Flókin en þó einföld staða.

Við kynntumst því í Búsáhaldabyltingunni hér heima að þegar mótmælaaðgerðir stóðu yfir var ævinlega hópur fólks, sem sá sér þar færi til að espa upp átök og skemmdarverk, sem í raun höfðu ekkert með mótmælin að gera.

Þegar þetta gekk úr hófi fram gerðist það, sem mun verða ævarandi til sóma fyrir byltinguna. Mótmælendur mynduðu sjálfir sveitir sem tóku að sér að verja lögreglumenn fyrir hamslausum árásum óeirðaseggja sem nærðust á því að svala ofbeldisþörf sinni og skemmdarfýsn.

Þarna sýndu Íslendingar meiri þroska en hægt er að sjá að hafi verið sýndur erlendis við svipuð skilyrði.

Kannski hjálpaði fámennið til, því að hér þekkjast svo margir.

Í óeirðum eins og geysað hafa í Bretlandi nýtir ofbeldiskenndur glæpalýður sér ástandið og fer hamförum.  Þegar þetta blandast við réttláta reiði mótmælenda sem fær útrás á skaplegri hátt, verður úr flókin blanda átaka sem erfitt er að greina og leggja mat á.

Þó er þetta ekki eins flókið og ætla mætti.

Í Bretlandi eins og í Frakklandi hefur langvarandi fátækt minnihlutahópa með miklu atvinnuleysi kynslóð fram af kynslóð fætt af sér sístækkandi hóp vandaræðafólks, sem hefur verið svipt mannlegri reisn og sjálfsvirðingu.

Á sama tíma horfir þetta fólk upp á hina ríku fjármálamenn og fjárfesta, sem ekkert virðist bíta á, heldur geta haldið áfram lúxuslífi sínu, ofurlaunum og forréttindum, á sama tíma og þeir nýta sér galla kerfisins til þess að velta yfirgengilega miklu tapi af þeirra völdum yfir á alla alþýðu, sem látin er blæða.

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er strax í upphafi gefinn tónninn til rétts hvers þegns til að njóta mannlegrar reisnar og sjálfsvirðingar.

Kann að sýnast eðlileg ósk en er þó svo víðs fjarri þegar litið er yfir mannkynið í heild, þar sem misskipting auðs og valda leiðir af sér ósætti, ófrið og hörmungar.


mbl.is Ofbeldið breiðist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband