14.8.2011 | 23:33
Ræður ekki við hið ómögulega.
Þær miklu vonir, sem voru bundnar við Barack Obama, bæði í kosningabaráttunni 2008 og einnig á fyrri hluta kjörtímabils hans, hafa nú dofnað verulega.
Obama kom sem ferskur blær inn í bandarísk stjórnmál eftir ömurlega forsetatíð George W. Bush.
Hann hefur feykilega persónutöfra, kemur vel og skipulega fyrir sig orði og setti fram háleit markmið og hugsjónir í kosningabaráttu sinni og fyrst eftir að hann tók við stjórnartaumum og fór að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar.
Honum tókst að koma í gegnum þingið heilbrigðismálafrumvarpi, sem verður að teljast merkasta verk hans.
En Obama stendur nú andspænis verkefnum, sem eru ekki á hans færi að leysa.
Má að ýmsu leyti líkja stöðu hans við stöðu Lyndons B. Johnsons, sem réði ekki við það ástand sem Vietnamstríðið skapaði í Bandaríkjunum.
Johnson hafði, eins og og Obama, komið í gegn tímamótalöggjöf, mestu réttarbótum í mannréttindamálum í sögu Bandaríkjanna.
En hann missti stjórn á atburðarásinni varðandi Vietnam og ástandinu í þjóðfélaginu, sem markaðist af hippabyltingunni og nýjum viðhorfum og skoðunum, sem ruddu sér rúms.
Obama stendur frammi fyrir enn erfiðari verkefnum en Johnson, þeim erfiðustu, sem Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hafa staðið fyrir, en það er að sigla þjóðum heims í gegnum þá kreppu og erfiðleika sem dvínandi orkulindir og fjármálaóstjórn skuldafíknar hafa skapað og munu halda áfram að skapa.
Obama á tvo slæma kosti í stöðunni: Að reyna að láta reka á reiðanum fram yfir næstu kosningar og taka þá til hendi, - eða að taka á sig rögg, rísa upp og stíga fram af svipuðum myndugleik og Roosevelt forseti gerði í aðdraganda og upphafi þátttökku Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Verkefni Obama er hins vegar miklu erfiðara en Roosevelts, því að það er auðveldara að þjappa þjóð saman þegar á hana er ráðist eins og gert var með árás Japana á Perluhöfn, heldur en að þjappa þjóð saman um að fara í þá þrautargöngu, sem óhjákvæmilega þarf að fara vegna hnignunar stórveldis, sem byggst hefur á bruðli og sóun takmarkaðra orkulinda.
Í ofanálag verður Obama að semja við andstæðinga sína á þingi, eins og gerðist varðandi skuldaþak ríkissjóðs Bandaríkjanna á dögunum og afleiðingarnar geta ekki orðið aðrar en þær að honum verði gersamlega ófært að ná þeim árangri í stjórn landsins, sem er forsenda fyrir því að halda fylgi.
Þrátt fyrir hæfileika sína og persónutöfra er Obama aðeins maður, - ekki ofurmenni eða guð og ræður ekki við hið ómögulega, því miður.
![]() |
Fylgishrun hjá Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.8.2011 | 20:21
Aldrei eins mikil þörf og nú.
Það er gott og þarft að huga að grunngildum þjóðfélags okkar eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur gert í ræðu sinni á Hólahátíð í dag.
Þeirrar tilhneigingar hefur nefnilega gætt að gefa sér það, að í kjölfar Hrunsins myndu þessi gildi öðast sjálfkrafa meira vægi og allt hér færast til betri vegar.
En svo gæti farið að það fari á annan veg, þann sem Sigmundur Davíð lýsir með orðunum að dramb sé falli næst.
Það felst einkum í því að í ljósi þeirrar nauðsynjar og neyðar, sem menn telja að verði að hafa hliðsjón af, sé það réttlætanlegt að víkja frá helstu siðfræðigildum þjóðfélags okkar þegar mönnum sýnist svo.
Mér finnst áberandi hve hljótt varð fljótlega um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið og ég óttast að sú umræða sem hún kallaði fram í fyrstu, sé að baki og að nú verði flest leyfilegt á ný og jafnvel frekar en áður, af því að nú verði hægt að afsaka fleira en áður með því að kreppan geri þetta eða hitt nauðsynlegt.
Í nokkrum nýjustu stjórnarskrám heimsins, svo sem þeirri færeysku og suður-afrísku, eru aðfararorð í upphafi þeirra, án þess að þau sé hægt að flokka sem sérstaka grein.
Þetta er gert til þess að gefa tóninn um þau markmið og grunngildi, sem felist í stjórnarskránni sem sáttmála þjóðarinnar um grunn samfélagsgerðar landsins.
Óm af þessu má raunar finna í upphafsorðum formóður stjórnarskráa heimsins, þeirri bandarísku: "We, the people of America..." þar sem stjórnarskráin er færð í búning yfirlýsingar þjóðarinnar til sjálfrar sín um mannréttindi og önnur grunngildi samfélagsgerðarinnar.
Á sama hátt og umræða um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og lærdómana af henni má ekki fjara út, verður nú að efna til vandaðrar umræðu um stjórnarskrá Íslands og stoðir hennar.
![]() |
Vegið að leikreglum réttarríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2011 | 16:08
Auka þarf vald þingsins.
Í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru ákvæði um það að skylt sé að hafa jafnan samráð við fjárlaganefnd varðandi aukaútgjöld ríkissjóðs áður en þau eru ákveðin.
Mótrök gegn þessu hafa verið þau, að stundum þurfi að bregðast skjótt við óvæntum vanda og að þá sé ekki tryggt að hægt sé að ná í fulltrúa í frjárlaganefnd.
Þessi rök eru að mestu orðin úrelt á tímum stórbatnaðra fjarskipta auk þess sem verk fjárlaganefndar dreifast nú orðið á allt árið.
Ef menn vilja tryggja að fyrir hendi sé möguleiki á að bregðast við óvæntum atvikum nánast á stundinni má hugsa sér sérstakan neyðarsjóð í því efni.
Aðalatriðið er það að í þessum efnum eins og mörgum fleirum hefur framkvæmdavaldið seilst of langt og gert þingið að afgreiðslustofnun eftir á.
![]() |
Vill draga úr valdheimildum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)