9.8.2011 | 22:40
Björn að baki Kára.
Í sögubókum má sjá ýmsar frásagnir af mönnum sem gerðu afrek annarra að sínum með því að eigna sér stóran hlut af þeim. Orðin "Björn að baki Kára" koma í hugann.
Meðan Tiger Woods var stórstjarna og einhver glæstasti íþróttamaður heims var nafnið Steve Williams aðeins þekkt í þröngum hópi þeirra, sem næst stóðu golfsnillingunum sjálfum.
Hlálegt er að sjá hvernig þessum kylfusveini hefur tekist að beina svo mjög athyglinni að sér að ætla mætti að hann hefði verið sigurvegari mótsins.
Þetta minnir mig á frásögn gortara eins af viðureign sinni við skæðan andstæðing, sem ég lærði þegar ég var ungur: "Hann óð að mér með krepptan hnefann í annarri hendinni en ég var fyrri til og sló hann á kjaftinn - bak við eyrað, - hitti ekki, - sló hann aftur á sama stað. Þá lagði hann á flótta, - ég á undan, hann á eftir."
![]() |
Mikil viðbrögð við ummælum Williams |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2011 | 09:57
Sama fyrirbæri og í Bandaríkjunum.
"Tæknilega séð" kann sú stefna hvítra manna að hrekja frumbyggja af löndum sínum og koma þeim fyrir í borgum að sýnast skynsamleg, því að það þurfi að hafa vit fyrir hinu "frumstæða fólki".
Hins vegar er mótsögn fólgin í því hjá þjóðfélögum, sem hafa ákvæði í stjórnarskrá um að eignarétturinn sé friðhelgur að það sé réttlætanlegt að taka landa af frumbyggjum, eyðileggja lífsafkomu þeirra, sem hefur verið óbreytt um aldir, og hrekja þá á brott.
Nú leiðir rannsókn það í ljós, sem hefur lengi blasað við í Bandaríkjunum, að yfirgangur og forræðishyggja hvíta mannsins hefur ekki fært frumbyggjunum hamingju, heldur eru til dæmis indíánar í Ameríku verst setti þjóðfélagshópurinn þar, mesta atvinnuleysið og fátæktin, sem rænir fólk sjálfsvirðingu og veldur því að glæpatíðni verður hærri en annars staðar.
Á ferðum okkar hjóna fyrir áratug um suðvesturríki Bandaríkjanna blasti þetta við á átakanlegan hátt.
![]() |
Hrekja frumbyggja að heiman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.8.2011 | 09:45
Lífsháskinn gerður að féþúfu.
Löngunin til lífs, sjálf lífsbaráttan, er nauðsynlegasta eðlishvöt mannsins og forsendan fyrir tilveru og viðhaldi mannkynsins og hverrar dýrategundar.
Í nútíma þjóðfélagi verndunar sem getur orðið að firringu vex löngun margra til að upplifa það að þurfa að berjast fyrir því að lifa af, eða "survival".
Ég hef áður lýst því fyrirbæri að vaxandi fjöldi ferðamanna, sem kemur til landsins, vilji leigja sér Lada Niva jeppa (sem hét raunar Lada sport á Íslandi, einu landa).
Ýmist er þetta vel stætt fólk, sem kom á námsárum sínum til landsins og hafði ekki efni á að leigja sér dýra jeppa til ferða um hálendið, eða fólk, sem vill gera það að hluta af því að "lifa af" á hálendinu með því að vera á sem ódýrustum farkosti.
Eykur bara á "ævintýrið" ef hann bilar hæfilega mikið, svo að þetta verði raunverulegt "survival"-ævintýri.
Sú ferðamennska nýtur nú vaxandi vinsælda, þar sem fólk fær að sjá þær aðstæður sem fyrri kynslóðir bjuggu við og urðu að glíma við til að berjast fyrir lífinu. Ekki verra að fá að glíma við það sjálfur.
Á þessu virðist meðal annars byggjast útgerð stóra gula trukksins, sem nú er á botni Blautlóna, en greinilegt er að þar hefur verið farið offari algerlega að óþörfu eins og þau gögn, sem nú liggja fyrir, bera vitni um.
Lífsháskinn og lífsbaráttan í okkar erfiða landi getur að sönnu verið tekjulind fyrir ferðamennsku og brýning fyrir okkur sjálf ef rétt er að farið.
En ekki má líðast að koma óorði á slíka ferðamennsku með því að gera sér lífsháskann að féþúfu á ósvífinn hátt, sem skapar algerlega óþarfa lífshættu.
![]() |
Lenti í árekstri á hálendinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2011 | 00:38
Safaríkar upplýsingar.
Lyndon Baines Johnson var einhver litríkasti forseti Bandaríkjanna og var hermt að persónuleiki hans spannaði allt litrófið á mill svarts og hvíts. Hann var einlægur hugsjónamaður varðandi réttarbætur handa svertingjum og afar lipur í samningaviðræðum og samskiptum.
Á hinn bóginn var hann grófur og ruddalegur sóðakjaftur þegar svo bar undir og þótti slóttugur með afbrigðum.
Þótt mestöll dýrðin af réttarbótum í mannréttindabaráttu blökkumanna léki í kringum John F. Kennedy var það samt Johnson sem með sinni miklu slægð og lagni kom mestu af því í verk.
Hefur líkast til enginn Bandaríkjaforseti á síðustu öld afrekað jafn miklu á því sviði.
Fáir hafa staðið Johnson á sporði hvað varðar snilldi í hrossakaupum og baktjaldamakki á Bandaríkjaþingi og þótti hann ekki alltaf vandur að meðölum.
Þar var staða hans svo sterk, að Kennedy valdi hann sem varaforsetaefni sitt þótt hann hefði litlar mætur á persónu hans.
Þegar komið var í Hvíta húsið settu Kennedybræður Johnson út í kuldann, svo að eftir var tekið.
Ekki er að efa að Johnson hafi sviðið það að hafa verið hent eins og notaðri tusku eftir kosningarnar.
Þegar allt þetta er haft í huga er eðlilegt að margir hafi grunað hann um græsku vegna morðsins í Dallas í sjálfu heimaríki Johnsons.
Sé það rétt, sem Jackie Kennedy heldur fram, að Johnson og hópur auðjöfra frá Texas hafi bruggað Kennedy banaráð, voru það líklega mistök hjá Kennedybræðrum að setja hann svona rækilega út í kuldann sem varaforseta, ekki hvað síst ef Johnson hefur talið sig sjá það fyrir að Robert Kennedy ætlaði að taka við af bróður sínum 1968 og sitja þá til 1976.
Johnson hefur vafalaust talið John Kennedy hafa skuldað sér þakkir fyrir þann greiða að stuðla að kjöri hans 1960 og verið afar sár og bitur.
Johnson var veill fyrir hjarta og gat ekki vænst þess að vera í fullu fjöri 1976, enda dó hann 1973.
Kennedyarnir máttu alls ekki vanmeta Johnson heldur búast við hverju sem væri af hans hendi.
Hvað snertir framhjáhöld forsetahjónanna er þar ekki um sérstaklega nýjar fréttir að ræða. Er ljóst að Jackie heldur aldrei getað komist með tærnar í þeim efnum sem þeir bræður höfðu hælana, - eða eigum að segja ekki komist tærnar þar sem þeir bræður höfðu brækurnar.
![]() |
Taldi að Johnson hefði myrt JFK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)