mikið afrek.

Með því að fara að öllu nákvæmlega rétt er hægt að komast leiðina á venjulegum fólksbíl nú en á viðkvæmum bílum þarf að taka til þess ógnarlangan tíma því að vegurinn er einstaklega illilega holóttur, alger hörmung.

Nýtísku rútur komast hana ekki og heldur ekki nútíma vöruflutningabílar með aftanívagna.

Þetta er bagalegt vegna þess hve gríðarleg röskun verður í samgöngum á þessum árstíma þegar hringvegurinn rofnar.

Þótt leiðin liggi um friðland á það ekki að koma í veg fyrir að hægt sé að leggja hana þannig að engar óafturkræfar skemmdir hljótist af.

Sjá má í erlendum þjóðgörðum að lagðir eru malbikaðir kaflar enda er hægt að fjarlægja þá ef menn kjósa.

Á Fjallabaksleið nyrðri eru tvær slæmar, grófar brekkur, sem rútur og stórir vöruflutningabílar myndu ekki komast og eru raunar illfærar mörgum minni bílum.

Á þessa brekkukafla  væri hægt að leggja malbik til að laga þetta og snjallir, smekkvísiir og aðgætnir vegagerðarmenn geta með lagni gert þessa leið þannig úr garði að hún sé nothæf varaleið þegar hringvegurinn rofnar.

Gott dæmi um malbikaðan veg sem fer vel í þjóðgarði er vegurinn um Bolabás í Þingallaþjóðgarði.

Fjallabak er svo einstakt svæði, að sjálfur Yellowstone bliknar í samanburðinum.  Því þarf að fara að með sérstakri virðingu og gát á þessu dæmalausa svæði þegar leyst eru mikilvæg samgönguvandamál, þræða gullinn meðalveg.

 


mbl.is Fjallabaksleið hugsanlega styrkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir um það bil 8árum hjólaði ég þessa leið frá Landmannalaugum og alla leið til Víkur með vini mínum frá Chile. Það var alveg ógleymanleg ferð. Við tókum rútu upp í landmannalauga og hjóluðum þaðan til Vikur á tveimur dögum.

Gistum í Hólaskjóli eina nótt og hjóluðum svo þaðan seinni daginn til Víkur. Fegurðin á þessari leið er alveg ólýsanleg og maður kemst í svo miklu meiri snertingu við hana með þessum ferðamáta.

Ég ætla ekki að gera lítið úr Yellowstone sem ég hef reyndar aldrei hjólað, aðeins keyrt nokrum sinnum og hann er líka fagur á sína vísu og öðru vísi en fjallabak, þar er meiri gróður og fjölbreyttara dýralíf, sá þar t.d birni, og buffalóa sem og Elgi, en á fjallabak var minni umferð og kyrðin og puðið upp brekkurnar hafði mjög gefandi áhrif á mann.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.7.2011 kl. 22:39

2 Smámynd: Njörður Helgason

Mér sýnist þetta hlaup í Múlakvísl hafi ekki verið stærra en hlaupið sem var í Jökulsá á Sólheimasandi 1999. Brúin á Jökulsá stóðst hlaupið. Enda há og löng. Mér þótti undarlegt að Múlakvíslarbrúin hafi verið byggð svona lág. Það sást vel munurinn á þessari nýju brú og þeirri gömlu sem var byggð yfir múlakvísl þegar þjóðvegurinn var fluttur niður fyrir heiðarnar eftir hlaupið 1955.

Njörður Helgason, 10.7.2011 kl. 00:37

3 identicon

Hvað er að því að leggja snyrtilegann veg um fjallabak og hætta þessum kotbúskap sem virðist loða við landann ?

Gamla brúin yfir Múlakvísl var reyndar ekki svona há í upphafi, heldur gróf áin undann henni og þegar sú nýja var byggð þá var reiknað með að það mundi gerast líka.

Aðalsteinn Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.7.2011 kl. 04:59

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það hefur lengi loðað við vega og brúargerð hér á landi,  að hirða aurinn og henda krónunni.  Það var öllum heimamönnum  ljóst  þegar þessi brú var byggð að hún var  allt of lág.  Eins og Aðalsteinn segir reiknuðu menn með að áin græfi  sig niður en þvert á móti hækkaði árfarvegurinn sem gerði vandmálið enn verra en ella. Undanfarin ár hefur venjulegt sumarvatn nánast sleikt burðarbita brúarinnar. En hvað hefðu stöplar brúarinnar þolað mikla lækkun á farveginum? Miðað við þá sem hurfu í gær held ég að þeir hafi ekki verið grafnir mjög djúpt og þar af leiðandi ekki þolað mikið án þess að undan þeim græfi.   Það hefði varla verið mikill kostnaðarauki að hafa brúna kannski tveimur til þremur metrum hærri og veginn lægri beggja vegna.  Ef þannig hefði verið staðið að verki væri ekki uppi sú staða sem  við stöndum frammi fyrir í dag.  Það standa engin brúarmannvirki af sér alvöru Kötluhlaup. En það á alveg að vera hægt að gera  brú á Múlakvísl, sem þolir hlaupskvetti eins og þennan.

Þórir Kjartansson, 10.7.2011 kl. 10:14

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

„…og þó hún syngi bara dirrindí fannst mér vera þónokkurt vit í því!“

Sigurður Hreiðar, 10.7.2011 kl. 10:28

6 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Sæll Ómar, sammála um að það þurfii að að gera Fjallabaksleið að varaleið. Tvisvar sinnum á stuttum tíma hefur hringvegurinn lokast með alvarlegum afleiðingum fyrir ferðaþjónustuna og íbúa sunnan jökla. Sæmileg sátt hefur verið um að láta hálendisvegina bíða þar til mest af vegum í byggð eru komnir með bundið slitlag. Það er tvískynnungsháttur að vilja efla ferðaþjónustu og sýna náttúruperlur en vera á móti því að gera vegina akfæra öllum bílum. Þegar þetta er orðið öryggisatriði líka finnst mér koma sterklega til greina að gera þarna heilsársveg. Hringvegurinn gæti rofnað að vetri til líka.

Sigurður Ingólfsson, 10.7.2011 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband