Kynþáttamismunun fyrir fæðingu?

Ýmsir fordómar hafa lengi ríkt gagnvart rauðhærðu fólki og sjálfur upplifði ég ýmislegt af því sem krakki þegar stundum var leitað eftir einhverju til að stríða manni á.

Í æskuminningum Hendriks Ottósonar segir hann frá því hvernig rauðhærðir drengir voru hræddir með því að franskir sjómenn sæktust eftir því að klófesta þá og nota þá í beitu. 

Einhverni tíma fyrir langa löngu heyrði ég ávæning af einhverju afbrigðilegu við kynhegðun rauðhærðra kvenna en það er svo langt síðan að ég er búinn að gleyma því í hverju það átti að felast, sem betur fer. 

Upplýst hefur verið að rautt hár sé víkjandi eiginleiki erfðafræðilega séð, og því má furðu gegna ef menn vilja auka á þá mismunun enn frekar með eins konar kynþáttamismunun fyrir fæðingu af hendi sæðisbanka.

Ég finn til mikillar samkenndar með rauðhærðu fólki, nú síðast í gær á ráðstefnu um hjólreiðar, þar sem Jón Gnarr borgarstjóri hélt lokaræðuna. 

Þegar ég hitti Jón í lok ráðstefnunnar tjáði ég honum þessa samkennd og ekki minnkar hún við það að við höfum báðir starfað sem skemmtikraftar, rauðhærðir grínistar.  

 


mbl.is Sæðisbanki hafnar rauðhærðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"I am late".

Það er ekki nýtt að stríðni sé beitt gagnvart flugfélagi, sem hefur átt óstundvísi að glíma í lengri eða skemmri tíma.

Á sínum tíma tókst Loftleiðum að hasla sér völl svo um munaði með því að nota hægfara flugvélar á þeim tíma sem þotur voru að ryðja sér til rúms. 

Í fyrstu voru þetta vélar með bulluhreyflum, DC-6B, en síðan Canadair 44 skrúfuþotur. 

Að öðru jöfnu er erfiðara að halda áætlun með hægfara flugvélum á löngum flugleiðum heldur en með hraðfleygum, því að óhagstæðir vindar gera þeim mun meiri usla sem vélin fer hægar. 

Svo óheppilega vildi til að nafnið Icelandic Airlines hægt var að lesa skammstöfunina IAL (Icelandic AirLines) út úr nafni félagsins og láta það standa fyrir I Am Late og fólst í þessu nokkur stríðni. 

Hins vegar skipti þetta farþegana litlu máli, því að félagið bauð lang lægstu fargjöldin yfir Norður-Atlantshafið og þeim viðskiptavinum fjölgaði stöðugt sem að öðrum kosti höfðu ekki efni á því að fljúga yfir hafið. 


mbl.is „Alltaf seinir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörmulegt slys á "Formúlu eitt flugsins".

Dökka hliðin á bíla- og flugíþróttum eru slysin, sem oft geta orðið hræðileg. Reno flugkeppnin er frægasta keppni af þessu tagi í heiminum og hefur verið það allt frá 1964.

Samkvæmt fréttum sendi flugmaðurinn út neyðarkall áður en hann missti stjórn á vélinni svo hún hrapaði nær lóðrétt niður rétt hjá áhorfendaskaranum við brautina. 

Sama flugvél missti afl í keppninni 1970 en þá tókst flugmaninnum að nauðlenda henni nær óskemmdri. 

Vafalaust verður allt fyrirkomulag og reglur keppninnar teknar til skoðunar eftir þetta hörmulega slys, en ólíklegt er að miklu sé hægt að breyta. 

Það er eðli allrar hreyfingar að henni fylgir hætta og oft því meiri hætta sem hraðinn er meiri.

Flugvélarnar sem att er kappi á í Reno ná allt að 800 kílómetra hraða á klukkustund, en samkvæmt þeim fréttum, sem boris hafa af þessu slysi, virðist það ekki hafa orðið vegna þess að flogið hafi verið of lágt eða hratt, heldur hrapaði vélin eftir ofris í kjölfar þess að hún varð stjórnlaus, hugsanlega vegna vélarbilunar. 

Það á hugsanlega eftir að koma betur í ljós við rannsókn. 

Það er skrýtin tilfinning og ekki beint þægileg að þurfa að bæta á atburði afmælisdags síns þessu slysi ofan á hið hörmulega slys, þegar franska rannsóknarskipið Pourqous pas? strandaði við Mýrar 16. september 1936. 

Hingað til hefur það slys verið eina athugasemdin í íslenskum minnisbókum við þennan dag og mér hefur alltaf fundist það óþægilegt, - hugsað til móður minnar, sem varð 15 ára daginn sem skipið fórst og.  

En svona vegast neikvæðir og jákvæðir hlutir á í lífinu. Við erum fæddir þennan dag, ég, Jón Ársæll Þórðarson (1950) og Artur Björgvin Bollason, - móðir mín hefði orðið níræð í gær og Dagur íslenskrar náttúru er þennan dag. 

Fyrir ári sendi maður mér þá vitneskju í tölvupósti, að 16. september hefðu átta Íslendingar fæðst, allt drengir og allir náðu sjötugsaldri fyrir réttu ári. Það er þó eitthvað til að hugga sig við. 


mbl.is Þrennt ferst á flugsýningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband