Smá Hrunhúmor í þessu.

Íslandsvinurinn  erlendi sem lýsir Íslendingum fjálglega hefur greinilega húmor fyrir okkur.

Fyrir Hrunið vorum við bestir eða meðal þeirra bestu í öllu. Við vorum með besta fjármálakerfi í heimi og Verslunarráð ályktaði til dæmis að til Norðurlandanna hefðum við ekkert að sækja í þeim efnum, - við stæðum þeim svo langt framar. 

Við vorum ríkasta þjóð heims miðað við fólksfjölda, vorum með minnstu spillingu í heimi og meðal þeirra fremstu í umhverfismálum, að vísu með því að ljúga því að engar upplýsingar fyndust um ástand gróðurs.  Já, við lugum því, vegna þess að Ólafur Arnalds hlaut á sínum tíma umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir að kanna ástand gróðurs á landinu! 

Og þótt við ættum mest mengandi bílaflota í Evrópu skyldum samt vera forystuþjóð á þessu sviði! 

Þetta breytir því þó ekki að ástæðulaust er fyrir okkur að setja ljós okkar undir mæliker svo að notuð séu orð Krists um salt jarðar.  Og enginn stekkur lengur en hann hugsar sagði gamli niðursetningurinn við mig ungan í sveitinni. 

Hvort við séum hávaxnastir má liggja á milli hluta, við erum býsna hávaxin samt. 

Ég áttaði mig ekki á þessu til fulls fyrr en ég fór til Japans fyrir rúmum þrjátíu árum ásamt Þórarni Guðnasyni, kvikmyndatökumanni.

Þá voru engir farsímar en samt var engin hætta á því að við týndum hvor öðrum á helstu breiðgötu Tokyo. Þar var krökkt af dökkhærðu fólki, sem tilsýndar (ofan frá) líktist straumi af dökku fé í réttunum á Íslandi. 

Ef við urðum viðskila var það einfalt mál að finna hvor annan: Bara að líta yfir mannhafið dökkleita og sjá, þarna gnæfði Tóti upp úr mergðinni! 

 


mbl.is Íslendingar sagðir hávaxnastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband