Flókin en þó einföld staða.

Við kynntumst því í Búsáhaldabyltingunni hér heima að þegar mótmælaaðgerðir stóðu yfir var ævinlega hópur fólks, sem sá sér þar færi til að espa upp átök og skemmdarverk, sem í raun höfðu ekkert með mótmælin að gera.

Þegar þetta gekk úr hófi fram gerðist það, sem mun verða ævarandi til sóma fyrir byltinguna. Mótmælendur mynduðu sjálfir sveitir sem tóku að sér að verja lögreglumenn fyrir hamslausum árásum óeirðaseggja sem nærðust á því að svala ofbeldisþörf sinni og skemmdarfýsn.

Þarna sýndu Íslendingar meiri þroska en hægt er að sjá að hafi verið sýndur erlendis við svipuð skilyrði.

Kannski hjálpaði fámennið til, því að hér þekkjast svo margir.

Í óeirðum eins og geysað hafa í Bretlandi nýtir ofbeldiskenndur glæpalýður sér ástandið og fer hamförum.  Þegar þetta blandast við réttláta reiði mótmælenda sem fær útrás á skaplegri hátt, verður úr flókin blanda átaka sem erfitt er að greina og leggja mat á.

Þó er þetta ekki eins flókið og ætla mætti.

Í Bretlandi eins og í Frakklandi hefur langvarandi fátækt minnihlutahópa með miklu atvinnuleysi kynslóð fram af kynslóð fætt af sér sístækkandi hóp vandaræðafólks, sem hefur verið svipt mannlegri reisn og sjálfsvirðingu.

Á sama tíma horfir þetta fólk upp á hina ríku fjármálamenn og fjárfesta, sem ekkert virðist bíta á, heldur geta haldið áfram lúxuslífi sínu, ofurlaunum og forréttindum, á sama tíma og þeir nýta sér galla kerfisins til þess að velta yfirgengilega miklu tapi af þeirra völdum yfir á alla alþýðu, sem látin er blæða.

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er strax í upphafi gefinn tónninn til rétts hvers þegns til að njóta mannlegrar reisnar og sjálfsvirðingar.

Kann að sýnast eðlileg ósk en er þó svo víðs fjarri þegar litið er yfir mannkynið í heild, þar sem misskipting auðs og valda leiðir af sér ósætti, ófrið og hörmungar.


mbl.is Ofbeldið breiðist út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar, þú fullyrðir: '...var ævinlega hópur fólks, sem sá sér þar færi til að espa upp átök og skemmdarverk, sem í raun höfðu ekkert með mótmælin að gera.'

Hvaðan kemur þér þessi vitneskja? Ég man ekki eftir virkri þátttöku þinni í svokallaðri 'Búsáhaldabyltingu'. Ég man ekki eftir að hafa séð þig á Austurvelli á laugardögum mánuð eftir mánuð.

Ég man að vísu eftir því þegar Jón Baldvin, ástríðupólitíkus, dóttir hans, Kolfinna og þú reynduð að samspilla mótmælum á Austurvelli haustið 2008 með því að færa þau suður að Ráðherrabústað! Mér er minnisstætt uppistand þitt á þeim tímapunkti.

Upplag svokallaðrar 'Búsáhaldabyltingar' voru friðsamleg mótmæli, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð á Austurvelli. Sjálf byltingin, 20. - 23. janúar var afar friðsamleg.

Það voru ekki mótmælendur sem hleyptu upp mótmælum þriðjudaginn 20. janúar heldur óeirðasveit lögreglunnar (íslenska Delta-sveitin).

Vinsamlegast ekki reyna að endurskrifa söguna Ómar.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 17:05

2 identicon

Voru það ekki núverandi áhrifaþingmenn sem æstu upp lýðin til innrásar í Alþingishúsið?  Nokkuð þekkt hvað hún dundaði sér í símanum hún Álfheiður.

Og hvað tók svo við.  

Ríkisstjórn sem er verri en nokkur önnur við samfélagsvæðingu taps.

SpKef, Sjóvá, Icesave o.s.frv.

Og svo bítur hún höfuðið af skömminni með einkavæðingu á skuldum almennings með Arion og Íslandsbanka.

Engin smáræðis árangur þetta.  Og þessu hefur þú borið borið blak af!

Af hverju bannaði ekki stjórnlagaráðsómyndin samfélagsvæðingu tapa einkaaðila.

TBTF (Too Big To Fail) bankar og allt annað eru ær og kýr pólitíkusa.  Það á ekki að vera hægt í heilbrigðu samfélagi.

