26.8.2011 | 23:32
"Gott við gjörum / og glöð í það förum!"
Það var afar jákvætt andrúmsloft sem streymdi um húsið að Stórhöfða 33 þegar ég var þar í kvöld og verið var að safna fyrir hjartaómskoðunartæki fyrir Barnaspítala Hringsins, enda tilefnið þess eðlis að allir hlutu að hrífast af verkefninu.
Á meðan ég staldraði þarna við og horfði yfir salinn, þar sem víða voru tveir og tvær, tvær eða tvö og tvö sem hjálpuðust að við að taka á móti framlögum, datt niður í minnisbókina mína þessi herhvöt:
"Á allra vörum" gott við gjörum
og glöð í það förum að ná jákvæðum svörum
fyrir batnandi kjörum!
Förum ekki af hjörum en framúr skörum
og okkur spjörum!
Fram lausninni snörum með fræknum pörum
í aðgerðum örum
sem verði´á allra vörum!
![]() |
Safnað í beinni útsendingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2011 | 13:46
Samgleðjumst Eiði Smára.
Eiður Smári Guðjohnsen hefur undanfarin misseri glímt við erfiðasta hluta ferils hvers íþróttamanns, sem koma óhjákvæmilega eftir að líkamlegu hámarki hefur verið náð.
Þess vegna er ástæða til að samgleðjast honum með það að hafa nú komist á skrið, að minnsta kosti í bili og fengið að njóta smá heppni í stað óheppni, sem hefur elt hann síðustu árin.
Gallinn við það að ná hæstu hæðum í íþróttum, eins og knattspyrnumaður gerir með því að safna að sér helstu glæsititlum þeirrar íþróttar þegar hann er í hámarki líkamlegrar getu, er sá að eftir það liggur leiðin óhjákvæmilega niður á við.
Það er kalt á toppnum og reynir oft meira á manninn á leið niður af honum en á leiðinni upp á hann.
Eiður Smári er greinilega ekki af baki dottinn og er það vel.
![]() |
Eiður fer á fornar slóðir í Evrópudeildinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2011 | 13:25
"Umhverfistengd ferðaþjónusta"? Er það virkilega?
Nú eru liðin þrettán ár síðan hingað til lands kom bandarískur prófessor í ferðaþjónustufræðum, virðuleg kona, og hélt hér erindi. Ég tók við hana viðtal fyrir Sjónvarpið.
Hún sagði að sóknarfæri Íslands lægju fyrst og fremst í "umhverfistengdri ferðaþjónustu" þar sem kjörorð markhópsins væri: "Get your hands dirty and feet wet".
Þessi markhópur ferðafólks stækkaði mest. Þetta væru hundruð milljóna manna sem þráði heitast að komast út í ósnortna náttúru og víðerni, af því að í heimalöndum þeirra væri ekkert slíkt að finna.
Ekki drægi úr aðdráttarafli Íslands fyrir þá sök að landið byggi yfir náttúruverðmætum sem væru í flokki mestu náttúruundra veraldar.
Skemmst er frá því að segja að í blaðagreinum og ummælum um þetta voru konunni og því sem hún sagi valin hin hraklegustu orð. "Hálfklikkuð gömul kerlning". "Fjallagrasabull og lopapeysuþvættingur." "Fólk, sem er á móti rafmagni og vill að við förum aftur inn í torfkofana."
Þessi söngur hefur verið sunginn látlaust síðan og fullyrt í ótal viðtölum að einu möguleikar Íslands liggi í að virkja allt sem virkjanlegt er fyrir álver. Annars sé ekkert fjármagn til þess að auka aðgengi.
"Virkjanir og friðun fara vel saman!" "Virkja fyrst og friða svo!" "Lykillinn að því að aðdráttarafli Kerlingafjalla fyrir ferðafólk er að virkja þar!"
Síbylja hefur hljómað, nú síðast í þættinum Vikulokunum þar sem einn þátttakenda sagðist ekki hafa farið að kynna sér Kárahnjúkasvæðið fyrr en malbikaður vegur var kominn og hefði fengið af því fróðleik að sjá yfir lónið, sem látið hefði verið hylja "grjótið".
Að sjálfsögðu hélt þessi maður eins og nær allir að miðlunarlónin væru hið besta mál til að "hylja grjótið".
Sú staðreynd hefur verið skotin í kaf með síbyljuaðferð Göbbelsar sáluga, að 40 ferkílmetrar af grónu landi með 2-4 metra þykkum jarðvegi hefði verið sökkt þarna.
Á þessu "grjóti" lifðu raunar hreindýr á besta beitilandi sínu, og bændur fengu bætur fyrir missi mikils beitilands, en samt trúa allir því að þessi dýr hafi lifað á því að bíta grjót!
Á sínum tíma fór enginn af yfirmönnum Landsvirkjunar inn á Hálsinn sem Hálslón dró nafn af, en þar var 15 kílómetra löng græn og gróin Fljótshlíð íslenska hálendisins.
Meira að segja yfirmaður gerðar skýrslu Landsvirkjunar koma aldrei inn á Hálsins.
Tugþúsundir ferðamanna voru lokkaðar eftir malbikaða veginum til að sjá urðina og grjótið næst stíflustæðinu en enginn þeirra sá nokkurn tíma dalinn fyrir innan sem síðan var sökkt.
Ofan á þetta hefur það verið talið fráleitt að auðnir og sandar geti gefið neitt af sér. Ef það er "grjót" er það einskis virði, til dæmis hinir litfögru Stapar og Rauðaflúð með gljúfrinu þar fyrir neðan, sem sökkt var fyrir innan Kárahnjúka og mátti flokka með Hljóðaklettum og Jökulsárgljúfrum, sem greinilega eru einskis virði af því að þau eru "grjót".
Nú kemur hingað kínverskur auðjöfur og vill fjárfesta í grjótinu fyrir innan Grímsstaði. Í þetta sinn verður ekki hægt að afgreiða hann með kynjafordómum eins og gert var við "klikkuðu gömlu kerlinguna" hér um árið en þess auðveldara að afgreiða hann með kynþáttafordómum og hroka.
Ekki er langt síðan að menn töluðu um það með græðgisglampa í augum að kínverskt fyrirtæki hefði áhuga á að reisa stóriðjuverksmiðju á Bakka.
Huang Nobu gerir hins vegar mikil mistök með því að vilja fjárfesta í "gróti og sandi" í stað þess að vilja fjárfesta í virkjunum og stóriðju. Fyrir þetta mun hann væntanlega verða úthrópaður sem hampandi sömu skoðunum og "óvinir Austurlands" hér um árið um að möguleikar liggi í einhverju öðru en stóriðju og virkjunum.
![]() |
Byggir einnig upp í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)