3.8.2011 | 21:55
Afastrákarnir að koma inn.
Það er gaman að fylgjast með því hvernig afastrákarnir eru að koma inn í knattspyrnuna, þeir Rúrik Andri Þorfinnsson (19) með Fylki, Sigurður Kristján Friðriksson (16 ) með Aftureldingu og Olgeir Óskarsson (22) með Fjölni.
Strákarnir hafa verið á æfingum með landsliðunum í aldursflokkum sínum og lofa góðu.
Rúrik Andri er fljótur eins og afinn var og leikinn eins og pabbinn, skæður sóknarmaður. Ragnar föðurbróðir hans var valinn efnilegasti leikmaðurinn í sínum aldurflokki í Fram á sínum tíma og Ragnar langafi hans var sömuleiðis valinn efnilegasti leikmaðurinn í Íslandsmeistaraliði Fram 1939 þegar hann var 17 ára.
Ragnar og Þorfinnur voru hörkuleikmenn á sínum yngri árum og mátti varla á milli sjá, hvor var betri.
Sigurður Kristján Friðriksson var fyrir 16 árum skírður í höfuðið á afa sinum, sem var í gullaldarliði Fram á sinum tíma.
Ég var úti á landi í dag og missti af því að sjá Rúrik Andra leika með Fylki gegn ÍBV og eiga skot í stöng. "Þetta kemur!" hefði ég kallað ef ég hefði verið á vellinum og veit að það hefði verið eitthvað á bak við það, því að strákurinn var iðinn við að skora í yngri flokkum Fram meðan hann var það, en hann fór yfir í Fylki fyrir þetta leiktímabil.
Næsta laugardag leikur Fylkir við Fram og það verður erfitt fyrir mig að fara á þann leik og þurfa að hvetja sonarson minn til dáða á sama tíma og hann leikur gegn hinu gamla félagi okkar beggja.
Strákarnir kynnast bæði súru og sætu í íþróttunum. Rúrik Andri kom upp úr meiðslum í vor og Olgeir varð fyrir glórulausri taklingu í leik með liði sínu og sumarið var eyðilagt fyrir honum.
En þessir strákar eru ungir, eiga lífið framundan og mótlætið herðir þá bara.
P.S. Nú heyri ég að Íslenski boltinn byrji í Sjónvarpinu klukkan 00:20 eftir miðnætti í kvöld. Það er fullt af ungu fólki og vinnandi fólki sem horfir á þetta efni og furðulegt að hafa þetta á dagskrá um miðjar nætur.
En svona er nú fótboltinn!
![]() |
Eiður Aron kvaddi ÍBV með sigri í Árbæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2011 | 12:35
"Katla og Grímsvötn kallast á."
Fyrir sjö árum stefndu orkufyrirtæki inn á Fjallabakssvæðið til borana sem áttu að verða upphaf virkjanaframkvæmda eins og myndast hafði venja fyrir.
Af því tilefni hóf ég myndatökur fyrir myndina "Katla og Grímsvötn kallast á" sem átti að sýna fram á að þetta svæði eitt og sér væri mun merkilegra en frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone.
Þrýstingnum til að fá að fara inn á svæðið með virkjunarframkvæmdir var aflétt að hluta þegar ekki var leyft að bora þar og átakasvæðin vegna íslenskra náttúrugersema færðust annað. Ég sit því uppi með þann kostnað og það efni sem ég tók í fjölmörgum ferðum um svæðið, en önnur kvikmyndaverkefni hafa færst framar í forgangsröðina.
Þegar Skaftá hljóp um 1970 þóttu það mikil tíðindi og kvikmyndir, sem Rúnar Gunnarsson, þá kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins, tók þóttu mikilfenglegar.
Í kjölfarið fylgdu fleiri Skaftárhlaup á stangli með nokkurra ára millibil, en síðan fór þeim smám saman fjölgandi.
Nú er svo komið að tvö hlaup komi á ári og að það hlaupi úr báðum Skaftárkötlunum. Ofan á þetta bættist hugsanlegt smágos við Lokahrygg í sumar og Grímsvatnagosið auk óróans í Kötlu.
Allt þetta aukna sjónarspil er orðið hluti af því sem ég nefndi "Katla og Grímsvötn kallast á".
Á svæðinu er því stanslaust fjör í sýningunni "Stærsta leiksýning veraldar" sem ég hef nýlega bloggað um.
![]() |
Nýtt Skaftárhlaup að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2011 | 09:05
Góðgerðarstarfsemi ?
Þegar Ross Beaty kom inn í íslenskst fjármálalíf tóku margir honum eins og manni, sem ætlar að stunda góðgerðastarfsemi, enda mikil "vöntun á erlendri fjárfestingu".
Beaty stundaði fagurgala og maður gekk undir manns hönd við að útvega honum mestallt fjármagnið, sem hann kvaðst ætla að leggja fram fé í HS Orku. Voru með ólíkindum þau fríðindi sem hann fékk.
Nú sjá menn að auðvitað var innkoma Beaty ekki undir neinum öðrum formerkjum en til þess að hann gæti grætt sem mesta peninga og tekið þá frá lífeyri landsmanna ef ekki vildi betur.
Var til lítils fyrir alþýðufólk að nurla saman því fé til efri ára til þess að hlaða undir rassinn á Beaty.
Hin raunverulega góðgerðastarfsemi hefur falist í íslenskri orkusölustefnu, sem náði nýrri lægð fyrir 15 árum þegar sendur var bæklingurinn "Lowest energy prizes" til helstu stóriðjufyrirtækja heimsins þar sem orkulindir Íslands voru falboðnar á gjafverði.
Þessi góðgerðastarfsemi Íslendinga fyrir erlenda auðmenn er því miður enn lifandi, samanber mál Magma energy og Ross Beaty.
![]() |
Segir peninga lífeyrissjóða renna í vasa Ross Beaty |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)