25.9.2011 | 23:34
Snilld forfeðra okkar.
Víkingaskipin til forna og skip margra svonefndra frumstæðra þjóðflokka voru í raun vísindaleg snilldarsmíð þannig að betur verður ekki gert í tölvulíkönum nútímans. .
Lag langskipanna var háþróað með tilliti til lágmarks mótstöðu þannig að ræðarnir gátu róið þeim á ævintýralegum hraða.
Þegar Thor Hayerdal lét smíða Kon-tiki flekann til siglingar yfir Kyrrahaf þótti honum skrýtið að samkvæmt fyrirmyndinni áttu stögin, sem héltu flekanum og mastri hans saman, að vera afar slök og sama var að segja um festingarnar og bindingarnar sem bundu trjábolina saman.
Heyerdal lét því stögin og festingarnar vera stinn svo að flekinn hefði nægan styrk og gæfi ekkert eftir.
Þegar byrjað var að sigla flekanum kom hins vegar í ljós, að þegar hann var kominn út á sjávaröldurnar, nögðu stögin og bindingarnar sig smám saman inn í trjábolina og eyðilögðu flekann.
Fornmennirnir höfðu nefnilega get ráð fyrir því að flekinn gæti verið sveigjanlegur á öldunum og höfðu slakann á stögunum og bindingunum í samræmi við það.
Eftir að nýr fleki hafði verið gerður eftir þessari fyrirmynd gekk allt upp og flekinn hreyfði sig og vatt upp á sig eins og lifandi vera á öldum Kyrrahafsins án þess að stögin nöguðu hann í sundur.
Sumir flugvélahönnuðir á liðinni öld eins og hönnuður ítölsku Partenavia flugvélanna þurftu ekki vindgöng til að prófa flugvélarnar sem þeir hönnuðu til þess að þær flygju eins og best yrði á kosið.
Eitt besta dæmið um það var Partenavia Victor sem var búin tveimur 200 hestafla hreyflum. Hún var með fastan hjólabúnað, sem ekki var hægt að taka upp, en flaug samt hraðar með hjólin niðri en jafnstór bandarísk vél af gerðinni Piper Seneca af sömu stærð með sömu hreyfla, sem tók hjólin upp.
![]() |
Stærsta víkingaskip í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.9.2011 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2011 | 19:54
"Hamarinn sem hæst af öllum ber."
Hornbjarg er kannski stærsta fuglabjarg landsins en Látrabjarg er mun aðgengilegra og auðveldara fyrir ferðamenn. Látrabjarg á sérstakan sess í huga mínum síðan ég gerði fyrstu heimildarmynd mína fyrir Sjónvarpið, en hún var um Látrabjarg og bar nafnið "Hamarinn, sem hæst af öllum ber" var um Látrabjarg.
En mestu varðar þá að konan mín frá Vesturbyggð og sú byggð mér sérlega hugstæð eins og sést af lagi og ljóði sem ég samdi á sínum tíma í oðastað hennar:
BYGGÐIN MíN.
Langt í vestri vakir byggðin mín
vinaleg í faðmi brattra fjalla.
Unaðsleg hún ól upp börnin sín
er þau hlupu´um strönd og græna hjalla.
Roðagylltur Rauðisandur er.
Rís úr hafi landsins ysti vörður.
Ævinlega´er efst í huga mér
æskubyggðin kæra, Patreksfjörður.
Fyrir 25 árum krækti ég mér í firmanafnið "Hugmyndaflug" og hugðist fara út í það að bjóða ferðamönnum, einkum erlendum, að kaupa sér eins dags ferð, þar sem þeim væri tryggt einstætt ferðalag.
Staðirnir, sem í boði væru, yrðu Látrabjarg, Hornvík og Hornbjarg eða Kverkfjöll og færi eftir veðri hvert haldið yrði. Ef ekki væri flugfært til neinna þessara staða fengju þeir endurgreitt verð ferðarinnar.
Flogið yrði frá Reykjavík og lent á gömlum lendingarstað í fjörunni við Hvallátra, þaðan gengið um gömlu verstöðina Brunna að Bjargtöngum. Frá Bjargtöngum er stutt ganga upp aflíðandi bjargbrúnina að Ritugjá, þar sem bjargið er 60 metra hátt og fuglalífið í algleymingi.
