17.8.2011 | 21:30
Sinnuleysi um mestu verðmæti Íslands.
Íslendingar hafa verið mörgum áratugum á eftir öðrum þjóðum í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Þingvellir voru friðlýstir sem þjóðaraeign 1928 en það var ekki fyrr en meira en 60 árum síðar sem fyrsti íslenski þjóðgarðsvörðurinn fór til útlanda til að kynna sér rekstur þjóðgarða. Það var Steingrímur Hermannsson sem beitti sér fyrir því að séra Heimir Steinsson færi til Yellowstone í þessu skyni.
Íslendingar undirrituðu að vísu Ríósamninginn um sjálfbæra þróun og það að náttúran skyldi njóta vafans en sú undirskrift hefur ekki verið pappírsins virði, enda hefur þess verið vandlega gætt að þegnar landsins hefðu ekki hugmynd um hvað þessar skilgreiningar þýddu.
Þegar ég kom til Íslands eftir fyrstu ferðir mínar um þjóðgarða og virkjanasvæði erlendis 1999 var ég í áfalli, svo miklu, að ég íhugaði að flytja af landi brott frekar en að horfa upp á það ástand sem ríkti hér heima.
Áfallið var enn meira fyrir þá sök að ég stóð frammi fyrir því að hafa gersamlega vanrækt og brugðist frumskyldu fjölmiðlamannsins sem er sú að kanna mál í víðu samhengi og koma þeirri vitneskju á framfæri.
Umgengnin og sinnuleysið gagnvart hellum landsins, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is er ein birtingarmynd þess á hvaða stigi við erum.
Á sínum tíma sveið Jónasi Hallgrímssyni hvernig komið var fyrir menningu, sjálfstæði og reisn afkomenda landnámsmanna Íslands og orti mögnuð ljóð til þess að stugga við sofandi þjóð sinni.
Hann hafði legið tæpa öld í gröf sinni þegar afrakstur herhvatar hans varð að veruleika, því að sjálfstæðið, sem þjóðin hafði misst, var þó, þrátt fyrir allt, afturkræft.
Því miður höfum við ekki nándar nærri svona mikið svigrúm varðandi helstu náttúrugersemar Íslands, vegna þess að eyðilegging þeirra er langoftast óafturkræf á því augnabliki sem hún er framkvæmd.
Hjalladal með hjöllum sínum, gróðurlendi, fossum og gljúfrum, verður aldrei hægt að fá aftur vegna þess að dalurinn fyllist hratt upp af aurframburði Jöklu og Kringilsár.
Nýrunnið hraunið á Gjástykkis-Leirnhnjúkssvæðinu verður ekki hægt að færa í fyrra horf eftir að jarðýturnar hafa mulið það niður.
Eitt af því sem vandlega er sneytt hjá að fjalla um varðandi náttúruvernd er hugtakið "afturkræft" og "endurnýjanlegt".
Fáfræði um helstu hugtök umhverfismála er landlæg hér á landi og sjálfur uppgötvaði ég það eftir að hafa verið að flækjast um fjöll og firnindi þessa lands áratugum saman að ég hafði allan tímann verið skelfilega fáfróður um þessi efni, "fjallheimskur" í þess orðs fyllstu merkingu.
![]() |
Náttúrufyrirbæri á heimsvísu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2011 | 14:54
Hjörtur Júlíus og Barney Fel.
Hjörtur Júíus Hjartarson er einn af þessum fínu strákum, sem ég hef kynnst meðal íþróttafréttamanna í meira en 40 ár, hæfileikaríkur og skemmtilegur. Þegar hann fjallar um knattspyrnuna í sjónvarpi er hann að sjálfsögðu á heimavelli rétt eins og Bjarni Fel var fyrir 40 árum.
Ég var að horfa í gærkvöldi á YouTube á bardaga Sonny Liston og Muhammads Ali 25. febrúar 1962.
Maður þarf að hafa svolítið fyrir því að geta horft á svona bardaga í heild, en í gærkvöldi lét ég eftir mér að gea það í stað þess að horfa bara á valda kafla.
Þetta var afar gefandi og maður sá bardagann í nýju ljósi eins og fleiri, sem ég hef fyrr reynt að grafa upp í heild.
Bardaginn 1962 markaði tímamót í íþróttum og jafnvel stjórnmálum á marga lund. Ali breytti nafni sínu úr Cassius Clay og tók upp baráttu sína á stjórnmálasviðinu sem markaði djúp spor.
Þetta var upphaf á einstæðum ferli besta hnefaleikara allra tíma að mínum dómi og hugsanlega einnig mesta íþróttasnillingnum líka.
En eitt skemmtilegt atriði uppgötvaðist við skoðunina í gær. Dómarinn í hringnum hét Barney Felix, sem er ótrúlega líkt nafni Íslendingsins sem þá var í gullaldarliði KR og haslaði sér síðar völl svo um munaði í íþróttafréttamennsku.
![]() |
Hjörtur: Reikna ekki með að spila með ÍA í úrvalsdeildinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2011 | 09:58
Raunveruleiki eða sýndarveruleiki ?
Fyrir um tíu árum urðu svonefndir "raunveruleikaþættir" vinsælir í kvikmyndum og sjónvarpi. Fræðslukvikmyndir í gamla stílnum þóttu lummó þótt um væri að ræða umfjöllun um jafn raunverulegt mál og Kárahnjúkavirkjun.
Þessu fékk ég að kynnast á kvikmyndahátíð í Helsingborg 2003. Myndir okkar Páls Steingrímssonar, "In memoriam" og "Land of Solitude" komust að vísu í úrslit en urðu að víkja fyrir mynd um finnskan ljósmyndara, sem sat uppi í tré við ljósmyndun á Kolaskaga í heilt ár og mynd sem breskur kvenkafari tók af kóröllum við Bretlandsstrendur.
Myndir okkar Páls skorti það að einhver ein persóna settti sig í stellingar "raunveruleikamyndar".
Ég áttaði mig á því að ef mynd mín hefði átt að eiga upp á pallborðið hjá sjónvarpsstöðvum og kvikmyndahúsum hefði ég þurft að einbeita mér að því að mynda sjálfan mig vera einan uppi á austurhálendinu, helst sem minnst klæddur, jafnvel syndandi yfir ár þótt ég gæti flogið yfir þær.
Myndin mín fékk að vísu önnur aðalverðlaunin á kvikmyndahátíð á Ítalíu ásamt mynd BBC um Níl, en ég hafði hvorki fjármuni né tíma til að fylgja því eftir.
Firring nútímafólks, sem ofverndað er gegn lífsbaráttu og striti í tæknivæddum borgum nútímans kallaði á "raunveruleikaþættina" sem í flestum tilfellum voru ekki "raunveruleikinn" heldur tilbúin leikmynd eftir handriti.
Maðurinn er skapaður til að heyja lífsbaráttu og sé sú barátta tekin frá honum verður hann oft leiður á lífinu. Hingað til lands kemur fjöldi ferðafólks til þess að kynna sér lífsbaráttu og kjör fyrri kynslóða og upplifa eitthvað sjálft af glímuninni við náttúruöflin.
Í því liggja mestu sóknarmöguleikar íslenskrar ferðaþjónustu. En raunveruleikinn verður seint búinn til og ég læt fylgja í lokin skemmtilega vísu Kristjáns Hreinssonar um lygina og sannleikann:
Lygin oft hið sanna sér
á sínu efsta stigi
því sannleikurinn sjálfur er
sennilega lygi.
![]() |
Raunveruleikastjarna sviptir sig lífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)