25.8.2011 | 22:53
Margar hliðar á þessu máli.
Það eru margar hliðar á því máli að kínverskur auðjöfur hafi keypt eina af landmestu jörðum Íslands, Grímsstaði á Hólsfjöllum.
Ég heyri eðlilega miklar tortryggnisraddir hjá ýmsum.
Hlálegt er samt að heyra suma tala á þennan veg, sem áður hafa talið sjálfsagt að þegar virkjanaframkvæmdir valda mestu óafturkræfu umhverfisspjöllum fyrir álver sé það hið besta mál í raun afhendum við útlendum auðfyrirtækjum gríðarleg náttúruverðmæti til eyðileggingar og heilu landshlutana til orkuöflunar.
Því að ágóðinn af til dæmis álveri rennur út úr landinu og er margfalt meiri en nemur ávinningi okkar í orkusölu og störfum við álverið.
Kínverjar eru stórveldi sem hagar sér líkt og stórveldi hafa alltaf gert. Kínverskir auðmenn eru ekkert öðruvísi en aðrir auðjöfrar. Í landinu ríkir alræðisstjórn.
Um daginn sóttu tíu Kanadamenn um ríkisborgararétt og vildu kaupa hér nýtingarrétt á orku landsins. Báru fyrir sig ást á landinu og miklum umhverfishugsjónum.
Farsakennt viðtal við talsmann þeirra í Kastljósi varð til þess að ekki hefur heyrst um þetta síðan.
Fyrir alþjóðleg risafyrirtæki og stórveldi er Ísland með sínar rúmlega 300 þúsund hræður auðveld bráð. Hér á landi er reynsla fyrir því hve auðvelt er að kaupa sveitarstjórnir og landeigendur.
Þetta verður að hafa í huga þegar sú þróun sýnist vera að hefjast að erlent auðræði seilist til þess að eignast land okkar og auðlindir þess.
Á hinn bóginn er það grátlegt að það skuli vera útlendingur hinum megin af hnettinum sem setur fram og sér þá möguleika sem felast í varðveislu íslenskra náttúruverðmæta og ferðaþjónustu sem tengist hinni einstæðu ósnortnu náttúru landsins.
Ég hef um áraraðir reynt að benda á þessa möguleika, nú síðast varðandi svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki en talað fyrir daufum eyrum og fengið að heyra háðsglósurnar um "eitthvað annað", "fjallagrös" og "lopapeysur.
Varðandi möguleika til vetrarferða á þessu svæði hafa menn haft allt á hornum sér. "Það rignir oft í Mývatnssveit á veturna og jörð auð" er ein staðhæfingin hjá þeim, sem virðast aldrei hafa farið norður í Gjástykki að vetrarlagi eða horft yfir svæðið þegar það er alhvítt allan veturna þótt autt geti verið á köflum við Mývatn.
"Grímsstaðir á Fjöllum eru í 400 metra hæð yfir sjó. Það er svo oft kalt þarna. Þetta er svo langt frá Reykjavík."
Slíkar mótbárur eru færðar fram og sömuleiðis hvað það taki langan tíma að byggja upp ferðaþjónustu. Það sé nú munur heldur en þegar undirritað sé samkomulag um virkjanaframkvæmdir og álver. Þá hefjist þegar í stað peningaþensla, jafnvel ári áður en framkvæmdir hefjast.
Ég hefði kosið að hinn kínverski fjárfestir hefði haft þetta svipað og til dæmis Friðrik Pálsson hefur þetta á Hótel Rangá. Hann keypti ekki jörðina Lambhaga en rekur sína ferðaþjónustu af myndarbrag og dugnaði öllum til hagsbóta.
Ef Kínverjinn hefur svona mikla trú á ferðaþjónustumöguleikunum þarna, bæði að vetri og sumri, af hverju þarf hann að kaupa heila jörð?
Fyrirfram hefðu fáir talið það mikið vit að hafa lúxushótel "uppi í sveit" eins og Hótel Rangá er í sumra augum.
Staðreyndin er nefnilega sú að ríkir fjáraflamenn og fyrirtæki hafa í rólegheitum verið að komast yfir heilu dalina og sveitirnar hér á landi með landakaupum.
Oft er erfitt að henda reiður á hverjir eru hinir raunverulegu eigendur heilla landssvæða og getur verið stutt í það að menn vakni upp við það að útlendingar hafi eignast bestu landssvæði og auðlindir okkar.
Því miður höfum við farið þannig að ráði okkar og farið þannig með land okkar og náttúruverðmæti að af tvennu sé skárra að útlendingur með skilning á varðveislu og verndu eigi þau heldur en að Íslendingar níði þessi verðmæti og skemmi.
Það er hin mikla mótsögn okkar tíma.
![]() |
Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.8.2011 | 09:42
Hvergi fleiri Buickbílar. Hvað um okkur sjálf?
Bíltegundin Buick hefur alla tíð verið í hópi dýrra bíla. Nú eru framleiddir mun fleiri bílar af þeirri gerð í Kína en í Bandaríkjunum.
Kínverjar eru að ganga í gegnum svipað og vestrænar þjóðir, þar á meðal við Íslendingar, gerðu þegar bílavæðingin hófst. Fyrstu áratugi bílavæðingar hér voru Íslendingar með stærri og eyðslufrekari bíla að jafnaði en nokkur önnur Evrópuþjóð.
Í Bólunni bókstaflega mokuðum við inn stórum amerískum pallbílum og dýrum evrópskum bílum.
Hvergi í Evrópu eru færri dísilbílar en hér á landi.
Ég tel hins vegar að það sé mikil einföldun að draga þá ályktun af fáum Priusbílum að það sé merki um óraunsæi í bílakaupum. Hraðar framfarir í gerð dísilvéla hafa valdið því að tvinnbílar hafa ekkert fram yfir jafnstóra dísilbíla og allra síst í löndum með kalt loftslag.
Tvinnbílarnir eru dýrari í framleiðslu og flóknari að gerð og ég tel það skrum og ranga forgangsröðun að gefa þeim sérstaka aflætti og frí bílastæði.
Þetta er bara p.r. fyrirbæri ríkafólksins að mínum dómi. Sem dæmi má nefna að forsetabíllinni okkar, sem er að vísu stórkostlega góður Lexus-tvinnbíll, er bæði flóknari og í raun dýrari en sambærilegir BMW eða Benz lúxusbílar með dísilvélum sem gefa þeim bílum jafn litla eyðslu og jafnmikinn kraft og hinn flókni Lexus-tvinnbíll býr yfir.
Í augnablikinu liggur beinast við fyrir okkur að fjölga metanknúnum bílum og stuðla að hagkvæmari bílaflota með minni og sparneytnari bílum en við höfum alla tíð talið að við þyrftum að eiga.
Rafskutlur geta líka sparað mikla peninga. Orðið vespa er fráleitt um þá gerð bifhjóla sem er kölluð "scooter" á ensku eða "roller" á þýsku, því að Vespa er aðeins ein tegund af bifhjólum.
Á sínum tíma var orðið "Asdic" notað um dýptarmæla af því að framleiðandinn hét Asdic. Síðan tók íslenskt orð við af því að framleiðendurnir urðu fleiri.
P. S. Var að fá senda athugasemd um þetta með Asdicið þar sem mig misminnti. Þeir notuðu þetta mælitæki í síldveiðunum og þetta var sonar-leitartæki til að finna kafbáta og Asdic var dulnefni en ekki nafn framleiðandans.
Orðið "ampex" var notað fyrstu árin um stór myndbandsupptökutæki af því að framleiðandinn hét "Ampex". Síðan hvarf þetta að sjálfsögðu.
Ég held að orðið "skutla" ná best "scooter". Þessi hjól eru í oftast smærri en önnur, þótt hægt sé að kaupa stórt lúxushjól af gerðinni Suzuki Burgman 650. Þau eru frábrugðin öðrum hjólum að því leyti að hreyfillinn er fyrir aftan og neðan ökumanninn og beintengdur við afturhjólið.
Þar með gefst alveg opið frítt pláss fyrir fæturna í góðu skjóli beint fyrir framan ökumann.
Burgman 650 er fyrsta skutluhjólið þar sem hreyfillinn fjaðrar ekki með afturhjólinu, heldur er fastur í grindinni. Það væri mitt óskahjól ef ég ætti slíkt.
Við Íslendingar þurfum ekki að kvíða hvarfi olíunnar því fáar ef nokkrar þjóðir eiga endurnýjalega orkugjafa sem geta sinnt nær allri orkuþörf sinni. Þess vegna eigum við ekki að bruðla með hana af óforsjálni.
![]() |
Rafbílar í vörn í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.8.2011 | 09:26
Smá Hrunhúmor í þessu.
Íslandsvinurinn erlendi sem lýsir Íslendingum fjálglega hefur greinilega húmor fyrir okkur.
Fyrir Hrunið vorum við bestir eða meðal þeirra bestu í öllu. Við vorum með besta fjármálakerfi í heimi og Verslunarráð ályktaði til dæmis að til Norðurlandanna hefðum við ekkert að sækja í þeim efnum, - við stæðum þeim svo langt framar.
Við vorum ríkasta þjóð heims miðað við fólksfjölda, vorum með minnstu spillingu í heimi og meðal þeirra fremstu í umhverfismálum, að vísu með því að ljúga því að engar upplýsingar fyndust um ástand gróðurs. Já, við lugum því, vegna þess að Ólafur Arnalds hlaut á sínum tíma umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir að kanna ástand gróðurs á landinu!
Og þótt við ættum mest mengandi bílaflota í Evrópu skyldum samt vera forystuþjóð á þessu sviði!
Þetta breytir því þó ekki að ástæðulaust er fyrir okkur að setja ljós okkar undir mæliker svo að notuð séu orð Krists um salt jarðar. Og enginn stekkur lengur en hann hugsar sagði gamli niðursetningurinn við mig ungan í sveitinni.
Hvort við séum hávaxnastir má liggja á milli hluta, við erum býsna hávaxin samt.
Ég áttaði mig ekki á þessu til fulls fyrr en ég fór til Japans fyrir rúmum þrjátíu árum ásamt Þórarni Guðnasyni, kvikmyndatökumanni.
Þá voru engir farsímar en samt var engin hætta á því að við týndum hvor öðrum á helstu breiðgötu Tokyo. Þar var krökkt af dökkhærðu fólki, sem tilsýndar (ofan frá) líktist straumi af dökku fé í réttunum á Íslandi.
Ef við urðum viðskila var það einfalt mál að finna hvor annan: Bara að líta yfir mannhafið dökkleita og sjá, þarna gnæfði Tóti upp úr mergðinni!
![]() |
Íslendingar sagðir hávaxnastir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)