1.9.2011 | 23:12
Óróinn óx líka í kvöld.
Það er búið að skjálfa meira í Kötlu nú síðsumars en venjulega og í kvöld óx órói á óróamælinum í Álftagróf og fór hærra en hann hefur verið undanfarið. Er reyndar að lækka eitthvað aftur.
Komið hafa skjálftar um og yfir tvö stig að undanförnu.
Síðasta Kötlugos varð að hausti. Þá er jökullinn léttastur eftir bráðnun sumarsins, en ekki er vitað hvort eða hve mikið það hefur áhrif á skjálfta og óróa.
![]() |
Jarðskjálfti í Mýrdalsjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.9.2011 | 20:29
Þegar komið meira en nóg.
1992 undirritaði Eiður Guðnason, þáverandi umhverfisráðherra Íslands, Ríósáttmálann svonefnda þar sem aðildarríkin skuldbundu sig til þess að hlíta lögumálum sjálfbærrar þróunar og að láta náttúruna njóta vafans.
Skemmst er frá því að segja að fáar þjóðir hafa brotið gegn þessu eins ítrekað og við Íslendingar, enda veit fólk almennt ekki hvað þessi hugtök þýða í raun.
Sjálfbær þróun gerir ráð fyrir því að nýting okkar á auðlindum sé þannig, að hún skerði ekki möguleika komandi kynslóða til að ákveða,hvernig þær haga nýtingu sinni.
Hvað jarðvarmann snertir miða menn við nokkrar aldir, því að erfitt er að sjá lengra.
Þær takmörkuðu rannsóknir, sem hafa verið gerðar á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu benda til þess að verði allar þær jarðvarmavirkjanir að veruleika, sem þar hafa lent í nýtingarflokki í drögum að Rammaáæltu, verði orka svæðisins uppurin þegar kemur fram á síðari hluta þessarar aldar.
Slík rányrkja er fjarri því að standast kröfur um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku.
Nú þegar er nýtt það mikil orka í virkjunum á þessu svæði, að eina leiðin til að nálgast það að brjóta ekki á komandi kynslóðum, væri að virkja ekki meira, heldur grípa til Hverahlíðarvirkjunar og virkjana suður af Hveradölum þegar orkan í núverandi virkjunum fer að dofna.
Þegar ltið er á ofangreint sést hve fráleitt er að fara út í virkjanir í Bitru og Grændal í ljósi þess að þegar hefur verið gengið of langt í virkjunum á þessu svæði.
![]() |
Fagna verndun Bitrusvæðisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2011 | 19:17
Góðan dag og gott kvöld, takk!
"Góðan daginn" er dálítið sérkennileg kveðja þegar hún er borin saman við sambærileg ávarpsorð nágrannaþjóðanna.
Mér hefur alltaf fundist bæði einfaldara, réttara og fallegra að segja "góðan dag."
Hjá þeim er ekki settur greinir við orðið samanber "god dag", "guten tag" eða "good morning" eða "good afternoon".
Ef það væri gert í þessum tungumálum myndu Danir segja: "Den gode dag" og Bretar "the good morning" eða "the good afternoon."
Nú sækir á ávarpið "góða kvöldið" og þykir ákaflega fínt. Ég hef aldrei kunnað að meta þetta tilgerðarlega ávarp heldur haldið mig við hina einföldu kveðju: "Gott kvöld".
Mér þótti alltaf vænt um það hérna í gamla daga þegar Ingólfur Guðbrandsson, frændi minn, las sjálfur inn á auglýsingu ferðaskrifstofunnar Útsýnar, sem hann átti og sagði: "Útsýn, góðan dag. Alveg sjálfsagt, - IT ferð verður ódýrari."
![]() |
Góðan daginn dagurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2011 | 00:18
Hvítklædd eins og Vigdís forðum í Kaupmannahöfn.
Ein af fyrstu opinberu heimsóknum Vigdísar Finnbogadóttur til útlanda var frægðarferð hennar til Kaupmannahafnar. Þar heillaði hún Dani upp úr skónum að allt annað féll í skuggann, hvítklædd eins og prinsessa í hugsanlegu ævintýri eftir H. C. Andersen.
Rétt á eftir gerðist það að sjö ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar voru á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn.
Hér heima var ekki ónýtt að gantast með þetta á samkomum og tala um þann ævintýrablæ sem Íslendingar hefðu sett á æskustöðvar sjálfs ævintýraskáldsins: Fyrst kom Mjallhvít frá Sögueyjunni og svo komu dvergarnir sjö!
Vigdís brilleraði líka á sameiginlegum blaðamannafundi hennar og Margrétar Danadrottningar, þegar danskir fjölmiðlamenn gengu hart að þeim og baunuðu á þær krefjandi spurning. Danir lýstu þessari skotrhíð spurninga með danska orðinu krydsild, en einn blaðamannanna hér heima þýddi þetta þannig að þær hefðu borðað kryddsíld.
Þetta henti Stöð 2 síðar á lofti og nefndi árlegan áramótaþátt sinn með formönnum stjórnmálaflokkanna þessu nafni.
![]() |
Allir falla í skuggann af Mette Marit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)