22.9.2011 | 22:10
"Hótel jörð" er ekki eign okkar.
Nú er það komið upp að vegna þess að frumbyggjar Ástalíu hafi búið þar miklu lengur en áður var haldið eigi þeir meiri eignarrétt á landinu og þar af leiðandi skaðabótarétt vegna þess að vestrænir landnemar tók það af því.
Þetta leiðir hugann að því að margar svonefndar "frumstæðar þjóðir" svo sem indíánaþjóðflokkar, viðurkenndu ekki eignarrétt á landi. Hann var raunar fjarlægur hugsunarhætti þeirra.
Þeir litu á landið og jörðina sem dvalarstað líkum hóteli, "Hótel jörð" eins og Tómas Guðmundsson orðaði það.
Með Þingvallalögunum 1928 varð til hugtakið "þjóðareign", það er, Þingvellir skyldu vera ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem aldrei má selja né veðsetja."
Þarna var til kominn ný skilgreining á "þjóðareign" sem var önnur en hin hefðbundna "ríkiseign", sem til dæmis felst í fasteignum, húsum og mannvirkjum, sem ríkið getur selt, keypt eða veðsett.
Hugtakið "þjóðareign" var útfært frekar í tillögum stjórnlaganefndar Gunnars Thoroddsens og í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs nú, eru auðlindir, náttúra Íslands og menningarverðmæti skilgreint sem þjóðareign líkt og Þingvellir voru á sínum tíma.
Það liggur í augum uppi að mestu og einstæðustu náttúrudjásn Íslands og menningarverðmæti á borð við fornminjar ættu að falla undir sömu skilgreiningu og Þingvellir.
Ég tel hins vegar að enda þótt með þessu sé stigið stórt skref fram á við, þurfi sýnin að verða víðari þannig að í stað þess að Íslendingar séum "eigendur" náttúruverðmæta og menningarminja séum við vörslumenn þeirra á fyrir afkomendur okkar og mannkyn allt.
Ég get ekki varist þeirri hugsun að viðhorf hinna svonefndu "frumstæðu" þjóðflokka hafi verið réttari en viðhorfin sem við Vesturlandabúar hreykjum okkur svo mjög af.
En ég mun væntanlega ekki lifa það að þessi sýn þeirra og mín verði viðurkennd.
![]() |
Hárlokkur breytir sögunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2011 | 21:45
Óendanlega langt frá hinum endanlega sannleika.
Á hverjum tíma sögunnar telja menn færustu vísindamenn hafa komist að hinum endanlega sannleika.
Þannig var það alveg pottþétt á sínum tíma að jörðin væri flöt og sól og stjörnur snerust í kringum hana.
Ef einhver hefði spáð því fyrir nokkur hundruð árum að hægt yrði að senda hljóð og myndir á ósýnilegan hátt með 300 þúsund kílómetra hraða á sekúndu hefði sá hinn sami verið talinn genginn af göflunum.
Enn verr haldinn hefði menn talið hann ef hann hefði haldið því fram að úti í geimnum væru svarthol.
Afstæðiskenning Einsteins hefur verið talin hinn endanlegi sannleikur okkar tíma. Nú virðist vera kominn brestur í það og hver getur fullyrt að hún standist nokkuð frekar en margt annað sem færustu vísindamenn síns tíma héldu fram?
Ég á erfitt með að sjá annað en tvær samkynja staðreyndir í tilverunni og sköpunarverkinu.
Það eru óendanleikinn og eilífðin.
Það þýðir að mennirnir verða ævinlega óendanlega langt frá því að komast að hinum endanlega sannleika.
Eða, eins og einhver sagði á sínum tíma: "Því meira sem ég veit, því betur rennur það upp fyrir mér hvað ég veit lítið."
Mig grunar að við búum yfir hugarorku en höfum mismikla hæfileika til að senda hana frá okkur eða taka við henni.
Sé hún til getur hún áreiðanlega farið mun hraðar en ljósið.
Nú geta menn brugðist við þessu hjá mér með því að segja að maður sé ekki alveg í lagi að halda svona fram og við því er svo sem ekkert að segja.
Sem betur fer er villt ímyndunarafl eitt það besta sem við mennirnir búum yfir, - að vísu mismunandi mikið og mismunandi villt, því að það gerir okkur kleift að komast út úr spennitreyju þeirrar þekkingar, sem menn telja endanlega á hverjum tíma, en er í raun svo óendanlega langt frá því að vera endanleg.
![]() |
Andstætt afstæðiskenningu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.9.2011 | 09:43
Gerir illt verra.
Verkföll, órói og truflanir á grísku þjóðlífi og efnahagslífi vegna mótmæla gegn efnahagsráðstöfunum mun líklega aðeins gera illt verra.
Gríski vandinn hefur tvær hliðar:
Annars vegar er komið að óhjákvæmilegum skuldadögum vegna lánafyllerís landsins í bland við víðtæka pólitíska spillingu sem sýkt frá sér niður í gegnum þjóðfélagið.
Ef Grikkir líta í eigin barm sjá þeir að fjöldaþátttaka í svindli innan ríkis- og velferðarkerfisins var orðið þjóðarmein, sem gekk svo langt, að fólk tók til dæmis í stórum stíl út lífeyri fyrir dáið fólk.
Ofan á þetta bættist svipuð fjöldaþátttaka í lánasprengingunni og var hér á landi í aðdraganda Hrunsins.
Hins vegar verður að líta á það að enda þótt hægt sé að segja að þjóðir fái þá ráðamenn, sem þær eiga skilið, eiga milljónir Grikkja engan þátt í því hvernig komið er og meðal þeirra ríkir réttlát reiði yfir því hvernig þeir, sem eru ríkir og hafa rétt sambönd, sleppa við að borga það tjón sem þeir ollu.
![]() |
Engar almenningssamgöngur í Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)