Því miður láta alltof margir þetta nægja, en það er ótal margt að sjá ef menn halda áfram upp eftir aflíðaindi bjargbrúninni alla leið upp, þar sem bjargið er rúmlega 440 metra hátt.
Mesta ævintýrið er þó að fara niður svonefnda Saxagjá um snarbratta urð og ganga þaðan til vesturs út á svonefnda Saxagjárvöllur, en í þar slógu menn fyrrum gras með orfi og ljá, heyjuðu í bratta, sem er ávið bröttustu húsþök og drógu síðan eða báru heyið alla leið upp á bjargbrún.
Hér er aðeins fátt nefnt, en að mínum dómi eru möguleikar þessa svæðis stórlega vannýttir.
Á sínum tíma ræddi ég þessi áform við þáverandi flugmálastjóra, Pétur Einarsson, sem leist mjög vel á þær. Þegar til átti að taka var skriffinnskan í kringum þetta hins vegar svo mikil að ég hætti við, enda nóg að gera við önnur viðfangsefni.
![]() |
Mikilvægt að vernda svæðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2011 | 12:29
Enn einn bullarinn ?
Það hefur farið eins og mig grunaði í upphafi að gosið í Eyjafjallajökli myndi laða til landsins fjölda erlendra ferðamanna, sem annars hefðu ekki komið hingað. Einkum væri það mikilvægt að hingað myndu koma þeir útlendingar sem helsta hafa áhrif á grundvelli þekkingar og reynslu víða um lönd.
Sjálfur hef ég unnið með fjölmörgum af þessu mönnum, sjónvarps- og útvarpsmönnum frá öllum heimsálfum, rithöfundum, blaðamönnum, ljósmyndurum og stjórnmálamönnum.
Álit þeirra er einróma og í samræmi við það sem ég hef haldið fram hin síðari ár, að náttúra Íslands, einkum á hinum eldvirka hluta landsins, sé eitt af helstu undrum heims og standi framar ýmsum þeim svæðium, sem hingað til hafa verið talin merkilegust, svo sem frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone.
Sú skoðun mín hefur verið staðfest í útttektum virtra vísindamanna og ferðafrömuða.
En hér heima er oft eins og maður sé að klappa í stein varðandi þetta mál, menn láta sér fátt um finnast og tala með lítilsvirðingu um "eyðisanda, grjót og urðir."
Ástæðan er einföld: Menn eru enn fastir í þeirri sýn að náttúran sé einskis nýt nema á mælikvarða megavatta og tonna af málmum, sem hægt sé að kreista út úr henni.
Það truflar nefnilega hríslandi fögnuðinn yfir stjótfenginni þenslu og gróða við undirskrift verktakasamninga og orkusölusamninga ef bent er á gildi íslenskrar náttúru ósnortinnar, hvað þá ef því er haldið fram að til lengri tíma litið gefi það meira af sér fjárhagslega að nýta sér gildi hennar öðruvísi en með því að gera sem mest af henni að virkjana- og iðnaðarsvæðum.
Hamrað er á því stanslaust að virkjanir og lón séu aðeins á eyðisöndum og urðum, þótt vitað sé, til dæmis, að í flestum tilfellum er sökkt landi undir miðlunarlón, sem er grænt og gróið í lægðum og vinjum hálendisins.
40 ferkílómetrar af grónu landi fóru undir Hálslón og næstum því svo mikið undir Blöndulón. Gróðurlendisvin mun fara undir lón vegna virkjunar Skjálfandafljóts og gróðurlendi verður sökkt undir lón Búlandsvirkjunar, svo að dæmi séu tekin.
Í augum margra Íslendinga eru þeir útlendingar bullarar og vitleysingar, sem sjá möguleikana og gildið, sem ósnortin íslensk náttúra felur í sér, - vita ekkert hvað þeir eru að segja, því að auðvitað vitum við þetta allt best sjálf.
Jean De Lafontaine, sem komið hefur til 62ja landa og segir íslenska náttúru taka öllu fram sem hann hafi áður séð, er þar af leiðandi enn einn bullarinn sem kemur hingað til lands, með jafn vitlausar hugmyndir um land okkar og kínverjinn Huang Nubo.
![]() |
Náttúran er hreint út sagt ótrúleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)