Það er verulega skömm að þessu.

jonasgeir (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 18:44

3 Smámynd: Sandy

Ómar! Eins og þú orðar það réttilega fólk hefur verið svipt mannlegri reisn og sjálfsvirðingu, við hverju er þá að búast, ég hefði ekki trúað því á þig að þú kallaðir það fólk sem svipt hefur verið mannlegri reisn og á ekki neina möguleika á að verja hendur sínar fyrir pólitíkusum og fjármálakerfi sem allt vilja gleypa, vandræðafólk og glæpalýð.

Ég verð nú að segja að í búsáhaldabyltingunni okkar fannst mér fólk koma mjög vel fram, ekki var þó hægt að fara fram á það að fólk lægi á bæn fyrir framan Alþingishúsið margt af þessu fólki var að tapa aleigunni, ævistarfi og heimilum barnanna sinna,hins vegar fannst mér nokkrir einstaklingar innan ríkisstjórnar ekki koma eins vel fram, það fólk hélt þó sínum eignum og var áfram á launum hjá þjóðinn. Þeir hefðu a.m.k. ekki átt að sækja nímenningana til saka og hefðu kannski ekki gert það ef þetta fólk gæti litið í eigin barm.

Sandy, 11.8.2011 kl. 19:04

4 identicon

Sæll Ómar; - og þið önnur, gesta hans !

Hilmar Þór !

Þakka þér fyrir; að leiðrétta villu Ómars, gagnvart atburðarás Hautsins 2008 - Vetrarins 2009, á þann máta, sem öllum má skiljast, réttan vera.

Burt séð; frá Ómari síðuhafa - og meinlokum hans, er framganga þeirra feðgina - Jóns Baldvins og Kolfinnu, dóttur hans, í hvað ferskustu minni, og gerði ég harða hríð, að HRÆSNI þeirra allri, á sínum tíma, á síðu minni, hér; á vef.

Vitaskuld; á Ómar að vera maður til, að viðurkenna auðsveipni sína - sem fylgi spekt, við ''Samfylkingar'' ónáttúruna, og allt það, sem að því slekti lýtur.

Ómar Ragnarsson; er kannski einn þeirra, sem eru þannig þenkjandi, að sú ólga og ógn, sem hratt Bastillu byltingunni af stað, í Frakklandi í Júlí, Sumarið 1789, hafi kannski verið full harkaleg, gagnvart Loðvík XVI. og Drottningu hans - og megi Ómar ekki til þess hugsa, að hreyft verði, við þeim óþokka hjúum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, þó margfalt hafi til unnið ?

Sérkennilega saman settur maður; Ómar Ragnarsson, mætur listamaður og knár í flestum sinna verka, að fylgja mesta illþýði seinni alda Íslandssögu að málum, gott fólk.

Með kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 19:52

5 Smámynd: Már Elíson

Ansi góð grein hjá þér, Ómar, og sönn frásögn af óþjóðalýðnum sem kom óorði á mótmælin á Austurvelli á sínum tíma. Var það ekki einhver mætur maður sem sagði..."rónarnir koma óorði á brennivínið..." ? - Mig minnir það.

Ég held þið (athugasemdarfólk) hér fyrir ofan séuð í æsingarhug og rangtúlkið það sem Ómar er að skrifa eða eruð í því að reyna að gera það tortryggið. Gott hjá Ómari að svara ykkur ekki til baka - en það er það sem þið viljið.

Vinsamlegast lesið greinina hans yfir aftur og andið með nefinu. 

Már Elíson, 12.8.2011 kl. 14:16

6 identicon

Komið þið sæl; að nýju !

Már Elíson !

Hvað; finnst þér á skorta, lýsingu okkar, á alvarleika þess ástands, sem í landinu ríkir, ágæti drengur ?

Mögulega; hefir þú komist í gegnum lífs mynstrið,, stóráfallalaust - og er það vel, sé svo. Hið sama; gildir ekki um mig, sem marga aðra; þér, að segja, Már minn.

Fyrir mína parta; læt ég mér í léttu rúmi liggja, hvort Ómar síðuhafi svari mér - eða þá, öðrum, að nokkru - eður öngvu, ágæti drengur.

Með; þeim sömu kveðjum - sem fyrri /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 14:49

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var erlendis þegar Hörður Torfason hélt fyrsta fundinn en fór á Austurvöll og tók þátt í öllum fundunum eftir það hvað sem Hilmar Þór segir. Meira að segja var tekið við mig sjónvarpsviðtal og birt í fréttum í eitt skiptið.

Mitt "búsáhald" var dómaraflauta. 

En maður má svo sem búast við því að Hilmar Þór segi að viðtalið hafi verið falsað! 

Ómar Ragnarsson, 15.8.2011 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband